Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 462  —  114. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, EKG, KHG, SAÞ, GunnB, HjÁ).



     1.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 7. gr. laganna:
                  a.      2. málsl. 2. mgr. 1. tölul. orðast svo: Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.
                  b.      Við 1. tölul. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                            Til tekna sem laun teljast og lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
                  c.      Við 4. tölul. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                          Til skattskyldra gjafa teljast lán til hluthafa og stjórnarmanna sem eru óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
     2.      Við 3. gr. Við bætist nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi: Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Úthlutun verðmæta skv. 1. mgr. til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, telst vera laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög skal skattleggja úthlutunina sem tekjur skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. Ef slík úthlutun á sér stað til sameignarfélags, þar sem einn sameigenda er hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins sem úthlutar verðmætum, skal úthlutunin teljast til tekna hjá honum skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr.
     3.      Við 17. gr. B-liður orðist svo: 5. tölul. orðast svo: Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þó skal telja framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni, að viðbættum áður áunnum lífeyrisréttindum og framtíðarlífeyrisréttindum, skapa réttindi til greiðslu ellilífeyris umfram þau meðallaun sem greitt hefur verið af síðustu fimm ár miðað við að ellilífeyrir sé tekinn með jöfnum greiðslum frá 65 ára aldri.


Prentað upp.

