Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 453  —  128. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2001 kemur nú til 3. umræðu. Vísað er til nefndarálits 2. minni hluta við 2. umræðu um almenn atriði og tillögur að þingræðislegri vinnu við fjárlagagerðina og það jafnframt að útgjöld séu samþykkt fyrir fram með fjáraukalögum. Aðeins bráða- eða neyðartilvik réttlæta aðra tilhögun. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins ber framkvæmdarvaldinu að kynna aukna fjárþörf fyrir fjárlaganefnd strax og hún er ljós og leita heimildar á fjáraukalögum. Áður hefur verið bent á þær ástæður að Alþingi hafi samþykkt lög, t.d. á vorþingi, sem krefjast útgjalda á því sama ári og getur því verið nauðsynlegt að bregðast strax við með samþykkt fjáraukalaga. Því er hér ítrekað það mat 2. minni hluta að fjárreiðulögum verði illa framfylgt nema til komi sú breytta tilhögun að Alþingi samþykki fjáraukalög í lok vorþings og svo aftur í upphafi haustþings ef nauðsyn krefur. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort meiri hluti ríkisstjórnarinnar sé nægur til að tryggja ákvarðanir framkvæmdarvaldsins heldur er hitt aðalatriðið að farið sé að lögum og ákvarðanir um aukin útgjöld teknar á þingræðislegan hátt. Þessu til viðbótar má benda á að reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta sem fjármálaráðuneytið gaf út í byrjun þessa árs skerpir enn á þessu ferli en því miður fer það ekki sjálft eftir þeim.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að rekstrartekjur ríkissjóðs á árinu 2001 verði um 254,2 milljarðar kr. en þær voru áætlaðar á fjárlögum um 253,1 milljarður kr. og hafa því aukist um 1,2 milljarða kr. frá fjárlögum. Rekstrargjöld samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2001 voru áætluð liðlega 219 milljarðar kr., en samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir við 3. umræðu fjáraukalaga eru þau áætluð rúmir 233 milljarðar kr. og rekstrarafgangur ársins um 20 milljarðar kr. Samkvæmt fjárlögum ársins 2001 var rekstrarafgangur áætlaður 33 milljarðar kr.
    Ljóst er að meiri samdráttur hefur verið í efnahagslífinu frá samþykktum fjárlögum ársins en ráð var fyrir gert. Sérstaklega á þetta við um einkaneyslu en nú er talið að hún dragist saman um 1% á þessu ári en í fjárlögum ársins 2001 var gert ráð fyrir 1,7 % aukningu. Nú stefnir í að viðskiptahallinn verði nálægt 8% af landsframleiðslu í árslok 2001. Þrátt fyrir hagstæðari vöruskiptajöfnuð á árinu hefur viðskiptahallinn ekki minnkað að sama skapi því á móti vegur óhagstæður jöfnuður þáttatekna sem vex hratt vegna versnandi skuldastöðu erlendis.
    Hinn mikli viðskiptahalli og útflæði fjármagns hefur leitt til þess að ríkissjóður hefur ekki getað greitt niður skuldir erlendis án þess að veikja gengi krónunnar. Þrátt fyrir góðan rekstrarafgang er takmarkað hægt að greiða niður innlendar skuldir án þess að valda aukinni þenslu á innlendum peningamarkaði. Nú blasir við að gengi íslensku krónunnar hefur frá áramótum fallið um fjórðung gagnvart helstu gjaldmiðlum. Verðbólgan hefur einnig ætt af stað og er nú áætlað að hún verði rúmlega 8% í árslok 2001 sem er tvöfalt hærra hlutfall en fjárlög gerðu ráð fyrir. Nú er gert ráð fyrir að hreinar skuldir ríkissjóðs nemi 167,7 milljörðum kr. í árslok 2001 og hafa þær aukist um rúma 40 milljarða kr. á árinu.
    Meginástæður þessarar þróunar á rætur í rangri stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og skattamálum. Ofuráhersla á hagkvæmni stærðarinnar og forgangsréttur fjármagnseigenda til hámarks tímabundinna arðgreiðslna hefur leitt þróun atvinnulífsins á villigötur. Einkavæðing almannaþjónustu leiðir til verri þjónustu og skertrar samkeppnishæfni margra byggðarlaga. Hinn mikli viðskiptahalli sem er til kominn vegna stefnu stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum hefur leitt til gífurlegrar þenslu í viðskipta- og verslunarþjónustu á suðvesturhorninu langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu hefur gefið tilefni til. Þessi stefna hefur leitt til þess að þeir atvinnuvegir sem í raun auka þjóðarframleiðsluna og standa undir hagvextinum hafa verið vanræktir. Þenslan hefur sogað til sín vinnukraft og fjármagn frá þessum atvinnugreinum sem lýsir sé m.a. í gífurlegum fólksflutningum á höfuðborgarsvæðið og vaxandi fjárhagsvanda sveitarfélaganna á landsbyggðinni.

