Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:02:33 (3393)

2001-12-14 16:02:33# 127. lþ. 56.17 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 2. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Það mál sem nú er loks komið á dagskrá var rætt hér að einhverju leyti í nótt og í skjóli nætur átti að skjóta í gegn einhverju skrýtnasta máli sem hér hefur komið fram.

Því miður var það svo í umræðunni í nótt að hæstv. samgrh. svaraði ekki þeim spurningum sem til hans var beint sem ég tel mikilvægt að fá svör við áður en málið verður afgreitt af hinu háa Alþingi, því mér sýnist einbeittur brotavilji meiri hlutans til þess liggja þannig að meiri hlutinn vilji afgreiða þetta mál. Því held ég að mikilvægt sé að nokkur grundvallarsvör liggi fyrir áður en málið er afgreitt úr þinginu.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, er málið þannig vaxið að enginn getur orðið leigubifreiðastjóri fyrr en eftir langa og stranga baráttu. Menn þurfa að ávinna sér tíma. Menn þurfa að ávinna sér bíltíma. Menn þurfa að ávinna sér meirapróf. Menn þurfa að ávinna sér forfallapróf. Menn þurfa að ávinna sér leyfispróf. Og ekki verða gefin út nema u.þ.b. 700 leyfi, við þau verður ekki bætt, heldur þarf leyfi að detta út til þess að nýir komi inn. Og hugmyndafræðin er síðan sú að utan um þetta kvótakerfi verði stofnuð ný útgáfa Fiskistofu, sem nú á að gera Vegagerðina að.

En ég held að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, áður en lengra er haldið, að hæstv. ráðherra svari því hvað það er í stjórn þessa málaflokks sem gerir það að verkum að almannahagsmunir séu svo ríkir að ganga verði gegn atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Hvaða almannahagsmunir eru svo ríkir að þrengja þurfi atvinnuréttindi leigubílstjóra, eins og hér er ætlunin að gera?

Ég fór mjög vandlega yfir það í nótt að sú hugmyndafræði sem býr að baki þessu er fyrst og fremst til komin vegna skrifa tveggja forstjóra, annars vegar forstjóra leigubifreiðastöðvar og hins vegar forstjóra vörubifreiðastöðvar árið 1953, sem rituðu þáverandi stjórnvöldum bréf og sögðu að það væru það margir í þessari stétt að óvíst væri um viðunandi arðsemi af greininni. Í samræmi við þá hugmyndafræði sem þá ríkti í samfélaginu, þeirri haftahugmyndafræði sem þá ríkti, gripu menn til aðgerða og komu upp því kerfi sem nú ríkir. Og nú er ætlunin, árið 2001, að framlengja því og eiginlega bæta um betur því svo vandlega skal um þetta haldið að stofna á um þetta gagnagrunn. Minna má það ekki vera þegar um er að ræða 700 leigubifreiðastjóra.

Og það er ekki lítið sem á að fara inn í þann grunn. Það eru læknisvottorð, heilbrigðisvottorð, forfallabílstjórar o.s.frv. Það er þannig í þessu kerfi að enginn má aka eftir að hafa loksins fengið þetta leyfi nema hann hafi starfið að aðalatvinnu. Hann verður að hafa starfið að aðalatvinnu. Og ef honum dytti í hug að taka sér frí, þá er það ekki einfalt mál, því hér er ekki um sjálfstæða atvinnurekendur að ræða. Nei, þeir verða að tilkynna um það til bifreiðastjórafélaganna og gera það með sérstökum hætti. Það vill meira að segja þannig til, virðulegi forseti, að það eru 18 greinar í reglum um tímabundnar undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar sem gilda um það ef þessir sjálfstæðu atvinnurekendur ætla sér að taka frí.

