Leigubifreiðar

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:23:45 (3398)

2001-12-14 16:23:45# 127. lþ. 56.17 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 1. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Við lokaafgreiðslu þessa máls vil ég halda því til haga að ég tel að þetta mál hefði átt að vinna betur í nefndinni og þá ákveðin atriði sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur einmitt gert grein fyrir. Það er óljóst hvað á að standa í gagnagrunninum, þeim upplýsingabanka sem á að vera um þessa atvinnugrein. Einnig er óljóst hverjir eigi að hafa aðgang að honum.

Ég vil líka leggja áherslu á eitt atriði til viðbótar sem bifreiðastjórar hafa einmitt nefnt, að það ætti að vera tilvísun til hins mikla öryggisþáttar sem og öryggisþjónustu sem á þessari stétt óneitanlega hvílir. Þeir verða oft fyrstir varir við margt það sem miður fer í umferðinni. Auk þess er þeirra eigið öryggi í bílunum við flutning á fólki mál sem mjög er til umræðu í nágrannalöndum okkar. Að mig minnir er ekki vikið að þessu með beinum hætti í lögunum. Þetta hefði átt að koma inn þótt ekki væri nema með beinni skírskotun. Ég vildi draga þetta fram.

Ég vil vekja athygli á því sem ég tel að hafi verið mjög jákvætt, komið mjög sterkt inn í brtt. meiri hlutans, þ.e. heimild til að fela einstökum sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins. Í brtt. stendur, með leyfi forseta:

,,Við flutning málaflokksins yfir til sveitarfélags tekur viðkomandi sveitarstjórn við stöðu Vegagerðarinnar samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt.``

Ég tel þetta mjög jákvætt en að öðru leyti, herra forseti, tel ég að það hefði þurft að vinna þetta betur og ítreka að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs situr hjá við afgreiðslu málsins.