Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 547  —  348. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Veikleikar fjárlaga á tekju- og gjaldahlið sýna glöggt að ríkisstjórnin hefur misst öll tök á efnahagsmálunum. Í vanburða tilraun til að sýna tekjuafgang, þó í raun sé þegar ljóst að stefnir í verulegan halla á fjárlögum næsta árs, er reynt að klóra í bakkann með því að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Forgangur ríkisstjórnarinnar birtist með mjög sérkennilegum hætti í fjárlögum næsta árs þar sem þeir sem verst standa þurfa helst með skertri þjónustu og verri kjörum að gjalda fyrir óstjórn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
    Það kristallast nú í þessu frumvarpi þar sem ráðist er á garðinn þar sem hann er lægstur með því að seilast sérstaklega í vasa sjúklinga og námsmanna. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem fela í sér rúmlega eins milljarðs króna niðurskurð koma einnig illa við skattpínda bifreiðaeigendur, auk þess sem kirkjan fær sinn skammt nú í aðdraganda jólanna. Með þessum ráðstöfunum er gengið þvert á yfirlýst markmið um lækkun verðbólgu því að þessar aðgerðir skrúfa upp verðlagið og magna verðbólguna. Það er í samræmi við annað hjá þessari ríkisstjórn að hvað rekur sig á annars horn í handahófskenndum vinnubrögðum hennar við stjórn efnahagsmála.
    Að ósk minni hlutans var Þjóðhagsstofnun beðin að meta áhrif þessarar gjaldtöku á verðlag og vísitölu og taka með í þá útreikninga fyrirhugaða hækkun á áfengisgjaldi, sem skila á 400 millj. kr. í ríkissjóð, og verðlagsáhrif af hækkun á komugjöldum á heilsugæslustöð og til sérfræðinga, auk áformaðrar hækkunar á lyfjakostnaði á næsta ári. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar, að höfðu samráði við Hagstofu, er að verðlagsáhrifin af þessum hækkunum mælist 0,35% í vísitölunni (sjá fylgiskjal I). Það er sérkennilegt innlegg hjá ríkisstjórninni í þá umræðu sem nú fer fram milli aðila vinnumarkaðarins um leiðir til að ná tökum á verðbólgunni og komast hjá uppsögn á launalið kjarasamninganna nú í febrúarmánuði nk. Verðlagsáhrifin af aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem hækka verðbólguna um 0,35%, eru olía á verðbólgubálið og þá sátt sem nú er verið að reyna að ná á vinnumarkaðnum.

Hækkun bifreiðagjalda.
    Minni hlutinn telur allt of harkalega gengið fram gagnvart bifreiðaeigendum. Fjölskyldubíllinn og rekstur hans er verulegur hluti af útgjöldum velflestra venjulegra fjölskyldna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að bifreiðagjöld eigi að hækka um 10% og gefa í ríkissjóð 260 millj. kr. í auknar tekjur. Þessar álögur á bifreiðaeigendur koma til viðbótar 70–80% hækkun á lögboðnum bifreiðatryggingum sl. 2–3 ár og mikilli bensínhækkun á umliðnum missirum. Fulltrúar FÍB sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar töldu að bifreiðaskattur væri ekkert annað en eignarskattur á bifreiðar sem skattlagðar væru sem eign með öðrum eignum og því væri um tvísköttun að ræða. Einnig væri um að ræða flatan skatt sem legðist á bíla miðað við þyngd en ekki verðmæti.
    Athyglisvert var einnig að fram kom í máli fulltrúa FÍB að hækkun á bifreiðagjöldum frá 1988 hefði verið miklu meiri en sem nemur raunhækkun. Þannig var þessi skattur 2 kr. á kíló á árinu 1988 sem framreiknað gefur 4,35 kr. á kíló í stað 6,60 kr. á kíló nú eftir þá hækkun sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Hækkun bifreiðagjalds samkvæmt útreikningum FÍB er því um 50% hækkun umfram þróun verðlags. Tekjur ríkissjóðs af bifreiðaeigendum eru með því mesta sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við og hafa verið yfir 4,5% af landsframleiðslu hér á landi miðað við 2,5–3,5% í Evrópu. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, hefur tekið saman athyglisverðar upplýsingar um þróun í tekjum ríkissjóðs af bifreiðaeigendum sem birtar voru í fjölmiðlum nýlega (sjá fylgiskjal II). Þar kemur fram að tekjur ríkisins af bifreiðum hafa hækkað geysilega á einum áratug. Árið 1990 voru þær 13,2 milljarðar kr., árið 1995 18,6 milljarðar kr. og hæstar voru þær árið 2000 eða samtals 30 milljarðar kr.
    Útgjöld fjölskyldu vegna reksturs bifreiðar eru áætluð 16% af útgjöldum heimilanna samkvæmt vísitöluútreikningum Hagstofu. Samkvæmt útreikningum FÍB er kostnaður við eign og rekstur ódýrustu fólksbílanna á þessu ári um 566 þús. kr. en var 464 þús. kr. á sl. ári. Nú þegar kjarasamningar eru í uppnámi er ástæða til að geta þess að bílatryggingar hafa hækkað um 46% frá því að flest verkalýðsfélaganna innan ASÍ skrifuðu undir kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins á sl. ári. Fram hefur komið hjá ASÍ að verðbólgan, sem mælst hefur yfir 8% sl. tólf mánuði, sé löngu búin að éta upp umsamdar launahækkanir.
    Minni hlutinn mótmælir þeim byrðum sem enn á ný er verið að leggja á bifreiðaeigendur með hækkun á bifreiðagjaldi sem vegur þungt í útgjöldum fjölskyldna.

