Jólakveðjur

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 16:29:54 (3400)

2001-12-14 16:29:54# 127. lþ. 56.93 fundur 254#B jólakveðjur#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[16:29]

Forseti (Halldór Blöndal):

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis á þessu ári. Góður starfsandi hefur einkennt haustþingið sem hefur gert okkur kleift að ljúka þingstörfum samkvæmt starfsáætlun. Vil ég láta í ljós sérstakar þakkir mínar til þingmanna fyrir samstarfsvilja þeirra.

Jólahátíð er í nánd og gefst nú háttvirtum alþingismönnum og starfsfólki Alþingis tækifæri til að vera samvistum við sína nánustu um hátíðirnar og njóta með þeim friðsemdar jólanna. Ég færi alþingismönnum öllum svo og starfsfólki Alþingis bestu óskir um gleðilega og friðsæla jólahátíð og þakka þeim fyrir samstarfið á því ári sem nú er senn á enda. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.