                  Við mat á áunnum réttindum skal leggja saman áunnin réttindi í tryggingadeildum lífeyrissjóða samkvæmt samþykktum hvers og eins lífeyrissjóðs miðað við að taka lífeyris hefjist við 65 ára aldur. Einnig skal leggja saman áunnin réttindi í séreign og þau umreiknuð miðað við útgreiðslu lífeyris með jöfnum greiðslum í 17 ár frá 65 ára aldri.
                  Við mat á framtíðarréttindum til ellilífeyris skal miðað við að áfram sé greitt í tryggingadeild lífeyrissjóðs til 65 ára aldurs 10% iðgjald af meðallaunum síðustu fimm ára og að greiðslurnar myndi lífeyrisréttindi sem nema 1,2% af fyrrgreindum meðallaunum fyrir hvert ár. Við útreikning áunninna réttinda í séreign skal miða við 3,5% vexti.
                  Hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða það bundið í lögum skal það aldrei teljast til skattskyldra tekna.
                  Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessa töluliðar, þ.m.t. um hvaða upplýsingar unnt er að krefja launagreiðendur, sjálfstætt starfandi einstaklinga og launþega vegna framkvæmdar ákvæðisins.
     4.      Við 19. gr. C-liður orðist svo: Í stað 2. málsl. 8. tölul. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Ákvæði 1. málsl. skal einnig taka til arðs frá hlutafélögum sem skráð eru erlendis ef það félag sem arðinn fær sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi. Frádráttur samkvæmt þessari málsgrein er bundinn því skilyrði að það skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD). Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
     5.      Við 23. gr. Greinin orðist svo:
                   41. gr. laganna orðast svo:
                  Þegar kostnaðarverð einstakra eigna eða eignasamstæðna er undir 250.000 kr. er heimilt að færa það að fullu til gjalda á því ári þegar þeirra er aflað.
     6.      Við 27. gr.
                  a.      Í stað orðsins „allar“ í c-lið 1. mgr. komi: yfirfærðar.
                  b.      D-liður 1. mgr. orðist svo: Tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins skal auk þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt lögum um einkahlutafélög fylgja efnahagsreikningur einstaklingsrekstrarins sem jafnframt skal vera stofnefnahagsreikningur einkahlutafélagsins. Efnahagsreikninginn skal miða við 31. desember og má hann ekki vera eldri en fjögurra mánaða við stofnun einkahlutafélagsins og skal hann endurskoðaður af endurskoðanda og áritaður án fyrirvara. Jafnframt skal endurskoðandi staðfesta að hagur fyrirtækisins hafi ekki rýrnað vegna úttektar eiganda frá þeim tíma sem yfirfærslan skal miðuð við og fram að stofnun félagsins. Í skattalegu tilliti telst einkahlutafélagið yfirtaka rekstur og efnahag frá dagsetningu efnahagsreiknings. Stofnefnahagsreikningur ásamt yfirlýsingu um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag skal enn fremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins.
                  c.      4. málsl. 2. mgr. orðist svo: Stofnverð gagngjalds hluta í einkahlutafélaginu, sbr. c-lið 1. mgr., ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í efnahagsreikningi sem stofnefnahagsreikningur miðast við.
     7.      Við 28. gr. Greinin orðist svo:
                  Í stað 1. mgr. 59. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Endurgjald fyrir vinnu manns, sem reikna skal sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., skal eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja. Ríkisskattstjóri setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald. Við ákvörðun lágmarks endurgjalds skal höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf.
                  Færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið er í reglum ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr., skal skattstjóri hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali. Skattstjóra er heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra kveða á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur framteljanda og eftir atvikum launagreiðanda sem réttlætt getur slíka ákvörðun. Framteljandi skal m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það á við.
                  Ákvörðun skattstjóra um hækkun á reiknuðu endurgjaldi manns með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi má ekki mynda tap umfram það sem nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. Skattstjóri skal við ákvörðun reiknaðs endurgjalds elli- og örorkulífeyrisþega við eigin atvinnurekstur gæta þess að tap myndist ekki við það í rekstrinum.
                  Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.
     8.      Við 34. gr. Greinin orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðunum „Byggingarsjóði ríkisins“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og Íbúðalánasjóði.
                  b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um sambærileg verðbréf gefin út af öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
     9.      Við 39. gr. Greinin falli brott.
     10.      Við 42. gr., sem verði 41. gr.
                  a.      Orðin „í efnahagsreikningi“ í B-lið (II.) b-liðar falli brott.
                  b.      A-liður E-liðar (V.) b-liðar orðist svo: 1. janúar 2002 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 3% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2002 og fyrirframgreiðslu vaxtabóta á því ári.
                  c.      B-liður E-liðar (V.) b-liðar orðist svo: 1. janúar 2003 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,75% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 og fyrirframgreiðslu vaxtabóta á því ári.
     11.      Við 46. gr., sem verði 45. gr. Greinin orðist svo:
                  Við 2. tölul. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um mann, maka hans eða barn sem skal reikna sér endurgjald vegna atvinnurekstrar eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum eða á vegum þeirra aðila sem um ræðir í 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     12.      Á eftir 48. gr., sem verði 47. gr., komi tvær nýjar greinar sem orðist svo:
         a.    (48. gr.)
                          Við 2. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 3. málsl., svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt að setja reglur um rafræn skýrslu- og greiðsluskil vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.
         b. (49. gr.)
                          Í stað tilvísunarinnar „4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt“ í 2. mgr. 26. gr. laganna kemur: 5. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     13.      Á undan 49. gr., sem verði 51. gr., komi ný grein svohljóðandi:
                  Í stað orðanna „framreiknuðu kostnaðarverði“ í 2. málsl. 23. gr. laganna kemur: hækkuðu bókfærðu verði.
     14.      Við 49. gr., sem verði 51. gr. Greinin orðist svo:
                   25. gr. laganna orðast svo:
                  Ef raunvirði fastafjármuna er talið verulega hærra en kostnaðarverð eða framreiknað kostnaðarverð þeirra af ástæðum sem taldar eru varanlegar er heimilt að hækka bókfært verð þeirra í ársreikningi.
                  Matsbreytingar skv. 1. mgr. skal færa á sérstakan endurmatsreikning meðal eigin fjár.
                  Endurmatsreikning, sem myndaður er skv. 2. mgr., má aðeins leysa upp ef hin endurmetna eign er seld, tekin úr notkun eða fullafskrifuð, svo og ef forsendur fyrir endurmatinu eru ekki lengur fyrir hendi.
                  Hreyfingar á endurmatsreikningi á reikningsárinu skal sundurliða í skýringum.
                  Ef beitt er ákvæðum 1. mgr. skal í skýringum gera nákvæma grein fyrir þeim aðferðum sem viðhafðar eru.
     15.      Við 51. gr., sem verði 53. gr. 2. efnismgr. falli brott.