Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:19:27 (3374)

2001-12-14 15:19:27# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að teygja lopann mikið. Ég vil bara minna hv. þm. á að þegar þessar félagslegu byggingar voru reistar á níunda áratugnum, var það frekar gert af vilja en mætti í mjög mörgum sveitarfélögum úti á landi þar sem verið var að halda uppi atvinnu fyrir byggingarverkamenn. Þá hafði þegar orðið mikil fækkun úti á landi og menn voru í miklum vandræðum með að halda uppi uppbyggingunni í þessum sveitarfélögum. Alls konar listar lágu frammi fyrir fólk sem sóttist eftir því að komast inn í þessar íbúðir. Þeir voru að sjálfsögðu notaðir.

Ég vil ítreka að ég held að þessir listar og framkvæmdirnar á þeim árum hafi gengið of langt. Sveitarfélögin réðu ekki við uppbygginguna. Fólkið var ekki til staðar þegar upp var staðið og þann vanda er verið að leysa núna. Hæstv. félmrh. er að reyna að leysa þann vanda ásamt fleirum.