Aukin gjaldtaka af námsmönnum.
    Minni hluti menntamálanefndar skilaði séráliti um þá þætti frumvarpsins sem snúa að mennta- og menningarmálum (sjá fylgiskjal X). Gagnrýnt er að tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 335 millj. kr. renni í ríkissjóð á næsta ári í stað 385 millj. kr. Raktar eru margvísleg áhrif þessa niðurskurðar á viðhald og ýmsar endurbætur menningarbygginga og hvaða afleiðingar hann hefur fyrir áætlanir, m.a. á framlag til Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands, en allar áætlanir safnsins munu riðlast við slíkan niðurskurð. Minni hlutinn leggur áherslu á að eyða þurfi óvissu sem ríkir um framtíðarfjármögnun endurbóta menningarbygginga þar sem ákveðið hefur verið að fella niður tekjustofn endurbótasjóðsins að ári.
    Minni hluti menntamálanefndar skilar einnig ítarlegu áliti um nálægt 100 millj. kr. niðurskurð til skóla á framhalds- og háskólastigi. Orðrétt segir í áliti minni hlutans: „Minni hlutinn ítrekar að með því að auka álögur á stúdenta á sama tíma og námsmöguleikum þeirra er ógnað með verulegum verðhækkunum, t.d. á námsbókum, húsaleigu og matvælum, er ógnað þeirri þjóðarsátt sem hingað til hefur verið um að standa vörð um jafnrétti til náms.“ Bendir minni hlutinn á ákveðna hópa sem standa verr að vígi en aðrir, eins og barnafólk og fólk af landsbyggðinni.
    Réttilega er bent á það í áliti minni hlutans að vegna þröngrar fjárhagsstöðu framhaldsskólanna hafa skólarnir leitað margra leiða til að auka tekjur sínar og hafa nemendur skólanna fengið að kynnast ýmsum tegundum gjalda af þeim sökum. Lítið samræmi virðist vera milli skólanna í þessum gjaldtökum og er erfitt að fá heildaryfirlit yfir gjaldtökuna. Vakin er athygli á því að sú spurning hlýtur að vakna hvort gætt sé jafnræðis milli nemenda í framhaldsskólum hvað þessar gjaldtökur varðar. Minni hlutinn bendir á að sú gjaldtaka sem hér er gerð tillaga um kemur til viðbótar ýmsum öðrum gjöldum og þeim almennu hækkunum sem m.a. hafa átt sér stað að undanförnu á námsbókum.
    Í meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd kom fram bæði frá fulltrúum Stúdentaráðs og fulltrúum frá Iðnnemasambandi Íslands að kostnaður nemenda við nám hafi vaxið mikið á undanförnum árum. Má þar nefna kaup bóka sem kosta tugi þúsunda, auk þess sem vaxandi kröfur eru gerðar til tölvunotkunar.
    Stúdentaráð gagnrýndi harðlega að upphæð gjaldsins skyldi vera ákvörðuð út frá sparnaðarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar og tengd við kennsluútgjöld, enda mótmæltu 3.200 stúdentar þessari auknu gjaldtöku og kröfðust þess að hún yrði dregin til baka. Fram kom að ef skrásetningargjöld ættu að vera í efnislegum tengslum við innritun nemenda og rekstur nemendaskrár ætti gjaldið að vera 16 þús. kr. en ekki 32.500 kr. eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Helmingur þess er því almenn tekjuöflun til að standa undir kostnaði við kennsluna og almennan rekstur skólans. Stúdentaráð telur að með þessu sé verið að gera tilraun til að breyta skrásetningargjöldunum í almenn skólagjöld.
    Í umsögn ráðsins kemur fram að skrásetningargjald hafi alltaf tíðkast í Háskóla Íslands (sjá fylgiskjal III). Breytingin sem gerð var á skrásetningargjaldinu fyrir tæpum tíu árum hafi verið staðfest árið 1996 með breytingu á lögum um Háskóla Íslands. Með þeirri breytingu hafi verið opnað fyrir mun almennari gjaldtöku af stúdentum en áður hafði tíðkast, enda kom fram að verulega mikið er um að nemendur flosni frá námi vegna mikilla fjárhagserfiðleika.
    Athyglisverðar upplýsingar komu fram hjá fulltrúum Iðnnemasambands Íslands sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Þeir bentu á að með lögum um framhaldsskóla frá 1996 hafi verið samþykkt að innritunargjöld skyldu aldrei verða hærri en 6 þús. kr. Þeir benda á að ætla mætti að þessi fjárhæð hafi þá verið miðuð við þann kostnað sem innritunargjöldin fela í sér, því sé óeðlilegt að miða við verðlagshækkanir frá 1991. Jafnframt er bent á í umsögn þeirra að skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996 sé heimilað að innheimta efnisgjald af nemendum sem njóta verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli lætur þeim í té og þeir þurfa að nota í námi sínu (sjá fylgiskjal IV). Gjaldið á að taka mið af raunverulegum efniskostnaði, en má þó aldrei vera hærra en 25 þús. kr. á skólaári eða 12.500 kr. á önn. Nú er verið að leggja til 100% hækkun á þessu gjaldi sem kemur sér mjög illa fyrir þá sem eru í iðn- og verknámi. Bent er á að nemar í löggiltum iðngreinum þurfi að kaupa verkfæri sem þeir noti meðan á námi stendur. Í öllum iðngreinum þurfa nemendur að kaupa verkfæri eða annað námstengt efni. Bent er á kostnað hárgreiðslunema í því sambandi sem er 65 þús. kr. og matreiðslunema sem er 40.000–50.000 kr. Auk þess sé bókakostnaður við hverja önn 30.000–50.000 kr. Iðnnemasambandið bendir á að aðsókn í iðnnám hafi með árunum snarminnkað og að nú hafi skólar á landsbyggðinni þurft að leggja niður mikið af verknámskennslu og jafnframt að stór hluti iðnnema á Íslandi komi af landsbyggðinni. Nemendur af landsbyggðinni verða því sérstaklega fyrir barðinu á þessari hækkun sem þeir fá til viðbótar verulegum útgjöldum í ferðakostnað og dýru leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
    Minni hlutinn tekur undir það að auknar álögur á stúdenta séu afar varasamar og stríði gegn öllum hugmyndum um jafnrétti til náms. Ekki síst ber að skoða þetta í ljósi vaxandi útgjalda við skólanám sem tengist bókakaupum og fartölvunotkun. Sama gildi um auknar gjaldtökur í framhaldsskólum í formi innritunar- og efnisgjalda sem í frumvarpinu er lagt til að hækki um 100%. Bókakaup vegna framhaldsnáms eru í upphafi ekki undir 30 þús. kr., tölvunotkun er vaxandi þáttur í starfi nemenda, en flestir nemendur standa ekki undir kaupum á tölvum nema með lánum. Kostnaður við kaup á fartölvu er á bilinu 150–250 þús. kr. Innritunargjöldin sem nú hækka í 8.500 kr. eru líka erfið fyrir marga nemendur. Ljóst er að hækkun efnisgjalda um 100%, sem fara í 50 þús. kr., getur haft úrslitaáhrif á framhaldsnám nemenda. Það er með ólíkindum hve hart er keyrt gegn nemendum þegar allir vita að lífskjör þjóðarinnar í nútíð og framtíð munu mikið ráðast af því hvernig hlúð er að menntun og jöfnum möguleikum allra til náms. Þær auknu fjárhagslegu byrðar sem nú á að leggja á nemendur munu örugglega leiða til þess að fjöldi nemenda hættir við nám. Þannig er brotið gegn grundvallaratriði um jafnrétti til náms óháð fjárhag og búsetu.
    Minni hlutinn varar því við þessum auknu gjaldtökum af nemendum og skorar á ríkisstjórnina að falla frá þeim, enda hafa hækkanir líka nokkur verðlagsáhrif sem kynda undir verðbólgunni.

