Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 348  —  286. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Veiðum skal hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærum. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun einstakra veiðarfæra.
    Skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða fæst í ákveðin veiðarfæri. Þá getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.
    Komi afli í veiðarfæri fiskiskips sem er sýktur, selbitinn eða skemmdur á annan hátt og ekki er unnt að komast hjá við tilteknar veiðar er ráðherra heimilt að ákveða að hann reiknist ekki til aflamarks skipsins. Þeim afla skal haldið aðgreindum frá öðrum afla skipsins, hann veginn og skráður sérstaklega. Aðeins er heimilt að nýta þennan afla til bræðslu. Ráðherra setur frekari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, í þeim tilgangi að auðvelda eftirlit með brottkasti afla. Samkvæmt gildandi lögum „er heimilt að varpa fyrir borð afla sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt sem ekki hefði verið unnt að komast hjá á þeim veiðum sem um er að ræða. Þá er heimilt að varpa fyrir borð fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla, enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi.“ Í frumvarpi þessu er lagt til að óheimilt verði að henda slíkum fiski aftur í hafið heldur skylt að koma með hann að landi og að slíkur fiskur reiknist ekki til aflamarks fiskiskips, enda verði hann einungis nýttur til bræðslu. Ástæða þess að þessi breyting er lögð til er fyrst og fremst sú að gildandi heimild til að kasta fiski fyrir borð í ákveðnum tilvikum gerir allt eftirlit með brottkasti afla mjög erfitt. Þá er einnig talið heppilegt að fá allan afla að landi. Eins og nú háttar geta þeir sem verða uppvísir að brottkasti haldið því fram að fiskur sem hent var hafi verið sýktur eða skemmdur á annan hátt. Sönnunarbyrðin um að svo hafi ekki verið hvílir á eftirlitsaðila og er augljóst að mjög erfitt er, og jafnvel ómögulegt, að koma fullri sönnun við í slíkum tilvikum. Af þessu leiðir að sönnun á óleyfilegu brottkasti verður vart við komið nema að játning þess sem ásakaður er um brottkast liggi fyrir. Með slíkri breytingu verður eftirlit með brottkasti gert auðveldara. Hinn verðlitli afli reiknast ekki til aflamarks skipsins enda einungis nýttur til bræðslu.
    Í 1. efnismgr. 1. gr. er kveðið á um að veiðum skuli hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærum og er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um notkun veiðarfæra. Gildandi reglur um veiðarfæri lúta að mestu að möskvastærðum og útbúnaði þeirra og miðast fyrst og fremst við að sleppa smáfiski. Hins vegar er rétt að notkun veiðarfæra verði skoðuð út frá gæðum aflans. Má í þessu efni nefna að mjög langur togtími, t.d. við humarveiðar, leiðir til þess að meðafli verður mun lakari en ef togtími væri styttri. Jafnvel hefur togtími oft verið svo langur við humarveiðar að sjómenn hafa hent meðafla vegna þess að þeir hafa talið hann ónýtan. Þá má einnig benda á hættu á brottkasti þegar netum er ekki sinnt sem skyldi. Jafnvel þótt skylt verði að koma með allan afla að landi eins og lagt er til í frumvarpi þessu þá er þörf á að draga úr því að afli skemmist í veiðarfærum.
    Í 2. efnismgr. 1. gr. eru ákvæði um að ráðherra geti heimilað að sleppt sé lifandi fiski sem veiðist í tiltekin veiðarfæri. Slíkt hefur tíðkast við handfæraveiðar og nótaveiðar. Þá segir í þessari málsgrein að ráðherra geti heimilað að varpað sé fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru sem til fellur við vinnslu um borð í veiðiskipum en ekki hefur verið talið hagkvæmt að skylda útgerðir til að koma með slíkt að landi.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996,
um umgengni um nytjastofna sjávar.

    Tilgangur frumvarpsins er að gera breytingar á 2. gr. laganna til að auðvelda eftirlit með brottkasti afla. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að varpa fyrir borð afla sem er sýktur, selbitinn eða skemmdur á annan hátt sem ekki hefur verið unnt að komast hjá á viðkomandi veiðum sem og fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla, enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi. Í frumvarpinu er lagt til að óheimilt sé að henda slíkum fiski aftur í hafið og skylt að koma með hann að landi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.