Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 188  —  102. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um framhaldsskóla- og háskólanám með fjarkennslusniði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir stunda nú nám með fjarkennslusniði, annars vegar á háskólastigi og hins vegar á framhaldsskólastigi? Svar óskast sundurliðað eftir kjördæmum.
     2.      Hversu margir stunduðu slíkt nám á síðasta skólaári?
     3.      Hvaða skólar á framhaldsskólastigi og háskólastigi bjóða upp á slíkt nám?
     4.      Hversu margir stunda slíkt fjarnám við einstaka skóla?


    Alls er skráður 1.051 nemandi til náms með fjarkennslusniði í framhaldsskólum og 1.101 í háskólum á haustönn 2001. Á eftirfarandi töflu má sjá hve margir eru skráðir í fjarnám í einstökum skólum. Þá má einnig sjá hvernig nemendur sem stunda háskólanám og visst nám í framhaldsskólum með fjarkennslusniði skipast eftir kjördæmum á haustönn 2001. Nemendur framhaldsskóla sem kenna einkum staka áfanga eru ekki flokkaðir eftir kjördæmum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    514 nemendur voru skráðir til náms með fjarkennslusniði á framhaldsskólastigi á haustönn 2000 og 944 á háskólastigi, eða alls 1.458. Nemendum í fjarnámi hefur því fjölgað um 694 á milli áranna, eða um rúmlega 47%.
    Framhaldsskólar sem kenna með fjarkennslusniði á haustönn 2001 eru Fjölbrautaskólinn við Ármúla (m.a. áfangar á heilbrigðissviði), Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (valdir áfangar kenndir í samstarfi við framhaldsskóla á Austurlandi), Framhaldsskóli Norðurlands vestra (sjúkraliðanám), Fjölbrautaskóli Suðurlands (valdir áfangar í samstarfi við tvo aðra skóla), Fjölbrautaskóli Suðurnesja (netagerð), Menntaskólinn á Egilsstöðum (valdir áfangar í samstarfi við aðra skóla á Austurlandi og nám á skrifstofubraut), Menntaskólinn í Kópavogi (ferðamálanám), Stýrimannaskólinn í Reykjavík (skipstjórnarnám), Verkmenntaskóli Austurlands (valdir áfangar í samstarfi við aðra skóla á Austurlandi), Verkmenntaskólinn á Akureyri (m.a. nám til stúdentsprófs) og Vélskóli Íslands (sérgreinar vélstjórnar kenndar í samstarfi við Verkmenntaskólann á Akureyri).
    Háskólar þar sem kennt er með fjarkennslusniði á haustönn 2001 eru Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri (búfræðslunám) og Viðskiptaháskólinn á Bifröst.
    Taflan hér að framan sýnir fjölda nemenda sem eru í fjarnámi í einstökum skólum á haustönn 2001. Vakin skal athygli á að þar eru nemendur taldir óháð kennslumagni. Mjög mismunandi er hve mikinn hluta náms síns nemendurnir stunda í fjarnámi, eða allt frá einum áfanga í framhaldsskóla til fulls náms á háskólastigi.