Staða sveitarfélaganna.
    Skuldir sveitarfélaganna hafa vaxið mjög á undanförnum árum og á þessu ári er gert ráð fyrir að þær aukist úr 49,5 milljörðum kr. í 53 milljarða kr. Skuldastaða sveitarfélaganna er afar misjöfn sem og möguleikar þeirra til að standa við skuldbindingar sínar. Skuldir einstakra sveitarfélaga og lágar tekjur á íbúa er ein mesta ógnun við samfélagsþjónustuna og jafnvægi í búsetu í landinu. Brýnt er að aukinn jöfnuður verði í tekjum og gjöldum hins opinbera.
    Mörg sveitarfélög telja sig ekki hafa fengið bættan þann kostnað sem þau tóku á sig við einsetningu og yfirfærslu grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna. Er endurmat á þeim viðskiptum óútkljáð milli ríkis og sveitarfélaga.
    Staða nokkurra sveitarfélaga gagnvart Íbúðalánasjóði er mjög slæm og er skuldsetning í félagslega íbúðakerfinu að sliga þau mörg. Ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt til að leysa þennan vanda, sem þó er að nokkru leyti til kominn vegna ákvarðana ríkisins. Það eina sem gerst hefur er að sveitarfélögin á Vestfjörðum voru neydd til að skilyrða sölu á Orkubúi Vestfjarða hf. þannig að andvirðinu yrði varið til að greiða niður skuldir við Íbúðalánasjóð.
    Félagsíbúðirnar voru liður í opinberri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Það var Alþingi sem setti lögin og ákvað einhliða að fela sveitarfélögunum fjárhagslega bakábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu. Í umræðum á þingi hefur komið fram að félagsmálaráðherra hafi skipað nefnd til að móta tillögur um hvernig ætti að leysa fjárþörf félagslega íbúðarkerfisins með heildstæðum hætti á landsvísu. Nefndin mun hafa skilað minnispunktum til ráðherra sem ekkert virðist hafa verið gert með og lítur svo út að ekkert sé aðhafst frekar í málunum. Haldið er áfram á þeirri braut að ríkið kaupi eignir og þjónustustofnanir einstakra sveitarfélaga og taki andvirðið upp í skuldir. Má þar benda á kaup ríkisins á Orkubúi Vestfjarða sem var þvingunaraðgerð gagnvart sveitarfélögunum á Vestfjörðum og erfiðri fjárhagsstöðu nokkurra þeirra.
    Með þessari aðgerð er í raun ýtt til hliðar því að taka á skuldamálum sveitarfélaganna heildstætt.

