Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 443  —  167. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um leigubifreiðar.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til grundvallarbreytingar á stjórn leigubifreiðamála í landinu. Ráðgert er að færa stjórn leigubifreiðamála frá ráðuneyti samgöngumála til Vegagerðarinnar. Frumvarp sama efnis var lagt fram á seinasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum til batnaðar frá því að það var lagt fram þá og meiri hluti nefndarinnar leggur fram margar breytingar á því sem að áliti 1. minni hluta eru til bóta. Engu síður eru atriði í frumvarpinu sem gera það að verkum að 1. minni hluti getur ekki stutt málið óbreytt.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að þjónusta leigubifreiða og leigubifreiðaakstur séu einn af grunnþáttum almannasamgangna á landinu. Mikilvægt er því að tryggja góða, örugga og ódýra þjónustu en um leið eðlileg starfskjör leigubifreiðastjóra. Lagasetning um þessa þjónustu þarf að taka mið af því að þjónustan verði tiltæk og í boði sem allra víðast á landinu. Nauðsynlegt er að þessi grundvallarmarkmið og tilgangur laganna séu skýrt orðuð í lögunum sjálfum.
    Fyrsti minni hluti telur að ákvæði 9. gr. frumvarpsins, er lýtur m.a. að veitingu undanþágna frá akstri eigin bifreiðar vegna töku orlofs, sé ófullnægjandi. Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram upplýsingar um að framkvæmd núgildandi laga og reglna settra samkvæmt þeim hefði í einhverjum tilvikum stangast á við lög nr. 30/1987, um orlof. Var gagnrýnin einkum fólgin í því að laugardagar og sunnudagar hefðu á sumum svæðum verið reiknaðir með í orlofstöku sem er andstætt ákvæðum laga um orlof. Til að tryggja að leigubifreiðastjórar njóti orlofskjara á við aðra leggur 1. minni hluti áherslu á að farið verði að ákvæðum orlofslaga við veitingu undanþágna eftir því sem við getur átt. Meiri hlutinn nefnir þetta í áliti sínu en tryggara er að þetta birtist í lögunum sjálfum.
    Fyrsti minni hluti dregur í efa nauðsyn þess að starfræktur verði gagnagrunnur á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Mikill kostnaður fylgir stofnsetningu og starfsemi þessa gagnagrunns og leggst hann á leigubifreiðastjóra. Það er mat 1. minni hluta að hægt sé að halda utan um þennan málaflokk á einfaldari og ódýrari hátt en frumvarpið gerir ráð fyrir. Auk þessa telur 1. minni hluti að óeðlilegt sé að varpa öllum stjórnsýslukostnaði sem hlýst af starfsemi sem er þáttur í almannasamgöngukerfi landsmanna alfarið yfir á leigubifreiðastjóra. Samkvæmt frumvarpinu skulu leigubifreiðastjórar greiða 13.000 kr. árlegt gjald fyrir atvinnuleyfi sitt. Jafnframt er gert ráð fyrir gjaldtöku vegna ýmissar umsýslu í þessum málaflokki, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Haldbær rök skortir fyrir þessum gjaldtökum og leggur 1. minni hluti því til að þessi grein frumvarpins verði felld á brott. Ljóst er að samgönguráðuneytið mun hafa nokkurn hag af tilfærslu þessa málaflokks til Vegagerðarinnar og gagnrýnir 1. minni hluti að ekki var gerð grein fyrir því í umsögn fjármálaráðuneytisins hversu mikið sparast hjá ráðuneytinu við þessa breytingu.
    Gjaldtaka sem þessi getur ekki farið annað en út í verðlagið og því er verið að auka skattlagningu á þessari þjónustu en því er 1. minni hluti andvígur. Opinber grunnumsýsla þessarar atvinnugreinar á að vera framlag ríkisins til þessarar þjónustu. Víða úti á landi er rekstrargrundvöllur leigubílaksturs veikur en engu að síður er hér um mikilvæga samfélagsþjónustu að ræða. Flöt skattlagning þessarar þjónustu, eins og frumvarpið leggur til, bitnar ekki síst með auknum þunga á þjónustu leigubíla á litlum stöðum.
    Þá gerir 1. minni hluti athugasemd við síðari málslið 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Vegagerðin geti heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til þess að afgreiða undanþágur skv. 9. gr. frumvarpins. Í umsögn Persónuverndar sem barst nefndinni á síðasta þingi um frumvarpið segir eftirfarandi: „Með ákvæðinu gæti Vegagerðin því veitt einstökum bifreiðastöðvum og bifreiðastjórafélögum tengingu við umrædda málaskrá sína um tölvunet. Að mati Persónuverndar skortir rök fyrir slíkri samtengingu og er þeirri spurningu ósvarað hvers vegna ekki sé hægt að veita viðkomandi bifreiðastöðvum upplýsingar um atvinnuleyfishafa á viðkomandi stöð með einfaldri og viðurhlutaminni hætti.“ 1. minni hluti telur að sjónarmið um friðhelgi einkalífs og persónuvernd eigi að ráða ferðinni og telur því að umrædd heimild Vegagerðarinnar eigi ekki rétt á sér.
    Með hliðsjón af framangreindu telur 1. minni hluti, þrátt fyrir ýmsar breytingar sem meiri hlutinn leggur til og eru til batnaðar, að vinna þurfi frumvarpið betur áður en það verður afgreitt sem lög frá Alþingi.

Alþingi, 3. des. 2001.



Jón Bjarnason.