Gjaldtaka af sjúklingum.
    Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar fjallaði um 9. gr. frumvarpsins (sjá fylgiskjal IX). Í greininni er lagt til að 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, eru felld undir skilgreiningu á sjúkrahúsi, verði felldur brott. Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er lögð til sú breyting að sjúkrahótel/heimili verði ekki lengur skilgreind sem sjúkrahús. Þar með sé heimilt að innheimta gjald fyrir dvöl þar.
    Fram kemur í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar að stjórnvöld hófu gjaldtöku á sjúkrahóteli RKÍ um síðustu áramót, þ.e. í janúar 2001, sem nam 700 kr. á dag fyrir sjúkling og sömu upphæð ef viðurkenndur fylgdarmaður dvaldi með sjúklingi á herbergi. Þessari gjaldtöku var hætt í október sl. þar sem ekki var fyrir henni stoð í lögum. Í áliti minni hlutans kemur fram að þetta séu greinilega nýjar og auknar álögur á sjúklinga og á það ekki síst við um þá sem búa fjarri þjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem gjaldið bætist við umtalsvert hærri kostnað sjúklinga á landsbyggðinni og eykur enn á ójöfnuð. Þetta bitni einnig á öldruðum á höfuðborgarsvæðinu sem eru útskrifaðir snemma af sjúkrahúsi og geta ekki dvalið einir heima hjá sér.
    Í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar kemur fram að í meðferð nefndarinnar hafi komið fram að á sjúkrahótelinu fari fram heilbrigðisþjónusta, þar starfi hjúkrunarfræðingur og bakvakt sé frá Landspítala um kvöld og nætur. Jafnframt segir í álitinu að landlæknir hafi aðspurður sagst vera andvígur breytingunni á skilgreiningunni og telja hana varhugaverða. Hjá fulltrúum landlæknisembættisins kom einnig fram að mun meiri þörf væri fyrir fleiri pláss. Allt að 50 pláss væru í notkun sem sjúkrahótelapláss átta mánuði á ári og RKÍ greiddi fyrir þau sem eru umfram 28.
    Minni hlutinn telur að með þessari breytingu sé verið að fara út á mjög varasamar brautir sem bitnað geti á þessari þörfu starfsemi sem þegar hefur sannað gildi sitt. Vafasamur sparnaður er hér líka á ferðinni sem getur leitt til þess að fólk í litlum efnum verði síður útskrifað af sjúkrahúsum inn á sjúkraheimili.
    Minni hlutinn tekur undir það álit að óeðlilegt sé að taka sjúkrahótel undan sjúkrahússkilgreiningunni og mótmælir harðlega auknum gjaldtökum af sjúklingum, en í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar kemur jafnframt fram að margir sjúklingar, svo sem krabbameinssjúklingar, dvelja á sjúkrahóteli í 3–4 mánuði en ríkisstjórnin hefur aukið álögur á þá verulega. Orðrétt segir í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar: „Hér eru greinilega á ferðinni nýjar og auknar álögur á sjúklinga og á það ekki síst við um þá sem búa fjarri þjónustu Landspítala þar sem gjaldið bætist við umtalsvert hærri kostnað sjúklinga á landsbyggðinni og eykur enn á ójöfnuð. Þetta bitnar líka á öldruðum á höfuðborgarsvæðinu sem eru útskrifaðir snemma af sjúkrahúsi og geta ekki dvalið einir heima hjá sér.“
    Þessi gjaldtaka af sjúklingum samkvæmt frumvarpinu bætist því ofan á verulega auknar gjaldtökur í heilbrigðiskerfinu á þessu ári, auk áforma í fjárlögum um 500 millj. kr. viðbótarálögur á sjúklinga. Minnt er á í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar að göngudeildarþjónusta hefur hækkað mjög í verði og getur gjaldið verið yfir 18 þús. kr. fyrir komu og þúsundir króna fyrir næstu heimsóknir eins og dæmin sanna. Jafnframt kemur þar fram að hámarksgreiðsla áður en kemur að afsláttarkorti hafi hækkað um 50% í sumar og ýmis gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu hækkuðu einnig þá og nú enn meira með fjárlögunum. Með sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar eigi einnig að taka 6.000 kr. hámarkið af sérfræðilæknishjálpinni og ferliverkunum sem mun hafa það í för með sér að greiðsla sjúklinga fyrir þau verk hækkar um mörg hundruð prósent. Einnig er áformað að hækka hlut sjúklinga í lyfjum um 200 millj. kr.
    Formaður Landssambands eldri borgara, Benedikt Davíðsson, kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Varaði hann sterklega við auknum gjaldtökum í heilbrigðiskerfinu sem hann sagði bitna með fullum þunga á öldruðum. Lagði hann fram mjög athyglisverða samantekt á breytingum á komugjöldum til sérfræðinga og í röntgenrannsókn þar sem kemur fram að hækkun 1. júlí sl. var á bilinu 20%–66,7% (sjá fylgiskjal V). Í úttekt sem BSRB hefur gert nýlega kemur einnig fram að kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur margfaldast á undanförnum árum (sjá fylgiskjal VI). Allt þetta sýnir að ríkisstjórnin hefur farið offari í gjaldtöku af sjúklingum.
    Minni hlutinn mótmælir því harðlega auknum álögum á sjúklinga sem birtast í þessu frumvarpi, auk álagna vegna lyfja og læknisþjónustu sem heilbrigðisráðherra á að útfæra á nýju ári í reglugerð með stoð í nýsamþykktum fjárlögum. Aldraðir, öryrkjar og barnmargar fjölskyldur sem lítið hafa milli handanna lenda verst í þessum auknu gjaldtökum af sjúklingum, enda ljóst að lítil hækkun á framfærslueyri lífeyrisþega á þessu ári er löngu horfin í auknar gjaldtökur í heilbrigðiskerfinu.