Rafveita Sauðárkróks.
    Við 3. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga leggur meiri hlutinn til að ríkisfyrirtækinu Rarik verði veitt 300 millj. kr. lánsfjárheimild til að kaupa Rafveitu Sauðárkróks. Meðan sveitarfélögin hér á suðvesturhorninu keppast við að styrkja og efla orkuveitur sínar og nýta styrk þeirra til sóknar og átaks í atvinnuuppbyggingu sjá önnur sveitarfélög sig nauðbeygð til að selja þessar þjónustustofnanir sínar upp í skuldir m.a. við hið opinbera, skuldir sem eru til komnar vegna lækkunar tekna eða beinlínis rangrar tekjuskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga.
    Rafveita Sauðárkróks hefur skilað umtalsverðum tekjum til sveitarfélagsins og verið til margháttaðs stuðnings í rekstri á undanförnum árum.
    Sala Rafveitu Sauðárkróks er mjög umdeild meðal íbúa sveitarfélagsins, sbr. meðfylgjandi fylgiskjal, „áskorun til þingmanna“. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er það slæm að sveitarstjórnin sér sig knúna til að fara þessa leið til að bæta stöðuna. Sameining sveitarfélaganna í Skagafirði hefur í sjálfu sér ekki fært aukið fjármagn inn í byggðarlagið en kostnaður hefur aukist, a.m.k. fyrst í stað. Þá telja heimamenn að halli verulega á þá í viðskiptum við ríkisvaldið varðandi kostnað við einsetningu grunnskólans og yfirfærslu hans til sveitarfélagsins. Í frumvarpi til fjáraukalaga er farið fram á að ríkið láti Rarik fá fé til að kaupa veituna og grynnka þar með á rekstrarskuldum sveitarfélagsins. Að mati 2. minni hluta væri miklu nær að ríkið léti þessa fjármuni ganga beint til sveitarfélagsins eða styddi það á annan hátt þannig að það héldi sinnu veitu. Þess vegna er gerð tillaga um að þessi kerfislægi fjárhagsvandi sveitarfélaganna sé leystur á landsvísu og þar með fjárhagsvandi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Þjóðarbúið og rekstur ríkissjóðs á árinu 2001.
    Hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins námu um 89,1% af landsframleiðslu í árslok 2000 en nú stefnir í að þetta hlutfall verði komið í 111% af landsframleiðslu í árslok 2001. Á árinu 1996 námu hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins 50,8% af landsframleiðslu. Hin mikla þensla á undanförnum árum hefur því að stærstum hluta verið fjármögnuð með erlendum lánum.
    Bankar og sparisjóðir hafa ekki farið varhluta af þeim efnahagssamdrætti sem nú ríkir. Þeir hafa þurft að auka framlög í afskriftareikning vegna aukinna vanskila hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Eiginfjárhlutfall þeirra hefur farið stöðugt lækkandi frá árinu 1999. Það hefur, án víkjandi lána, lækkað úr 9,9% árið 1997 í 6,6% árið 2000. Hætt er við að erfitt verði að selja hlutabréf í ríkisbönkunum fyrir viðunandi verð nema að ríkissjóður bæti eiginfjárhlutfall þeirra með auknum framlögum.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar til september 2001.
    Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til þingsins um framkvæmd fjárlaga janúar til september 2001. Þar er gagnrýnd sú stefna að halda ríkisstofnunum í gíslingu með því að taka ekki á fjárhagsvanda þeirra, láta þær bera árum saman halla frá fyrri árum og halda þeim þannig í spennitreyju án þess þó að skipa þeim að loka eða leggja niður lögboðna þjónustu og verkefni sem þeim er gert að sinna við fullkomlega óviðunandi aðstæður. Á þetta til dæmis við um framhaldsskólana þar sem þetta háttalag ríkisvaldsins er að vinna illbætanlegt tjón á öllu menntakerfi landsmanna.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir m.a. (bls. 25–26):
