Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 461  —  114. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Guðlaugsson, Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Bolla Þór Bollason, Jón Guðmundsson, Erlu Pétursdóttur og Tómas N. Möller frá fjármálaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra, Guðmund Guðbjarnason, Ingvar J. Rögnvaldson og Braga Gunnarsson frá ríkisskattstjóra, Rannveigu Sigurðardóttur og Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigríði Andersen og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Finn Sveinbjörnsson frá Verðbréfaþingi Íslands, Garðar Sverrisson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Guðmund Snorrason frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Stefán S. Guðjónsson og Guðrúnu Sigurðardóttur frá Samtökum verslunarinnar, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli hf., Bernhard Bogason frá KPMG, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þórð Friðjónsson, Magnús Harðarson, Stefán Þór Jansen og Vilhjálm Bjarnason frá Þjóðhagsstofnun, Markús Möller frá Seðlabanka Íslands, Önnu Skúladóttur frá Reykjavíkurborg, Karl Steinar Guðnason, Ragnar M. Gunnarsson og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Skúla E. Þórðarson, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Stefán Svavarsson frá reikningsskilaráði, Gest Steinþórsson, skattstjóra í Reykjavík, og Sigmund Stefánsson, skattstjóra á Reykjanesi. Umsagnir bárust um málið frá Akraneskaupstað, Norðuráli hf., skattstofu Reykjanesumdæmis, Mosfellsbæ, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, skattstofu Reykjavíkur (sameiginleg umsögn skattstjóra), Kópavogsbæ, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Verslunarráði Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, KPMG og fleiri endurskoðunarskrifstofum, Þjóðhagsstofnun, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins, Öryrkjabandalagi Íslands, Pétri H. Blöndal, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sveitarfélaginu Árborg, reikningsskilaráði, Seðlabanka Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunarinnar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, fjölskylduráði, Bændasamtökum Íslands og Landssambandi sumarhúsaeigenda. Viðbótargögn bárust einnig frá fjármálaráðuneyti, ríkisskattstjóra og Þjóðhagsstofnun.


Prentað upp.

    Í frumvarpinu eru stigin stór skref til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt auk þess sem gerðar eru breytingar á nokkrum öðrum lögum í tengslum við þær og ljóst að breytingarnar munu hafa veruleg áhrif á fjárhag ríkis og sveitarfélaga. Fyrirhuguðum skattalagabreytingum má skipta í tvennt, annars vegar þær sem varða einstaklinga og hins vegar þær sem varða fyrirtæki. Tekju- og eignarskattar einstaklinga og fyrirtækja munu lækka auk þess sem frítekjumörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga verða hækkuð, en á móti kemur hækkun á almennu tryggingagjaldi. Skattskylda húsaleigubóta fellur einnig niður. Gert er ráð fyrir að verðbólguleiðréttingar í skattskilum og reikningsskilum verði afnumdar, en með því að falla frá verðleiðréttum skattskilum verður í raun farið að skattleggja nafnverðsafkomu í stað raunverðsafkomu sem getur á verðbólgutímum leitt til hugsanlegrar ofsköttunar. Einnig er gert ráð fyrir að heimilt verði að færa eigur einstaklings í atvinnurekstri yfir í einkahlutafélag án þess að yfirfærslan hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft þannig að einstaklingar í atvinnurekstri geta breytt um rekstrarform án þess að til skattlagningar söluhagnaðar komi við sjálfa yfirtökuna.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu en þær tengjast að mestu leyti ákvæðum þess varðandi reiknað endurgjald og lífeyrisréttindi:
     1.      Lagt er til að bætt verði við 2. og 3. gr. frumvarpsins ákvæðum þess efnis hvað skuli talið til tekna og skattskyldra gjafa, en skv. 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félags eða móðurfélags lán eða setja tryggingu fyrir þá. Í skattframkvæmd mun nokkuð hafa borið á slíkum lántökum og tilhneiging virðist hafa verið til að úthluta fjármunum til eigenda í formi láns án þess að burðir séu í reynd til endurgreiðslu fyrr en skattstjóri gerir athugasemd við hina ólögmætu lánveitingu. Meiri hlutinn leggur því til að slík lán verði meðhöndluð í skattalegu tilliti með sama hætti og tíðkast í skattalöggjöf nágrannalandanna. Þá leggur meiri hlutinn til að á sama hátt verði farið með úthlutun verðmæta úr félagi til starfsmanna þess ef úthlutunin fer í bága við lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög.
     2.      Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skattalegri meðferð á iðgjöldum til öflunar lífeyrisréttinda. Meiri hlutinn leggur til breytingu á 17. gr. þess efnis að viðmiðunaraldur við mat á áunnum réttindum verði áfram 65 ár, eins og verið hefur, í stað 67 ára eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að við mat á framtíðarréttindum skuli miðað við að greiðslur myndi lífeyrisréttindi sem nemi 1,2% af meðallaunum síðustu fimm ára, en sú hlutfallstala svarar til þeirrar ávinnslu réttinda sem mundi leiða af samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands frá 1995 miðað við að greitt væri í lífeyrissjóð til 65 ára aldurs.
     3.      Meiri hlutinn leggur til breytingar á 19. gr. frumvarpsins þess efnis að nánar verði kveðið á um hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt varðandi frádráttarbærni arðs sem innlent hlutafélag fær frá erlendu hlutafélagi. Í því sambandi er fyrst og fremst horft til þess skatthlutfalls sem almennt er lagt á hagnað hlutafélaga í einstökum aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD). Með almennu skatthlutfalli er átt við samanlagt skatthlutfall sem lagt er á hagnað félagsins hjá ríki og sveitarfélögum. Meiri hlutinn lítur svo á að með því að setja þessi skilyrði verði komið í veg fyrir að innlendir aðilar sem hafa valið að setjast að í erlendum skattavinjum búi við betri skattskilyrði en íslenskir aðilar.