Skerðing sóknargjalda.
    Mjög erfitt er að sjá nokkra réttlætingu fyrir þeirri skerðingu á sóknargjöldum sem ríkisstjórnin leggur nú til. Innan stjórnarliðsins virðist uppi grundvallarmisskilningur á eðli sóknargjaldsins. Sóknargjöld eru ekki skattur, eins og stjórnvöld virðast álíta þegar þeim hentar að seilast í vasa trúfélaga til að stoppa í fjárlagagötin, heldur félagsgjald sóknarbarna til kirkjunnar eða þeirra trúfélaga sem þau kjósa að vera í. Ríkisstjórnin er því í reynd að taka ófrjálsri hendi félagsgjöld sem henni var trúað til að innheimta fyrir kirkjuna með sérstökum lögum. Ekki verður heldur annað séð en tillaga ríkisstjórnarinnar sé brot á samningi sem kirkjan gerði við íslenska ríkið og bæði fjármálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra staðfestu með undirskrift sinni 4. september 1998.
    Sóknargjöldin voru upphaflega félagsgjald sem fólk greiddi til trúfélags síns, hvort sem það var í þjóðkirkjunni eða í trúfélögum utan hennar. Gjald þeirra sem kusu að standa utan trúfélaga rennur í sérstakan sjóð sem er í vörslu Háskóla Íslands. Með sérstökum lögum 1987 var horfið frá því fyrirkomulagi að sóknargjöld væru nefskattur, en þess í stað ákveðið að trúfélög skyldu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti, og ríkissjóði bæri að standa skil á henni með tilteknum hætti. Í reynd tók því ríkið að sér að innheimta félagsgjöld kirkjunnar, og trúfélaga utan hennar, og því ekki hægt að líta á sóknargjöldin sem skatt.
    Sóknargjöldin hafa farið til að standa straum af margvíslegum, óhjákvæmilegum kostnaði innan kirkjunnar. Lán vegna viðhalds og byggingar kirkna, sem ella hefðu lent á ríkissjóði, eru að stórum hluta greidd af sóknargjöldum. Söfnuðir hafa gert áætlanir í trausti þess að orð framkvæmdarvaldsins standi. Þeir, jafnt og trúfélög innan og utan þjóðkirkjunnar, munu því lenda í miklum erfiðleikum vegna niðurskurðarins.
    Sóknargjöldin hafa ekki síst staðið undir öflugu tónlistarlífi margra safnaða. Í fámennum söfnuðum landsbyggðarinnar hefur það oftar en ekki verið burðarás í menningarlífi viðkomandi svæða. Rómað kórastarf innan kirkjunnar á landsbyggðinni er því í hættu vegna niðurskurðarins. Það má því líta á hann sem enn eitt höggið sem slæmt er á landsbyggðina. Fámennu söfnuðirnir munu kenna verst til undan því.
    Í samfélagi sem einkennist af vaxandi upplausn hefur kirkjan í auknum mæli mætt þörf samfélagsins fyrir félagslega og sálfræðilega ráðgjöf og aðstoð af ýmsum toga. Sérstakir starfsmenn, ýmist prestar, aðstoðarprestar, djáknar eða aðrir starfsmenn, hafa verið ráðnir til þessara verka. Það er í vaxandi mæli orðinn mikilvægur og óhjákvæmilegur hluti af þeirri félagslegu þjónustu sem samfélagið veitir þegnum sínum. Kirkjan hefur með þessum hætti risið af myndarskap undir nýrri ábyrgð á þegnum sínum sem lent hafa í ágjöf í veraldarvolki, ábyrgð sem hið opinbera hefði ella þurft að axla með ærnum – og miklu meiri – kostnaði. Hvers konar forvarnir, í formi árangursríks barnastarfs kirknanna, er jafnframt orðinn mikilvægur hluti af uppeldi nýrra kynslóða. Þessi hluti af starfi kirkjunnar er ekki munaður velsældarsamfélags heldur brýn nauðsyn samfélags sem er að trosna á saumunum og þarf aukna umhyggju fyrir þegnum sínum. Þessi mikilvægi hluti kirkjustarfs er að langstærstu leyti kostaður af sóknargjöldum. Hann mun sæta miklum áföllum ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.
    Athygli vekur að skerðing sóknargjalda kemur sýnu verst niður á trúfélögum utan þjóðkirkjunnar. Þau njóta þess ekki, eins og söfnuðir þjóðkirkjunnar, að laun presta séu greidd af ríkinu. Sóknargjöldin standa að öllu leyti undir kostnaði við rekstur þeirra, þ.m.t. laun presta og forstöðumanna. Þarna virðist því vegið að rótum trúfrelsis í landinu þar sem trúfélög sæta í reynd mismunun eftir því hvort þau eru innan eða utan þjóðkirkjunnar. Í þessu sambandi vekur það furðu að meiri hluti allsherjarnefndar virðist gera sér grein fyrir þessu misrétti því hann vekur sérstaka athygli á því í áliti sínu að breytingarnar muni hafa meiri áhrif á trúfélög utan þjóðkirkjunnar en „telur þó að þær séu nauðsynlegar til að áform og markmið fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2002 nái fram að ganga“. Hér er um grundvallaratriði að ræða og ótrúlegt að í landi trúfrelsis skuli þingmenn stjórnarinnar telja verjanlegt að ráðast sérstaklega gegn trúfélögum utan þjóðkirkjunnar. Stjórnarandstaðan mótmælir þessum viðhorfum harðlega.