    „Til þess að yfirfærsla eða flutningur fjárheimilda með þessum hætti nái tilgangi sínum og verði til þess að auka sveigjanleika í ráðstöfun fjármuna þurfa að gilda ákveðnar reglur um hversu stóran hluta fjárheimilda má flytja á milli ára og hversu lengi. Mörg dæmi eru um stofnanir sem búa við skertar fjárveitingar sem nema tugum milljóna króna vegna halla fyrri ára og sem þær hafa velt frá einu ári til þess næsta. Til dæmis námu fjárveitingar til eins menntaskóla 333 m.kr. í fjárlögum ársins 2001, en sú fjárheimild var skert um 122 m.kr. vegna halla fyrri ára. Að teknu tilliti til millifærslu annarra fjárheimilda á árinu nam fjárheimild skólans 261 m.kr. á árinu 2001. Í lok september hafði hins vegar verið stofnað til útgjalda fyrir 318 m.kr. Ekki verður séð að skólinn geti rétt reksturinn af miðað við þá fjárheimild sem honum er ætluð á árinu nema með mjög verulegum samdrætti í þjónustu, t.d. aðgerð á borð við að hætta að taka við nýjum nemendum. Þessi skóli er síður en svo einsdæmi um stofnun sem býr við svo skertar fjárheimildir að engin leið er til að veita þá þjónustu sem henni er ætlað. Á 30 fjárlagaliðum nemur skerðing fjárheimilda vegna halla fyrri ára 20% eða meiru af fjárheimild ársins. Í þeim hópi eru til að mynda fimm skólar og tvö sýslumannsembætti. Engin áform virðast liggja fyrir um hvort og þá hvernig þessar stofnanir eiga að draga saman þjónustu til að rekstur þeirra falli innan fjárheimilda.
    Að mati Ríkisendurskoðunar er mjög brýnt að tekið verði á þessum málum og að framvegis verði fjárheimildir ekki skertar vegna halla fyrri ára nema raunhæft sé að stofnanir geti ráðið við slíka skerðingu. Setja þyrfti viðmiðunarmörk um hversu háar fjárhæðir megi flytja á milli ára. Í öðrum löndum þar sem heimilt er að flytja fjárheimildir milli ára eru sett mjög þröng mörk þar um.“
    Falla þessar athugasemdir fullkomlega að þeirri gagnrýni sem 2. minni hluti hefur verið með á framkvæmd þessa málaflokks hjá menntamálaráðuneytinu.
    Um afkomuhorfur ríkissjóðs á árinu og það hvað hefur breyst í fjármálum ríkisins frá því að fjárlög fyrir árið 2001 voru samþykkt í desember fyrir ári síðan segir í skýrslunni (bls. 33–34):
    „Áætlanir í frumvarpi til fjáraukalaga um afkomu ríkissjóðs í árslok 2001 sýna að í stað 33,8 ma.kr. tekjuafgangs er nú gert ráð fyrir að hann verði 19,3 ma.kr. eða lækki um 14,5 ma.kr. Í stað þess að handbært fé frá rekstri skili 9,1 ma.kr. er nú gert ráð fyrir að á vanti 3,5 ma.kr. eða breyting til hins verra um 12,6 ma.kr. Í fjárlögum ársins 2001 var gert ráð fyrir að fjárfestingarhreyfingar skiluðu 29,6 ma.kr. í ríkissjóð en nú er hins vegar gert ráð fyrir að á vanti 3,6 ma.kr. og er því breyting til hins verra að fjárhæð 33,2 ma.kr. Áætlað var að svokallaður hreinn lánsfjárjöfnuður skilaði 38,7 ma.kr. til ríkissjóðs í ár en áætlanir nú gera ráð fyrir að á vanti 7,1 ma.kr. Að lokum var gert ráð fyrir að afborganir af lánum umfram tekin lán næmu 24,2 ma.kr. en nú er aftur á móti gert ráð fyrir að lántökur umfram afborganir nemi 26,3 ma.kr. eða breyting að fjárhæð 50,5 ma.kr.
    Ríkisendurskoðun hefur lagt mat á afkomuhorfur í árslok 2001 og borið saman við áætlun fjármálaráðuneytis. Stofnunin vill vekja athygli á eftirfarandi í því sambandi. Ekki eru gerðar athugasemdir við áætlun tekna nema að því leyti er varðar söluhagnað af eignum að fjárhæð 21,5 ma.kr. Í lok septembermánaðar höfðu 277 m.kr. verið færðar til tekna vegna sölu eigna. Ef áform stjórnvalda um sölu Landssíma Íslands hf. og fjármálastofnana ná ekki fram að ganga fyrir árslok mun afkoma ríkissjóðs versna er nemur þeirri fjárhæð.“

