Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 14:16:21 (3350)

2001-12-14 14:16:21# 127. lþ. 55.14 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf. mælti hér m.a. fyrir brtt. um að fresta dagsetningu varðandi val þeirra báta sem fara úr svokölluðu þakkerfi og vilja velja sig inn í dagakerfi eða þá eftir atvikum krókaaflamarkið. Ég styð tillögu hv. þm. Ég tel að það sé eðlilegt að gefa mönnum nægjanlegt og sem best svigrúm til að velja sig inn í það kerfi sem þeir vilja vinna eftir í framtíðinni, og eðlilegast að þá liggi fyrir þær upplýsingar sem duga mönnum til að vinna eftir. Meiri hluti sjútvn. breytti upphaflegri tillögugrein í frv. frá 1. nóvember til 1. febrúar beinlínis og fyrst og fremst til að tryggja að þetta svigrúm fengist. Ég held að það sé rétt ábending sem hv. 4. þm. Vestf. hefur komið fram með, að dagsetningin 1. febrúar er ekki alls kostar heppileg. 15. febrúar er mun betri, og þess vegna styð ég tillöguna og mun hvetja til þess að hún verði samþykkt hér á eftir.