Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 520  —  193. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Arthúr Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Friðrik Arngrímsson og Kristján Þórarinsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Skúla Magnússon lektor, Óskar Þór Karlsson og Björgvin Kjartansson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Grétar Mar Jónsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Áskel Heiðar Ásgeirsson frá Byggðastofnun, Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Árna Múla Jónasson og Auðun Ágústsson frá Fiskistofu og Ragnar Kristjánsson, Tryggva Óttarsson, Örn Smárason og Bjarna Áskelsson frá Samtökum uppboðsmarkaða. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Landssambandi smábátaeigenda, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Þjóðhagsstofnun, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Byggðastofnun og Starfsgreinasambandi Íslands.
    Megintilgangur þess frumvarps sem hér um ræðir er að bregðast við þeim tekjusamdrætti vegna minni aflahlutdeildar í ýsu, steinbít og ufsa sem hefur orðið hjá útgerðum smábáta sem gert hafa út á grundvelli þorskaflahámarks og einnig að styrkja forsendur útgerðar í byggðarlögum sem eru að verulegu leyti háð veiðum krókaaflamarksbáta. Með þessu frumvarpi er því verið að auka núgildandi veiðirétt krókaaflamarksbáta sem kvótabundinn hefur verið frá 1. september sl. samkvæmt lögum nr. 1/1999, sbr. lög nr. 93/2000, og stuðla að því að hann verði fyrst og fremst í höndum þeirra útgerða sem nú eru starfandi.
    Hvað þátt smábáta varðar tekur þetta frumvarp eingöngu til krókaaflamarksins og þeirra breytinga sem gildistaka laga nr. 1/1999, sbr. lög nr. 93/2000, sem fólu í sér kvótasetningu aukategunda, hafði í för með sér. Því er ekki fjallað um önnur hagsmunamál smábátanna að þessu sinni. Gert er ráð fyrir að á þeim verði tekið í þeirri heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnuninni sem nú stendur yfir og ætlunin er að lögfesta á þessu þingi. Má í því sambandi sérstaklega nefna málefni svokallaðra dagabáta. Þótt ekki hafi unnist tími til að undirbúa það mál nú telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að lagfæra rekstrarumhverfi þess bátaflokks á þessum vetri og mun beita sér fyrir því að frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi fyrir 1. febrúar nk. Einkanlega bendir meiri hlutinn á þrjú atriði í því sambandi: lágmarkssóknardagafjölda, hvort eðlilegt sé að sóknareiningar bátanna séu mældar í klukkustundum í stað daga eins og nú er gert og loks þarf að skoða betur forsendur framsalsins, t.d. er varðar nýtingu daganna.
    Þeim breytingartillögum sem eru fluttar af meiri hlutanum er ætlað að styrkja forsendur sem liggja til grundvallar þessu frumvarpi og hér hefur verið gerð grein fyrir og enn fremur að treysta í sessi sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi er nái til minni báta.
    Leggur meiri hlutinn til að nýrri grein, 6. gr. b, verði bætt við lögin sem verði 2. gr. frumvarpsins. Í 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXIV við lög nr. 38/1990, sbr. bráðabirgðaákvæði II við lög nr. 1/1999 og lög nr. 93/2000, kemur m.a. fram að bátum sem veiðileyfi hafa með krókaaflamarki er aðeins heimilt að stunda veiðar úr þeim tegundum sem þeir hafa krókaaflamark í og tegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Ráðherra skuli þó setja reglur um leyfðan meðafla. Einnig kemur fram í 6. mgr. framangreinds bráðabirgðaákvæðis að krókaaflamark er óheimilt að nýta á annan hátt en við línu- og handfæraveiðar. Þar sem um bráðabirgðaákvæði er að ræða er hér lagt til að efnisákvæði þessi verði tekin upp í lögin varanlega og um leið falli úr gildi framangreindar málsgreinar í ákvæði til bráðabirgða XXIV við lögin, sbr. breytingartillögu við 8. gr. Sjávarútvegsráðherra mun á grundvelli 6. gr. b ákvarða krókaaflamarksbátum tiltekinn leyfilegan meðafla svo að annar afli en kveðið er á um í krókaaflamarksleyfi skerði ekki krókaaflamark viðkomandi báts.