Lokaorð.
    Það er því ljóst að margt hefur farið á annan veg en þjóðhagsáætlun og stefna ríkisins í efnahagsmálum gerðu ráð fyrir. Eins og 2. minni hluti rakti ítarlega í nefndaráliti við 2. umræðu fjáraukalaga er meginhluti þessa fjárhagsvanda sem nú er glímt við heimatilbúinn og á rætur í alvarlegum mistökum ríkisstjórnarinnar í stjórn efnahagsmála. Hann á rætur í einkavæðingarherferð almannaþjónustunnar og rangrar stefnu í atvinnumálum. Einstakir ráðherrar beita sér fyrir ákveðnum gæluverkefnum sínum í stað þess að vinna út frá markaðri heildarstefnu í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins.
    Annar minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar vegna óvandaðrar vinnu við fjárlagagerðina, rangrar forgangsröðunar og mistaka í hagstjórn.

Alþingi, 4. des. 2001.



Jón Bjarnason.






Fylgiskjal.


Bréf frá ungum sjálfstæðismönnum í Skagafirði.


(21. nóv. 2001.)




Hæstvirti þingmaður!

    Þann 13. nóvember sl. samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar sölu á Rafveitu Sauðárkróks og er Rarik kaupandinn. Á næstunni mun þetta mál verða tekið fyrir á Alþingi og ákvörðun tekin um hvort veita eigi Rarik lánsheimild til þessara kaupa.
    Í upphafi árs hafði sú ákvörðun verið tekin af sveitarstjórn Skagafjarðar að sameina allar veitur sveitarfélagsins ef það reyndist ákjósanlegt, ef ekki, átti að skoða sölu Rafveitunnar. Við sameiningu hefði orðið til öflugt veitufyrirtæki, sem skilað hefði arði um ókomin ár. Niðurstöður nefndar, sem sett var á fót til þess að kanna hvort ásættanleg hagræðing næðist með sameiningu veitnanna, var sú að hægt hefði verið að lækka skuldir sveitarfélagsins um minnst 370 milljónir kr. Auk þess var mögulegt að hið nýja fyrirtæki keypti áhaldahús sveitarfélagsins á allt að 50 milljónir kr. Allir flokkar voru sammála um að þetta væri hagstæðasta leiðin, er bæði gæti lagað slæma stöðu sveitarsjóðs nú og skilað hagnaði til framtíðar.
    Þann 7. júlí lagði Framsóknarflokkur óvænt fram tillögu um að fresta sameiningu og skoða til hlítar að selja Rafveituna. Sjálfstæðisflokkur lýsti vonbrigðum sínum yfir þessari tillögu , enda var hún ekki í samræmi við það sem áður hafði verið samþykkt í sveitarstjórn. Sleit þá Framsóknarflokkur meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokk.
    Þetta er eitt heitasta mál sem upp hefur komið hér í Skagafirði og biðjum við ykkur að veita því sérstaka athygli. Hvers vegna liggur meiri hluta sveitarstjórnar svo á að selja Rafveituna núna í haust? Því var hagstæðasta leiðin, sem stefnt hafði verið að frá upphafi árs, skyndilega orðin óhagstæð? Ekki gaf núverandi meiri hluti sér tíma til þess að skoða möguleika Rafveitunnar í ljósi komandi breytinga á orkulögum, heldur dró strax þá ályktun að hún yrði aðeins byrði á sveitarfélaginu. Þeir hrósa þá líklega happi yfir að hafa komið þeim bagga yfir á Rarik. Er það ekki undarlegt að Rarik, sem er í ríkiseign, skuli sækjast eftir og fá heimild til að kaupa orkufyrirtæki í eigu sveitarfélaga á landsbyggðinni, þegar það er stefna ríkisstjórnar að selja eignir en ekki kaupa. Á sama tíma verða orkufyrirtækin í eigu sveitarfélaganna á Suðvesturhorninu stöðugt öflugri. Þó Rafveita Sauðárkróks sé lítil á landsvísu er hún mikill styrkur fyrir sveitarfélagið og sala hennar því skref í ranga átt. Þetta er einungis skammtímalausn þar sem ekki er hugsað um hagsmuni sveitarfélagsins til framtíðar.
     Við biðjum þig að kynna þér þetta mál til hlítar og leggja okkur lið við að standa vörð um framtíð okkar og byggðar út á landi.

Virðingarfyllst:



Fyrir hönd ungra sjálfstæðismanna í Skagafirði,


Sigurlaug Vildís Bjarnadóttir.