Skattur á ferðamenn.
    Ríkisstjórnin leggur til að hækkað verði sérstakt gjald sem á að standa straum af vopnaleit á flugvöllum. Orsakir þess má rekja til herts eftirlits á alþjóðavísu í kjölfar hinna hryggilegu voðaverka sem hermdarverkamenn unnu í Bandaríkjunum 11. september sl. Að sönnu er mjög þarft að efla öryggi ferðafólks og þar með eftirlit á flugvöllum. Undir það tekur minni hlutinn heils hugar. Vinnubrögðin við undirbúning málsins eru hins vegar þess eðlis að minni hlutinn getur ekki mælt með þessari breytingu að óbreyttu.
    Í fyrsta lagi liggur alls ekki fyrir sundurliðun á þeim kostnaði sem hækkuninni er ætlað að mæta og því virðist sem stjórnvöld geri sér ekki fulla grein fyrir því til hvaða viðbragða skuli gripið til að efla eftirlitið. Í öðru lagi dylst engum að þessi breyting mun leiða til hækkunar á flugfargjöldum í millilandaflugi sem við núverandi aðstæður er fráleitt fallið til þess að bæta stöðu ferðaþjónustunnar og flugfélaganna sem allir vita að er ákaflega ótrygg um þessar mundir. Minni hlutinn telur að við þessar aðstæður væri réttast að bíða með ákvörðun gjaldsins, uns þróun í ferðaþjónustu og starfsemi flugfélaganna skýrist betur. Þessi niðurstaða er samhljóða áliti minni hluta samgöngunefndar í umsögn nefndarinnar til efnahags- og viðskiptanefndar (sjá fylgiskjal XI).

