Girðingarlög

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:41:49 (3383)

2001-12-14 15:41:49# 127. lþ. 56.12 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv. 135/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að flytja og afgreiða við 3. umr. frv. til girðingarlaga sem er hið ágætasta mál og ábyggilega til mikilla bóta eins og það hefur verið unnið.

Það er aðeins eitt atriði í því sem mér finnst orka tvímælis. Það snýr að réttarstöðu þess fólks sem lengi hefur búið í sveitum við ógirt land. Í 5. gr. frv. segir:

,,Nú vill umráðamaður lands girða það og hefur hann þá rétt til að krefjast þess að sá eða þeir sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu að tiltölu við lengd girðingar fyrir landi hvers og eins og er það meginreglan.``

Ég vil gera að umræðuefni áður en ég skýri brtt. hvaða réttarstöðu fólk hefur sem hefur kannski búið í sveit við ógirt land áratugum saman. Svo gerist það sem iðulega gerist dagsdaglega nú á tímum að bændur bregða búi og jarðir fara á sölu og það tíðkast mjög að fólk er að kaupa sér jarðir. Sumir kaupa sér jarðir vegna þess að þeir ætla eingöngu að dvelja þar að sumarlagi án þess að stofna til neinna sérstakra framkvæmda á jörðinni. Aðrir kaupa sér jarðir og hugsa dæmið þannig: Ef ég leyfi beit, t.d. hrossa, á minni jörð fæ ég stóran hluta af verðmæti þess sem ég borga fyrir jörðina smátt og smátt til baka. Þetta á reyndar líka við ef menn kaupa sér jörð og vilja hefja þar skógrækt eða eitthvað slíkt. Samkvæmt frv. sem við erum að fjalla um á hinn nýi landeigandi rétt á að krefja bóndann um að hann skuli greiða girðingarkostnaðinn að jöfnu við hann. Hann á þann rétt samkvæmt meginreglunni. Að vísu er hægt að kalla til matsmenn og eitthvað slíkt til að meta hvernig girðingin nýtist hvoru landi eða hvernig hún liggur að hverju landi. En segjum sem svo að þetta sé jörð þar sem girða þarf milli fjalls og fjöru, langt inn á heiðalönd, til þess að aðskilja lönd ef annar vill beita hestum á jörðina en hinn telur það sér ekki hagkvæmt. Þá er komin upp sú staða að sá jarðareigandinn sem búið hefur í áratugi á þessu landsvæði við ógirt land er allt í einu krafinn um það að leggja fram helming á móti þeim sem var að kaupa.

Ég vil samkvæmt þessari brtt. bæta inn í að ábúendur sem búið hafa við ógirt land síðastliðin 20 ár eigi rétt á að krefjast annarrar kostnaðarskiptingar en þeirrar sem er meginreglan, að greitt skuli að jöfnu.

Ég tel að með þessu væri verið að auka réttarstöðu þess fólks sem búið hefur í sveitum um langan tíma og að það eigi að gera það. Ég tel réttlætismál að þeir sem kaupa sér land og koma inn í sveitir geti ekki sjálfkrafa krafist þess að eldri ábúendur taki á sig, til jafns við þann sem flytur eða kaupir, girðingarkostnað við landið sem áratugum saman hefur verið ógirt. Mér finnst að það verði að teljast ósanngjarnt að ábúendur sem búið hafa lengi við ógirt land án þess að það hafi valdið neinum skaða, eins og segir hér í örstuttri greinargerð, þurfi að búa við það ef nýr eigandi verður að næstu jörð að hann geti krafist girðingar. Jafnvel þótt áratuga hefð sé fyrir ógirtu landi getur hinn nýi eignaraðili krafið bændur sem lengi hafa búið að bera kostnað að hálfu við girðingar á landi sem aldrei hefur verið girt.

Ég tel að með brtt. sé þeim sem búið hafa á jörðum tryggð betri réttarstaða, þeir geti sem sagt krafist þess að þurfa ekki að taka þátt í girðingarkostnaði að jöfnu við þann sem girðingar hefur krafist.