Ég fór dálítið yfir þessar reglur í nótt og m.a. vakti sérstaka athygli á því að þær reglur sem eru undirritaðar af hæstv. núv. samgrh., Sturlu Böðvarssyni, og eru frá 8. nóvember 1999, ekki 1899 sem þó mætti ætla við lestur þeirra, en þar kemur m.a. fram, bara sem dæmi af handahófi úr þessum merku reglum, að hægt er að fá undanþágu vegna veikinda þannig að menn geti þá fengið einhvern annan til að keyra fyrir sig. Í c-lið 6. gr. er tekið fram að áfengismeðferð telst til veikinda í fyrsta skipti, en ekki ef um ítrekaða meðferð er að ræða. Það er því ný skilgreining á áfengismeðferð í samgrn., sem hér kemur reyndar ekkert fram hvort sé í samræmi við viðhorf landlæknisembættisins sem hefur ekkert um þetta fjallað.

En svona er þetta, virðulegi forseti, allt samansett, að loksins þegar menn eru komnir inn í greinina, þá geta þeir ekki starfað. En inn í greinina fara þeir ekki nema með meirapróf, forfallapróf og leyfispróf og eftir að hafa unnið sér inn eitt ár eða svo í akstri, og þá eru margir um hituna. Þá bíða þeir allir í röð eftir að eitt leyfi losni, þá komast þeir loks inn.

En það er ekki eins og þeir megi starfa, setja sig á gulu síðurnar og tilkynna þar að þeir séu tilbúnir að aka fólki. Nei, það er fullmikið frelsi í þessari grein. Þeir verða að skrá sig á bifreiðastöð. Og enginn má eiga meira en einn bíl á bifreiðastöðinni. Sú aðferðafræði sem Bifreiðastöð Steindórs, sem hér var rekin á sínum tíma, að stöðin átti alla bílana, væri því ekki möguleg í dag, því enginn má eiga meira en einn bíl.

Ég nefndi í nótt þá miklu tísku sem nú ríður yfir hið vestræna samfélag, að menn mundu stofna hér umhverfisvæna bílastöð, þá er það ekki möguleiki. Það getur ekki nokkur maður gert.

Það er því alveg fyrirséð að það kerfi sem hér ríkir á sér í raun og veru enga hliðstæðu. Hvergi nokkurs staðar.

Ég segi það alveg eins og er og látum nú liggja milli hluta allt þetta blessaða kerfi sem er svo galið að þeir sem fara yfir það ná náttúrlega aldrei neinum botni í það, að við þurfum að svara þeirri grundvallarspurningu áður en þetta mál er afgreitt: Hvaða ríku almannahagsmunir eru það sem réttlæta að atvinnuréttindi manna sem hugsanlega ættu sér þann leynda draum að verða leigubílstjórar eru skert á þann hátt sem hér um ræðir?

Ég held að hæstv. samgrh. verði að svara þessari spurningu áður en þetta verður afgreitt. Í nál. meiri hlutans er reyndar vikið að því að þeir hafi reynt að byggja á atvinnufrelsi og samkeppni í Svíþjóð, en það hafi víst ekki alveg gengið. En það var reyndar ekkert útskýrt neitt frekar. (Gripið fram í: Jú.) Það var ekki útskýrt neitt frekar svo nokkru nemi. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. sem greip hér fram í, hann gerði heiðarlega tilraun til þess að reyna að útskýra það en þær útskýringar halda náttúrlega engu vatni.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem réttlætir þessa undanþágu frá stjórnarskránni? Ég held að mjög mikilvægt sé að þetta liggi fyrir, því við vitum svo sem ekki hvort til þess kann að koma einhvern tímann í óskilgreindri framtíð að einhver sem á sér þann leynda draum að verða leigubílstjóri og vill gera það á eigin forsendum án þess að vera á bifreiðastöð, jafnvel að fá að setja nafnið sitt í gulu síðurnar í símaskránni, að hann geti gert það. Komi til þess að einhverjir aðrir en Alþingi þurfi að taka ákvörðun um það, er mikilvægt að þessi röksemdafærsla liggi fyrir.