Niðurstaða.
    Minni hlutinn átelur harðlega þær álögur sem í frumvarpinu birtast og koma einkum fram í auknum sjúklingasköttum og sköttum á námsmenn og bitna þar með á jafnrétti til náms. Þetta eru vanhugsaðar aðgerðir og sérkennilegt innlegg í viðkvæmar viðræður sem nú standa yfir milli aðila vinnumarkaðarins vegna kjarasamninganna sem nú eru í uppnámi vegna óstjórnar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Verðlagsáhrif þessara aðgerða vega þungt og ganga gegn þeirri baráttu sem aðilar vinnumarkaðarins standa nú fyrir til að ná tökum á verðbólgunni og bjarga því sem bjargað verður þrátt fyrir sofandahátt stjórnarflokkanna. Handahófskenndar aðgerðir ríkisstjórnarinnar birtast því glöggt í þessu frumvarpi. Þeim mótmælir minni hlutinn og leggst gegn frumvarpinu.

Alþingi, 11. des. 2001.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Ögmundur Jónasson.




Fylgiskjal I.


Þjóðhagsstofnun:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal II.


Innflutningur bifreiða dregst saman um 45% á milli ára.
Tekjutapi ríkisins mætt með hækkun gjalda.

(Dagblaðið 8. desember 2001.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal III.


Umsögn stúdentaráðs Háskóla Íslands um frumvarp til laga
um ráðstafanir í ríkisfjármálum.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Þorvarður Tjörvi Ólafsson,    Dagný Jónsdóttir,
formaður stúdentaráðs HÍ.    framkvæmdastjóri stúdentaráðs HÍ.
Fylgiskjal IV.



Umsögn Iðnnemasambands Íslands um frumvarp til laga
um ráðstafanir í ríkisfjármálum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Jónína Brynleifsdóttir,
formaður Iðnnemasambands Íslands.

Þórunn Daðadóttir,
framkvæmdastjóri Iðnnemasambands Íslands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal V.


Landssambands eldri borgara:

Breytingar á komugjöldum til sérfræðinga, hámarksgjald
á komu og á afsláttarþökum frá 1. júlí 2001.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal VI.


BSRB:

Kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur margfaldast á árunum 1990–2001.
(Fréttatilkynning 7. desember 2001.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal VII.


Félag framhaldsskólakennara:

Ályktun um fjárveitingar til framhaldsskóla og endurbætt reiknilíkan.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Reykjavík, 12. nóvember 2001,

Félag framhaldsskólakennara,
Elna Katrín Jónsdóttir,
formaður.



Fylgiskjal VIII.


Umsögn minni hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og fer hér á eftir umsögn minni hluta nefndarinnar, Lúðvíks Bergvinssonar.
    Samkvæmt lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, og samningi milli ríkis og kirkju sér ríkissjóður um innheimtu kirkjugarðs- og sóknargjalda. Þessi gjöld eru innheimt með staðgreiðslu opinberra gjalda. Hér er því um að ræða gjöld sem eru hlutfall af tekjuskatti og eðli málsins samkvæmt hækka þau og lækka í samræmi við þróun launa og skattstofns. Sóknargjöld nema nú samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. 566 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári og kirkjugarðsgjöld samkvæmt lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nema 232 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári. Þessar fjárhæðir hefðu að óbreyttu átt að hækka um 9% vegna launabreytinga. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að fjárhæðirnar verði óbreyttar milli ára. Þetta hefur það í för með sér að hækkun kirkjugarðsgjalds verður rúmlega 5 millj. kr., sem skýrist af fólksfjölgun, en hefði orðið 54 millj. kr. milli ára samkvæmt meðfylgjandi gögnum frá Kirkjugarðasambandi Íslands. Sóknargjöld sem eru nú samkvæmt fjárlögum 2001 1.412,0 millj. kr., hækka ekki um þessi 9%. Frumvarpið mun án efa valda trúfélögum utan þjóðkirkjunnar fjárhagsvandræðum þar sem þau hafa hvorki starfsmann launaðan af ríkinu né aðgang að sjóðum tengdum ríki og þjóðkirkju. Þá mun frumvarpið hafa áhrif á ýmis verkefni Háskóla Íslands þar sem hann hefur nýtt það gjald sem til hans hefur runnið til ýmissa verkefna sem skólinn hefur ekki getað fjármagnað með öðrum hætti. Þessar fjárhæðir verða samt sem áður innheimtar í gegnum staðgreiðslu skatta en mismunurinn mun renna í ríkissjóð. Hér er ríkissjóður því að hækka tekjur sínar af staðgreiðslu einstaklinga sem þessum mismun nemur.
    Siðferðilega spurningin sem vaknar við þetta er sú að hér á árum áður, allt til ársins 1988, voru kirkjugarðs- og sóknargjöld innheimt sérstaklega. Með upptöku staðgreiðslu skatta tók ríkissjóður að sér að innheimta þessi gjöld sérstaklega í gegnum skattkerfið. Það má því halda því fram að hlutfall þessara gjalda í staðgreiðslunni hafi aldrei verið ætlað ríkissjóði til ráðstöfunar. Það er í samræmi við samning ríkis og kirkju sem fylgir þessari umsögn, auk laga þar um. Hér er ríkissjóður kominn á mjög hálan ís að mati minni hlutans. Minni hlutinn mælir því gegn samþykkt frumvarpsins.
    Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi er samþykkur umsögn minni hlutans.