    Við 3. gr. frumvarpsins er gerð sú breytingartillaga að sjávarútvegsráðherra er veitt heimild til þess að setja skilyrði um framsal aflamarks og varðandi ráðstöfun afla sem svarar til þess aflamagns sem bátar fá úthlutað á grundvelli 3. gr. (nýrrar málsgreinar 9. gr. laganna). Er markmið þessarar breytingar að tryggja að þessar aflaheimildir nýtist sem best þeim byggðarlögum sem eru að verulegu leyti háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ljóst er að ekki verður unnt að úthluta þessum aflaheimildum fyrr en fyrir liggur úthlutun viðbótarkrókaaflamarks á grundvelli frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur á hinn bóginn áherslu á að úthlutun aflaheimilda á grundvelli þessarar greinar er ætlað að fara til byggðarlaga sem eru að verulegu leyti háð veiðum krókaaflamarksbáta og verða fyrir hlutfallslega mestri skerðingu útgerðartekna vegna gildistöku laga nr. 1/1999, 1. september sl., sbr. lög nr. 93/2000. Hér er verið að vísa til lækkunar útgerðartekna sem hlýst af kvótasetningu á ýsu, ufsa og steinbít. Er eðlilegast að borinn sé saman afli á þessum tegundum síðasta fiskveiðiárs og úthlutað krókaaflamark á ýsu, ufsa og steinbít á yfirstandandi fiskveiðiári. Ekki er gert ráð fyrir að þau byggðarlög sem verða fyrir tiltölulega lítilli tekjuskerðingu njóti þessarar úthlutunar. Miðað er við að úthlutun þessara heimilda til einstakra báta sé til þriggja til fimm ára í senn á grundvelli samnings þar sem kveðið sé á um nýtingu á þessum heimildum.
    Af lagatæknilegum ástæðum er lagt til að 4. gr. frumvarpsins falli brott en í hennar stað komi nýtt efnislega samhljóða ákvæði til bráðabirgða. Skýrist sú breyting af því að efni ákvæðisins hefur afmarkaðan gildistíma og er því bráðabirgðaákvæði í eðli sínu. Enn fremur eru lagðar til nokkrar efnislegar breytingar og eru þær eftirfarandi: Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæðið komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. febrúar nk. enda þarf ákvæðið nokkurn undirbúning, m.a. af hálfu Fiskistofu, svo vel megi takast til. Í annan stað er lagt til að skipstjóra sé heimilað að ákveða að allt að 5% á yfirstandandi fiskveiðiári frá 1. febrúar nk. að telja og 5% á næsta fiskveiðiári teljist ekki til aflamarks skipsins, í stað þess að miðað sé við einstakar veiðiferðir eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Telur meiri hlutinn að þessi breyting dragi úr brottkasti á afla, enda getur oft háttað svo til að hlutfall smáfisks sé hátt í einstökum veiðiferðum en miklu lægra í öðrum. Komi hins vegar í ljós í lok tímabils að afli sem hefur verið ráðstafað með þessum hætti sé umfram 5% reiknast umframaflinn til aflamarks skipsins. Þá er horfið frá því að verðmæti aflans sem rennur til útgerðar og áhafnar verði fastákveðin krónutala. Þess í stað er lagt til að 20% verðmætisins komi til skipta. Er þetta talið líklegra til þess að stuðla að því að markmið ákvæðisins nái fram að ganga og muni einnig hvetja til betri meðferðar aflans.
    Með breytingartillögu við 6. gr. leggur meiri hlutinn til að horfið verði frá því að opna á jöfn skipti á krókaaflamarki og aflamarki í tilteknum tegundum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Tilgangurinn með þeirri breytingu er að tryggja betur sérstöðu fiskveiðistjórnarkerfis smábáta. Þá er lagt til að framsalsreglur smábáta verði sambærilegar þeim sem gilt hafa um þroskaflahámarksbáta. Þannig verði krókaaflamarksbátum heimilt innan fiskveiðiársins að flytja allt að 30% af úthlutuðu krókaaflamarki krókabáts til annars krókabáts.
    Lagt er til að 7. gr. verði breytt þannig að útgerðir krókaaflamarksbáta fái val um hvaða tímabil verði lagt til grundvallar við úthlutun aukinnar aflahlutdeildar krókaaflamarksbáta. Skuli útgerðirnar annaðhvort velja fiskveiðiárið 1999/2000 eða 2000/2001. Hér er verið að freista þess að tryggja að aflaheimildirnar lendi í sem ríkustum mæli hjá starfandi útgerðum og einnig að koma til móts við þær margbreytilegu aðstæður sem hafa verið til staðar hjá útgerðum þorskaflahámarksbáta.
    Þá er gert ráð fyrir því að svokallaðir þakbátar sem fá munu val á að fara inn í dagakerfið hafi ekki selt krókaaflamark eða krókaaflahlutdeild sína. Skulu þeir bátar kunngera val sitt fyrir 1. febrúar nk. Telur meiri hlutinn eðlilegt að þeir fái svo mikið svigrúm, m.a. í ljósi þeirrar niðurstöðu meiri hlutans að frumvarp sem taki á málefnum svokallaðra dagabáta líti dagsins ljós fyrir þann tíma.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. des. 2001.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.



Vilhjálmur Egilsson.


Hjálmar Árnason,
með fyrirvara.