Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:15:39 (3372)

2001-12-14 15:15:39# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson. Stjórn Íbúðalánasjóðs er skipuð fólki úr flestöllum flokkum og Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrv. alþingiskona, er til að mynda ekki, svo ég viti til, í Sjálfstfl. eða Framsfl.

Ég vil líka minna hv. þm. á að það var í tíð vinstri stjórnarinnar 1987--1990 sem hvað mest var byggt af þeim félagslegu íbúðum sem nú eru hvað erfiðastar fyrir sveitarfélögin. Ég tel því óþarft (Gripið fram í.) að tala um þessi mál eins og verið sé að leysa mál sem þessi ríkisstjórn hafi staðið fyrir.

Ég vil líka spyrja hv. þm. hvað hann meini þegar hann talar um heildarlausnir á þessu máli. Er hann að hugsa um að öll sveitarfélög með félagslegt húsnæði á sínum snærum sem eru í fjárhagslegum vandræðum geti beðið um niðurfellingar í Íbúðalánasjóði, þ.e. að það verði opið fyrir öll sveitarfélög? Hvað hugsar hann sér með einstaklinga í sömu sveitarfélögum sem hugsanlega eru líka í miklum fjárhagslegum vandræðum? Hvernig vildi hv. þm. leysa þau mál ef til kæmi og búið væri að gefa fordæmi á borð við þá opnun sem hann er að tala um?