Fskj. I.


Dóms- og kirkjumálaráðuneyti,
minnisblað:


Almennar upplýsingar um skiptingu sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda hjá einstökum sóknarnefndum/kirkjugarðsstjórnum.
(5. desember 2001.)


    Borist hafa upplýsingar um ársreikninga tveggja sókna í Reykjavík og tveggja sókna úti á landsbyggðinni.
    Skráning og uppsetning ársreíkninganna eru eftir samræmdum lykli, þannig að samanburður er frekar auðveldur.

Byrjum á því að skoða

1)    Nessókn: Íbúafjöldi um 11.000.
Tekjur - sóknargjöld     43     millj. kr.    Aðrar tekjur 360 þús. kr.
Laun                          15     millj. kr.
                        þar af orgelleikur     1,6     millj. kr.
                        kirkjukór     1,9     millj. kr.
                        söngur + hljóð.l.     1     millj. kr.
                        djákni     188     þús. kr.
                        önnur laun     2,8     millj. kr.
                        kirkjuvarsla     2,3     millj. kr.
                        barna og ungl.starf     4     millj. kr.

Annar kostnaður     17     millj. kr
                        v/starfs aldraðra     300     þús. kr.
                        aðkeypt barnastarf     1,8     millj. kr.
                        v/ barnastarfs     265     þús. kr.
                        námskeið/ nefndir     560     þús. kr.
                        styrkir     1     millj. kr.
                        framlag í héraðssjóð     2,1     millj. kr.
Fjármagnstekjur     7     millj. kr.

2) Langholtssókn: Íbúafjöldi um 5.300.
Tekjur - sóknargjöld     22     millj. kr.     Aðrar tekjur 6.8 millj. kr.
Laun og önnur rekstrargjöld     24     millj. kr.
                        barna/æsku/ferm     700     þús. kr.
                        öldrunarstarf     2,8     millj. kr.
                        fræðslustarf     68     þús. kr.
                        helgihald/tónlist     5,2     millj. kr.
Vextir                      8     millj. kr.

3) Kálfholtssókn: Íbúafjöldi 134.
Tekjur - sóknargjöld     543     þús. kr.
Gjöld                       5,6     millj. kr.
Frkv. á kirkjuhlaði     5     millj. kr.
Vaxtatekjur              416     þús. kr.

Kálfholtskirkjugarður:
Kirkjugarðsgjöld     230     þús. kr.
Útfararkostn.          32     þús. kr.
framlag í kirkjug.sj.     18     þús. kr.
sláttur & hirðing     110     þús. kr.
Frkv. á kirkjuhlaði     298     þús. kr.
Vaxtatekjur              149     þús. kr.

4) Fellsmúlaprestakall: Íbúafjöldi 522
Tekjur - sóknargjöld     3,1     millj. kr.
Gjöld                      2     millj. kr.
                        þar af laun     942     þús. kr.
                        fermingar     45     þús. kr.
                        framlög/ styrkir     97     þús. kr.
                        annað safnaðarstarf     305     þús. kr.
Vaxtatekjur              360     þús. kr.


Fskj. II.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti,
minnisblað:


Kirkjugarðs- og sóknargjöld.
(5. desember 2001.)

    Í fjárlögum fyrir árið 2002 er fyrirhugað að skerða kirkjugarðs- og sóknargjöld með þeim hætti að gjöldin hækka ekki samkvæmt hækkun á meðaltekjuskattsstofni eins og kveðið er á um í lögum en þar segir að ákveðið gjald fyrir hvern einstakling eldri en 16 ára skuli renna til kirkjugarða og sókna. Þessi ráðstöfun þýðir að gjaldið verður það sama í krónum talið á næsta ári eins og á þessu ári. Þó er gert ráð fyrir að framlagið hækki sem nemur áætlaðri fjölgun einstaklinga milli ára en hún er talin vera um 1 % .
    Breyting þessi er sett fram í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og tekur einungis til ársins 2002. Breytingin hefur einnig áhrif á jöfnunarsjóð sókna og kirkjumálasjóð þar sem framlag til þessara sjóða tekur mið af heildarfjárhæð sóknargjalda. Alls er gert ráð fyrir að þetta skili 134 millj. kr. sparnaði, 101 m.kr. vegna sóknargjalda og 33 m.kr. vegna kirkjugarðsgjalda. Hvað varðar sóknargjöld þá snertir þessi lækkun einnig önnur trúfélög en þjóðkirkjuna og Háskóla Íslands. Fjárhæðin skiptist í grófum dráttum með eftirfarandi hætti:
     *      Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar, 70 m.kr.
     *      Sóknargjöld til annarra trúfélaga, 6 m.kr.
     *      Sóknargjöld til Háskóla Íslands, 4 m.kr.
     *      Jöfnunarsjóður sókna, 13 m.kr.
     *      Kirkjumálasjóður, 8 m.kr.
     *      Kirkjugarðar, 30 m.kr.
     *      Kirkjugarðasjóður, 3 m.kr.


Fskj. III.

Umsögn Kirkjugarðasambands Íslands.
(5. desember 2001.)


