Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:21:36 (3397)

2001-12-14 16:21:36# 127. lþ. 56.17 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég get að mörgu leyti fallist á röksemdir hans.

Það leita þó á mig efasemdir. Þær lúta m.a. að því hvort ekki geti farið svo að Vegagerðin lendi í ákveðnum vanda með hið blandaða hlutverk sem henni er falið með lögum, þ.e. samkvæmt fyrirmælum framkvæmdarvaldsins. Þá vakna líka spurningar um hvort ekki þurfi t.d. að deildaskipta þessari starfsemi með einhverjum hætti og jafnvel, ef maður þróar þessa hugsun nú eitthvað lengra, hvort þetta hnígi kannski í þá átt að í reynd væri heppilegast að til yrði einhvers konar samgöngustofnun, sjálfstæð stofnun sem færi með þetta vald sem áður var að hluta inni í ráðuneytinu, hjá Vegagerðinni og jafnvel fleiri aðilum. Þar með væri til einhvers konar stjórnsýslustofnun á vegum samgönguyfirvalda þar sem þessir hlutir kæmu saman.

Hitt er rétt að Vegagerðin er öflug stofnun með mikla starfsemi um allt land og reyndar eiga forsvarsmenn Vegagerðarinnar umfram flesta hrós skilið fyrir að hafa ekki dregið alla skapaða hluti undir höfuðstöðvar hér í Reykjavík heldur dreift starfseminni og jafnvel flutt verkefni til umdæma og eflt þau. Það kann vel að vera að m.a. þess vegna sé að mörgu leyti æskilegur kostur að færa þeim frekar aukin verkefni en hitt vegna þess að þar er greinilega skilningur á því að svona er hægt að standa að málum. Það líkar manni vissulega vel.

Þetta eru hins vegar bara hugleiðingar, herra forseti. Ég ætla ekki að taka meiri tíma í þetta mál. Ég segi bara að lokum að þótt þetta fyrirkomulag kunni að ganga bærilega upp hefði mátt athuga ýmislegt betur í þessu sambandi, samanber þá þann ágreining sem er í loftinu í kringum afgreiðslu þessa máls. Ég hygg að það hefði verið ágætt ef menn hefðu gefið sér aðeins meiri tíma í málið.