Húsnæðismál

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:33:00 (3382)

2001-12-14 15:33:00# 127. lþ. 56.11 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú er kominn smá jólagalsi í menn held ég og hér hefur kviknað hin líflegasta umræða um félagsleg húsnæðismál og fleira þannig að það er bersýnilega ótímabært að flytja tillögu um að fresta fundum Alþingis og nógur kraftur er eftir í mönnum hér til að ræða málin. En ég skal með tilliti til aðstæðna hafa þetta stutt af minni hálfu.

Það er alveg hárrétt sem hér hefur verið komið inn á að þetta mál sem slíkt gengur auðvitað allt of skammt til þess að taka á hinum almenna vanda. Þar þarf meira til en bara að stokka upp samskipti ríkis og sveitarfélaga í sambandi við húsnæðismál. Það þarf auðvitað að fara í öll þau tekjusamskipti. Ég minni á að við höfum ítrekað flutt brtt. eða í formi sjálfstæðra tillagna eða frumvarpa um að hafist verði handa um að taka á þessum vanda. Í fyrstu umferð yrði þá t.d. tekinn frá milljarður kr. til þess að ríkið kæmi á móti sveitarfélögunum í að gera upp þennan mikla uppsafnaða vanda sem þarna liggur. Það þarf að gera og verður að gera. Það er ömurlegt að horfa upp á að menn ýti honum bara á undan sér. Hann liggur eins og klafi um háls margra sveitarfélaga í landinu sem í raun geta sig engan veginn hreyft, komast hvorki lönd né strönd með sín mál vegna þess að þau eru fjárhagslega í bóndabeygju, m.a. og ekki síst út af þessum skuldbindingum.

Herra forseti. Ég hlýt líka að nota tækifærið til að mótmæla þeim leiðinlega söng sem hv. þm. Kristján Pálsson fór því miður með hér eina ferðina enn um að þessi vandi væri að verulegu til kominn vegna þess að menn hefðu byggt íbúðir að þarflausu víða um land til þess að halda þar uppi atvinnu. Þetta er ómerkilegur og rangur rógur um sveitarstjórnarmenn og stjórn Húsnæðisstofnunar og aðra sem höfðu með þessi mál að gera á sínum tíma. Ég fullyrði að það er í hreinum undantekningartilvikum ef svo hefur verið, einfaldlega vegna þess að þessi mál byggðu á úttekt á hverjum tíma, á þarfagreiningu og ekki voru veitt lán nema fyrir lægju umsóknir um íbúðir. Það var engin sýndarmennska í því. Ég gæti nefnt fjölmarga staði þar sem fólki var að fjölga, þar sem húsnæðisskortur var af því einstaklingar byggðu ekki og byggja ekki á landsbyggðinni.

Hvernig átti þá að bæta við húsnæði? Hvaða úrræði höfðu sveitarstjórnarmenn og aðrir til þess að reyna að stuðla að því að húsnæði bættist við á stöðum þar sem fólki var að fjölga? Jú, það var að fara í þetta kerfi. Ég get nefnt dæmi um staði eins og Hólmavík og Þórshöfn þar sem fólki var að fjölga jafnt og þétt, t.d. á níunda og fram á tíunda áratuginn, en nánast engin hús voru byggð á vegum einstaklinga, og við vitum af hverju það er. Vegna óvissu og vegna þess hvernig fasteignamarkaðurinn er á landsbyggðinni byggja menn auðvitað ekki hús fyrir 12--20 millj. sem þeir vita að þeir muni ekki fá nema 4 eða 6 fyrir ef þeir þurfa svo að selja þær. Hver getur ekki sett sjálfan sig í þau spor og spurt sig: Mundi maður taka lán, skuldsetja sig og ráðast í stærstu fjárfestingu lífs síns og hætta henni með þeim hætti? Enda er niðurstaðan af þessu ástandi ósköp augljós. Hún blasir við. Með undantekningunni Akureyri heyrir það til hreinna tíðinda að einstaklingar byggi hús (Gripið fram í: Nei.) á landsbyggðinni nema helst í sveitum af því þar er engum öðrum til að dreifa.

Sem betur fer er það fekar undantekningin en reglan enn þann dag í dag að þessar íbúðir standi tómar í stórum stíl. Það er sem betur fer ekki svo þannig að ég mótmæli þessum ómaklega málflutningi sem stundum er verið að ýta undir um að þarna hafi menn verið með einhverjar vafasamar ákvarðanir á ferðinni svona almennt talað. Auðvitað horfðu menn á það --- og hvað er það annað en eðlilegt? --- að þetta voru framkvæmdir eins og hverjar aðrar framkvæmdir. Þeim fylgdi atvinna að sjálfsögðu. Er eitthvað að því? Gleðjast menn ekki að breyttu breytanda yfir öllum framkvæmdum þegar þær koma til og skapa líf og störf í viðkomandi byggðum?

Herra forseti. Að lokum um frv. þetta og brtt. sem ég hef nú flutt eða öllu heldur endurflutt þar sem ég legg til að tilvísunin í tilteknar lagagreinar í sveitarstjórnarlögunum verði þannig að sagt verði sbr. 74. ,,eða`` 75. gr. sveitarstjórnarlaga í staðinn fyrir ,,og``. Þá held ég að því verði ekki á móti mælt að þannig úr garði gerður er texti frv. nákvæmlega eins og menn ætla sér að hafa framkvæmdina. Það er ekki hægt að mæla móti því. Það er alveg skýrt, fullkomlega skýrt, ,,ganz klar``, að þá er þetta orðað nákvæmlega eins og hæstv. félmrh. hefur verið að segja okkur að hann vilji standa að framkvæmdinni.

Það breytir hins vegar engu um það í hvaða umfangi heimildin verður notuð. Það er sjálfstætt mál. Þó að við samþykkjum þessa brtt. erum við ekki á nokkurn hátt að ákveða eitt eða neitt fyrir fram um það í hvaða umfangi heimildin verður notuð. En þá er a.m.k. alveg ljóst að álappaleg lagatilvísun mun ekki þvælast fyrir mönnum í þeim efnum og hugsunin er orðuð inn í lagatextann, tel ég vera, með þessari brtt. alveg nákvæmlega eins og hæstv. félmrh. hefur hér hátíðlega lýst að hann vilji hafa hana.

Herra forseti. Þá er þetta mál vonandi skýrt. Eins og einn ónefndur fyrrverandi flugmálastjóri hefði kannski orðað það hérna þá er þetta morgunljóst.