     4.      Lagt er til að 23. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að kostnaðarverð eigna eða eignasamstæðna sem heimilt er að færa til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað verði hækkað úr 150.000 kr., eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, í 250.000 kr.
     5.      Meiri hlutinn leggur einnig til breytingar á 27. gr. frumvarpsins, en þær eru gerðar til að auðveldara sé að beita ákvæðum hennar í uppgjöri og bókhaldi þegar eigur einstaklings í atvinnurekstri eru færðar yfir í einkahlutafélag. Þannig telur meiri hlutinn að sú framkvæmd sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að efnahagsreikningur einstaklingsrekstrar liggi fyrir sama dag og hann er miðaður við og jafnframt að einkahlutafélagið skuli stofnað sama dag, sé ógerleg. Því er lagt til að efnahagsreikningur einstaklingsrekstrar verði gerður í árslok og hann verði jafnframt stofnefnahagsreikningur hins nýja einkahlutafélags. Einkahlutafélagið verður hins vegar ekki stofnað fyrr en þessi efnahagsreikningur liggur fyrir og verður stofnunin að hafa farið fram fjórum mánuðum síðar, eða ekki seinna en 1. maí á næsta ári eftir dagsetningu hans miðað við áramót. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að það afbrigði í skattskilum verði heimilað að einkahlutafélag geti talið til tekna og gjalda í skattframtali sínu tekjur og gjöld einstaklingsrekstrar frá áramótum til stofndags einkahlutafélagsins og tekið tillit til breytinga á efnahagsreikningi sem af því leiðir. Félag sem stofnað er samkvæmt þessari heimild getur ekki tekið til starfa fyrr en það hefur verið skráð hjá hlutafélagaskrá sem einkahlutafélag og viðskipti sem hafa farið fram fyrir stofndag þess eru alfarið á ábyrgð eigandans. Þá skal endurskoðandi staðfesta það við stofnun félagsins að efnahagur þess hafi ekki rýrnað vegna úttektar eiganda umfram gjaldfærð laun á þessu tímabili. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til telur meiri hlutinn að reglur um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag séu gerðar skýrari og auðveldari í framkvæmd.
     6.      Þá eru lagðar til breytingar á 28. gr. frumvarpsins sem fjallar um reiknað endurgjald manna með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, en við nánari skoðun nefndarinnar á frumvarpstextanum vöknuðu efasemdir um að hann væri nægilega vel til þess fallinn að ná þeim markmiðum sem stefnt var að. Þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til miða að því að tryggja að einstaklingar sem eru með eigin atvinnurekstur og starfsmenn lögaðila sem hafa ráðandi stöðu hjá félögum reikni sér eðlilegt endurgjald sem sambærilegt er því sem gildir um sambærileg störf hjá ótengdum aðilum, en fyrrgreindir aðilar hafa oft sjálfdæmi um hvort tekjum þeirra er úthlutað sem launum eða fjármagnstekjum. Til að tryggja eðlilega skattframkvæmd er mikilvægt að ákvæði skattalaga um reiknað endurgjald séu þannig sett fram að endurgjald þessara aðila sé sambærilegt við þau laun sem þeir hefðu fengið fyrir sambærilegt starf hjá ótengdum aðila.
     7.      Meiri hlutinn leggur til tæknilega breytingu á 34. gr. frumvarpsins þess efnis að inn í upptalningu á atriðum sem frádráttarbær eru frá eignum verði bætt húsbréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.
     8.      Þá leggur meiri hlutinn til að fyrirhuguð breyting skv. 39. gr. frumvarpsins falli brott, en í henni er gert ráð fyrir að erlendir aðilar setji tryggingu fyrir væntanlegum sköttum sínum og gjöldum hér á landi. Meiri hlutinn telur þetta óeðlilegt fyrirkomulag og dregur í efa að það samræmist ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     9.      Meiri hlutinn leggur til breytingar á 42. gr. frumvarpsins sem snúa annars vegar að yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag og hins vegar vaxtabótum og eignarsköttum. Um efnisatriði fyrra atriðisins vísast til umfjöllunar um breytingar á 27. gr. frumvarpsins, en þær breytingar sem snerta vaxtabætur og eignarskatta eru gerðar til þess að fjárhæðir sem nefndar eru í B-lið 69. gr. og 78. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt hækki í samræmi við barnabætur.
     10.      Meiri hlutinn leggur til breytingu á 46. gr. frumvarpsins, en um hana vísast til skýringa á breytingum á 27. gr.
     11.      Einnig leggur meiri hlutinn til að inn í frumvarpið verði bætt heimild til að hefja rafræna staðgreiðslu. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er í reglum gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri setji þær kröfur sem hann gerir varðandi rafræn skýrsluskil, svo sem varðandi rafræna undirritun skýrslna. Mun vera að því stefnt að fyrstu rafrænu skýrsluskilin verði í febrúar 2002, þ.e. á fyrsta eindaga þess staðgreiðsluárs. Jafnframt mun vera stefnt að því að launagreiðendur geti flutt upplýsingar úr launabókhaldi sínu beint yfir á skilagreinar og sent á netinu ásamt greiðslu. Gera má ráð fyrir að af þessu hljótist umtalsvert hagræði bæði fyrir launagreiðendur og skattyfirvöld.
     12.      Loks leggur meiri hlutinn til breytingar á þeim ákvæðum frumvarpsins sem fjalla um breytingar á lögum um ársreikninga, en um þær vísast til skýringa á breytingum á 27. gr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 3. des. 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.