Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:19:31 (3396)

2001-12-14 16:19:31# 127. lþ. 56.17 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir andsvarið og þann glögga skilning sem hann hefur á þessu viðfangsefni.

Það er rétt hjá hv. þm. að með þessu frv. hefur Vegagerðinni verið falið tiltekið verkefni. Henni hafa áður verið falin verkefni, t.d. eftirlit með margs konar flutningastarfsemi, svo sem rekstri vörubíla, áætlunarbíla og hópferðabíla. Nú er henni falið viðlíka hlutverk hvað varðar leigubílana. Að því leyti má með sanni segja að verið sé að fela Vegagerðinni stjórnsýsluþætti. Það er að mínu mati alls ekki vondur kostur vegna þess að Vegagerðin er með starfsemi í öllum landshlutum og hefur á að skipa hæfum starfsmönnum, tæknimenntuðum starfsmönnum, í miklu og góðu sambandi við þessar greinar atvinnulífsins, ekki síst við þá sem hafa á hendi rekstur ökutækja. Þar er fyrir heilmikil þekking á þessu sviði. Ég tel því að þetta sé skynsamlegur kostur, einfaldi hlutina og styrki m.a. þær stofnanir sem eru úti um landið, þær einingar Vegagerðarinnar sem hafa margvísleg verkefni á sinni könnu. Ég tel að við séum hér að fara rétta leið.