Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 14:50:22 (3360)

2001-12-14 14:50:22# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er stuðningsmaður þessa máls og tel einboðið að Íbúðalánasjóður eða stjórn Íbúðalánasjóðs fái heimildir til þess að ganga til samninga við sveitarfélög sem eru að endurskipuleggja fjármál sín og vera þátttakandi í því með því að fella niður að hluta eða slá af þeim skuldum sem viðkomandi sveitarfélag er með hjá sjóðnum og taka þannig þátt í fjárhagslegri heildarendurskipulagningu viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga.

Ég og hæstv. félmrh. ræddum við 1. umr. málsins aðeins um það hversu rúmt væri ætlunin að túlka þær heimildir sem þarna eru að koma til. Hæstv. ráðherra tók fram að ekki væri ætlunin að sveitarfélög þyrftu að vera í formlegri gjörgæslu eins og það er kallað með fjármál sín hjá félmrn., þ.e. að ákvæði 76. gr. um sviptingu fjárforræða o.s.frv., 77. gr. um fjárhaldsstjórn og önnur ákvæði sem þá koma til, þyrftu að eiga við. Með öðrum orðum, það er í rauninni nóg að til staðar séu erfiðleikar hjá viðkomandi sveitarfélagi af þessum toga og að tillögur liggi fyrir um heildarendurskipulagningu á fjárhag viðkomandi sveitarfélags sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga mælir með. Segja má að í reynd sé verið að tala um einhvers konar óopinbera, óformlega nauðasamninga viðkomandi sveitarfélags, þó ekki í lögformlegum skilningi.

Þar af leiðandi, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að það séu mistök að vitna eins og gert er í frumvarpsgreininni í 75. gr. sveitarstjórnarlaga. Annaðhvort ætti að sleppa tilvitnun í einstakar greinar eða láta nægja að taka það fram, eins og gert er í textanum, að skilyrði fyrirgreiðslunnar sé að fjármál viðkomandi sveitarfélags sé til meðferðar hjá eftirlitsnefnd og að um sé að ræða lið í samræmdum aðgerðum kröfuhafa í tengslum við heildarendurskipulagningu á fjármálum sveitarfélagsins.

Það er að sjálfsögðu skaðlaust að vera með tilvitnun í 74. gr. því hún fjallar um eftirlitsnefndina sem slíka. En 75. gr. fjallar eingöngu um sveitarfélög sem komin eru í fjárþröng, eins og þar segir og hefst á orðunum, með leyfi forseta:

,,Komist sveitarfélag í fjárþröng þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum skal hún tilkynna það til eftirlitsnefndar skv. 74. gr.`` Síðan segir: ,,Eftirlitsnefnd skal þá tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri ...`` Þarnæsti málsliður: ,,Eftirlitsnefnd er heimilt að grípa til aðgerða skv. 2. mgr. hafi sveitarstjórn ekki sinnt aðvörun ...`` Og loks síðasti málsliður 75. gr.: ,,Komi í ljós við rannsókn að fjárhagur sveitarfélags sé slíkur ...``

Allt er þetta í framhaldi af tilkynningu sveitarfélags um fjárþröng.

Í athugasemdum við frv. er hins vegar talað um að:

,,Því er gert ráð fyrir að fjármál viðkomandi sveitarfélags séu til meðferðar hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, hvort heldur er vegna þess að sveitarfélagið hafi tilkynnt um fjárþröng eða eftirlitsnefndin tekið mál sveitarfélagsins til meðferðar að eigin frumkvæði ...`` Og hvernig gerir hún það? Hún hlýtur að gera það á grundvelli 74. gr., þar sem hinu almenna hlutverki eftirlitsnefndarinnar er lýst. En þar segir m.a. svo:

,,Ráðherra skipar þriggja manna eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga.``

Það er til þessa eftirlitshlutverks sem þarna er verið að vísa og segja: Það er nóg að eftirlitsnefndin sé að skoða fjármál viðkomandi sveitarfélags, þá stofnast möguleikinn á því í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu að Íbúðalánasjóður fái þessar heimildir.

Þar af leiðandi, herra forseti, hvernig sem ég skoða málið, kemst ég að þeirri niðurstöðu að óheppilegt sé að vera með tilvísun í 75. gr., þ.e. greinina sem eingöngu fjallar um sveitarfélög sem komin eru í fjárþröng í skilningi þeirrar greinar.

Og af því að hæstv. ráðherra hefur tekið af skarið um að ekki sé ætlunin að túlka þetta svona þröngt hefði ég talið heppilegra að fella niður tilvísun í 75. gr. og hef flutt um það svohljóðandi brtt.:

,,Við 1. gr. Í stað orðanna ,,sbr. 74. og 75. gr. sveitarstjórnarlaga`` í 1. málsl. efnismálsgreinar komi: sbr. 74. gr. sveitarstjórnarlaga.``

Það tel ég efnislega réttara og í samræmi við tilgang málsins og í samræmi við þær túlkanir sem uppi hafa verið.

Menn kunna að segja að þetta sé ekki stórmál og framkvæmdin muni ganga fyrir sig hnökralaust á hvorn veginn sem er og gott og vel. En ef einhver tiltekinn hlutur af þessu tagi vakir fyrir mönnum að hafa framkvæmdina með tilteknum hætti, þá eiga menn að reyna að hafa lagaskírskotun eða tilvísun eins efnislega skýra og kostur er, og það finnst mér ekki gert með því að vísa þarna í 75. gr. sérstaklega, það er óþarfi. Það er auðvitað alveg ljóst að ef hún á við, ef sveitarfélagið er formlega búið að tilkynna um fjárþröng, eða ef ákvæði 76. og 77. gr. um sveitarfélög sem hafa beinlínis misst fjármálalegt sjálfstæði sitt eiga við, þá er að sjálfsögðu skilyrðunum hvort sem er fullnægt og málin hvort sem er komin til eftirlitsnefndar sveitarfélaga löngu áður en svipting fjárforráða fer fram. Því er óþarfi að vísa til þess. Og eðlilegast og heppilegast held ég að sleppa annaðhvort tilvísuninni með öllu eða vísa eingöngu í 74. gr.