Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 523  —  185. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot gegn börnum).

Frá allsherjarnefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Thorarensen og Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Ragnheiði Harðardóttur frá ríkissaksóknara, Egil Stephensen frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Elínu Hallvarðsdóttur frá Barnaverndarstofu, Jakob R. Möller frá Lögmannafélagi Íslands, Helga I. Jóhannsson frá Dómarafélagi Íslands og Þórhildi Líndal, umboðsmann barna.
    Umsagnir um málið bárust frá ríkislögreglustjóra, Lögmannafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, Barnaverndarstofu, ríkissaksóknara, dómstólaráði og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum sem miða að því að veita börnum ríkari refsivernd vegna kynferðisbrota gegn þeim. Er í fyrsta lagi lagt til að mælt verði fyrir um refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu af börnum og ungmennum þar sem lögin taka ekki beinlínis á slíkri háttsemi. Samkvæmt frumvarpinu er refsinæmi brotsins bundið við að barni eða ungmenni yngra en 18 ára hafi verið greitt endurgjald, sem getur verið fé eða önnur verðmæti, gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Þá á ekki að skipta máli hvort endurgjaldið er greitt af geranda eða þriðja manni. Orðalag 1. gr. frumvarpsins virðist hins vegar ekki taka til slíkrar háttsemi af hálfu þriðja manns og leggur nefndin því til breytingu á frumvarpinu í þá átt. Í öðru lagi er lagt til að þyngri refsingar verði lagðar við innflutningi eða vörslu á efni sem hefur að geyma barnaklám. Slík háttsemi geti því varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum ef brotið er stórfellt en mat á slíku ræðst einkum af grófleika og magni efnis í hverju tilviki fyrir sig.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi


BREYTINGU:
         

    Við 1. gr. Í stað orðanna „gegn því að hafa við það“ í efnismálsgrein komi: gegn því að greiðandi eða einhver annar hafi við það.


    Guðjón A. Kristjánsson, Ólafur Örn Haraldsson og Guðrún Ögmundsdóttir voru fjarverandi afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi er samþykkur afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. des. 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ásta Möller.



Katrín Fjeldsted.


Kjartan Ólafsson.


Lúðvík Bergvinsson.