Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 512  —  169. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



     1.      Við 1. gr. Tilvísunin „42. gr.“ í 2. efnismgr. falli brott.
     2.      Við 4. gr. 1. og 2. mgr. h-liðar orðist svo:
                  Heimilt er að breyta greiðslum sjúkratryggðra einstaklinga samkvæmt þessari grein með reglugerð og ákveða hámark eininga í lyfjaávísunum. Sjúkratryggðir einstaklingar skulu greiða gjald fyrir þjónustu skv. a-, b-, c-, d-, g-, h- og i-liðum 1. mgr. í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur. Um greiðslur fyrir tannlæknaþjónustu fer samkvæmt ákvæðum 37. gr. Heimilt er að ákveða að gjald skv. a-, b-, c-, d-, g-, h- og i-liðum 1. mgr. og 3. mgr. skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess sem sjúkratryggðum einstaklingi ber að greiða.
                  Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í þessari grein og 37. gr.
     3.      Við 6. gr. Í stað orðanna „að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir“ í 2. efnismgr. komi nýr málsliður svohljóðandi: Ráðherra skal áður en daggjöld eru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana.
     4.      Við 8. gr. Efnismálsgrein orðist svo:
                  Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum tannlæknum, Tryggingastofnunar ríkisins þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar, eða tannlæknum þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um réttindi sjúklinga eftir því sem við á.