Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:26:13 (3377)

2001-12-14 15:26:13# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Úr því hv. þm. getur skilið þessa brtt., sem mér sýndist saklaus, með þeim hætti sem hann gerði er eins víst að fleiri geti misskilið hana og þar með er þetta ómöguleg brtt. Ég get því ekki stutt hana. Hugmyndin með þessu er ekki að leysa hér vanda sveitarfélaganna á landsvísu, það er ekki staður eða stund til þess. Hins vegar er reynt að hjálpa tveimur tilteknum sveitarfélögum að ná samningum við lánardrottna sína með því að opna þessa heimild fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs til að fella niður hluta af vanskilaskuldum. Með sama hætti og með lagabreytingu í fyrravor var undir tilteknum skilyrðum opnuð heimild handa stjórn Íbúðalánasjóðs til að liðsinna einstaklingum í greiðsluvandræðum.

Stjórn Íbúðalánasjóðs er ágætlega skipuð. Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrv. alþm., er ekki svo ég viti í öðrum hvorum stjórnarflokknum eða stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og þaðan af síður varamaður hennar, Kristján Gunnarsson í Keflavík, sem hefur gegnt störfum fyrir hana lengst af á þessu kjörtímabili því hún hefur verið úti í löndum að störfum þar. Hann hefur ekki verið stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar svo ég viti til.

Auðu íbúðirnar voru byggðar fyrir tíð núverandi ríkisstjórnar. Meðalaldur félagslegra íbúða á Íslandi er í kringum 15 ár. Gerður hefur verið sá biðleikur, til þess að létta á sveitarfélögunum, að lánin fá að standa á upphaflegum vöxtum, þ.e. 2,4% vöxtum, líkt og um félagslegar eignaríbúðir væri að ræða.

Ég vil síðan taka fram, þótt ekki sé svo sem ástæða til að orðlengja það við þessa umræðu, undir þessum formerkjum, að það hefur aldrei verið nálægt því jafnmikil hjálp veitt til einstaklinga á Íslandi við að koma sér upp húsnæði.