Ferill 59. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 59  —  59. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um tryggingarskilmála vátryggingafélaga.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Kristján Pálsson, Guðjón A. Kristjánsson,
Ísólfur Gylfi Pálmason, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að endurskoða ákvæði laga um vátryggingastarfsemi er lúta að tryggingarskilmálum með það að markmiði að ábyrgð og skyldur tryggingafélaga gagnvart tryggingartaka verði skilgreindar nánar en nú er gert.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur athygli manna í auknum mæli beinst að réttarstöðu neytenda. Í ljós hefur komið að við setningu laga hefur ekki ávallt verið gætt jafnvægis milli kaupanda og seljanda hvers kyns þjónustu. Nokkur framför hefur þó orðið í þessum málum á undanförnum árum.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að sérstakri nefnd verði falið að endurskoða ákvæði þau er lúta að tryggingarskilmálum í lögum um vátryggingastarfsemi.
    Aðstaða hins almenna tryggingartaka er veik gagnvart tryggingafélögunum. Mjög erfitt er fyrir hann að fá ákvæðum í stöðluðum tryggingarskilmálum breytt þótt hann hafi athugasemdir við þau og því stendur hann oft í þeim sporum að gangast undir tryggingarskilmála eða verða af tryggingaverndinni ella. Staða tryggingartaka er sérlega slæm að þessu leyti þegar um skyldutryggingar er að ræða því að þá er honum skylt að kaupa tryggingu þó svo að hann kunni að vera ósáttur við þá tryggingarskilmála sem bjóðast. Samkeppni milli tryggingafélaga virðist ekki nægja til að réttur manna sé tryggður að þessu leyti.
    Í tilvikum þar sem einn aðilinn ber höfuð og herðar yfir annan vegna stærðar sinnar og sérfræðikunnáttu eru skyldur löggjafans mun meiri en almennt gerist til að tryggja að ákveðið jafnvægi og jafnræði ríki í viðskiptum milli aðila. Í þessu felst í raun kjarni nútímaneytendaverndar. Aðstaða tryggingafélaganna gagnvart tryggingartaka er í flestum tilvikum með þessum annmarka og því nauðsynlegt að löggjafinn tryggi sanngjarnt viðskiptaumhverfi.
    Það er álit flutningsmanna að tryggja þurfi með skýrari hætti en nú er gert í lögum hverjar skyldur tryggingafélaganna eru og því er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.
    Alkunna er að tryggingafélög ráða því hvaða aðilum þeir selja tryggingu og geta hafnað hverjum sem er án þess að gefa upp ástæðu þar að lútandi. Sem dæmi má nefna að félag feitra á í deilum vegna þess að einstaklingum hefur verið neitað um tryggingarkaup.
    Einstaklingum hefur verið neitað um slysatryggingu þrátt fyrir að hafa lagt fram fullgild læknisvottorð um heilbrigði og hreint sakavottorð.
    Fyrir dómstólum eru á hverjum tíma mörg mál sem einstaklingar hafa höfðað á hendur tryggingafélögum. Flutningsmönnum er kunnugt um marga sem telja sig fara halloka í viðskiptum við tryggingafélögin þó svo að þau mál hafi ekki endað sem dómsmál.
    Það er álit flutningsmanna að skerpa þurfi verulega á og bæta við ákvæði laga um vátryggingastarfsemi sem lúta að neytendavernd.