Um breytingu á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og likbrennslu, með síðari breytingu.
    8. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 124/1997, skal gjald sem rennur til kirkjugarða landsins vera 232 kr. á mánuði árið 2002 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

Greinargerð:
    Samkvæmt gildandi lögum hækkar kirkjugarðsgjald ár hvert miðað við breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári. Þar sem gjaldið hefur mörg undanfarin ár hækkað að fullu sem nemur breytingum á tekjuskattsstofni hefur það hækkað umfram almennar verðlagshækkanir til annarra rekstrarverkefna sem fjármögnuð eru úr ríkissjóði. Hér er lagt til að fjárhæð fyrir hvern einstakling verði óbreytt frá árinu 2001 og verði 232 kr. á mánuði. Rétt er að benda á að framlagið hækkar þó sem nemur áætlaðri fjölgun einstaklinga milli ára en hún er talin verða 1%. Breytingin felur í sér að hækkun framlagsins árið 2002 verður 22 m.kr. í stað 55 m.kr. að óbreyttum lögum.

Hugleiðingar stjórnar Kirkjugarðasambandsins:
    Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru þær, að fólksfjölgun hafi orðið 1% á milli ára á öllu landinu. Þeir sem voru 16 ára og eldri 1. des. 2000 voru: 213.480 og hækkar sú tala í 215.615. Ríkisbókhald hefur greitt samkvæmt þessum fólksfjölda á yfirstandandi ári, enda liggja þær fyrir í desemberhefti Hagtíðinda frá 2000. Ríkisbókhald hefur á yfirstandandi ári greitt samkvæmt fólksfjöldanum 1. des. 2000, þ.e. 213.480. Kirkjugarðsgjaldið á yfirstandandi ári á öllu landinu er því: 213.480*232,12*12 = 594.635.731.
    Forsendur fjárlagafrumvarpsins gera aftur á móti ráð fyrir eldri tölum, þ.e. gömlu fjárlagafrumvarpstölunum 2001 sem eru 13 milljónum lægri en rauntölur yfirstandandi árs (hvers vegna fjármálaráðuneyti kýs að nota fjálagafrumvarpstölurnar fyrir árið 2001 í uppstillingu í desember 2001, þó að Ríkisbókhald hafi notað uppfærða íbúatölu allt árið, hefur KGSÍ ekki hugmynd um).
    Varðandi kirkjugarðsgjaldið eru forsendur fjárlagafrumvarpsins þær, að meðaltekjuskattsstofn hafi hækkað um 9% á milli áranna 2000 og 2001. Gjaldið var á yfirstandandi ári 232 kr. á mánuði á mann. Ef farið er að lögum um hækkun gjaldsins verður það 232*9%=252,88 kr. á mann á mánuði árið 2002.
    Samkvæmt óbreyttum lögum er kirkjugarðsgjaldið reiknað þannig fyrir árið 2002: 215.615*252,88*12 = 654.296.654 milljónir á öllu landinu.
     Mismunur: 54.024.494 milljónir.
    Skýringin með frumvarpinu (hér að ofan) er ekki rétt, vegna þess að 16 ára og eldri 1. desember 2000 voru 213.480 og 1% fjölgun á þá tölu setur 16 ára og eldri í 215.614. Mismunurinn þar á milli er 2.134 sem er fjölgun 16 ára og eldri á milli 1. des. 2000 og 1. des. 2001. Sá fjöldi gefur með óbreyttu gjaldi: 2135*232*12= 5.943.840 milljónir (ekki 22 milljónir!!). Frumvarpsflytjendur gefa í skyn að hækkun vegna fjölgunar sé 22 millj. en sú hækkun er ekki nema 5,9 millj. Þeir segja að skerðingin sé 33 milljónir, en hún er samkvæmt þeirra reikningsaðferð 48 milljónir, ef tekið er tillit til fjölgunar á milli ára. En vitanlega er skerðingin rúmlega 54 milljónir ef ekki er farið að lögum um kirkjugarða.
    Samkvæmt óbreyttu gjaldi, en fjölgun íbúa um 1% á milli áranna 2001 og 2002, reiknast það þannig: 215.615*232*12 = 600.272.160 milljónir og er mismunur á milli þessarar tölu og tekna yfirstandandi árs 5.024.840 kr. ekki 22 millj. kr.

Kirkjumál
    Eftirfarandi fjárlagaliðir teljast til þessa málefnaflokks: 701 Biskup Íslands; 705 Kirkjumálasjóður; 707 Kristnisjóður; 733 Kirkjugarðsgjöld; 735 Sóknargjöld og 736 Jöfnunarsjóður sókna.

Rekstrargrunnur Reikningur
2000
m.kr.
Fjárlög
2001
m.kr.
Frumvarp
2002
m.kr.
Breyting
frá fjárl.
%
Breyting
frá reikn.
%
Þjóðkirkjan 773,4 817,6 888,6 8,7 14,9
Kirkjumálasjóður 131,0 140,9 152,7 8,4 16,6
Kristnisjóður 41,2 44,6 47,7 7,0 15,8
Kirkjugarðsgjöld, hlutur kirkjugarða 494,6 535,0 583,0 9,0 17,9
Kirkjugarðasjóður 53,7 46,0 50,0 8,7 -6,9
Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar 1.159,0 1.248,0 1.353,0 8,4 16,7
Sóknargjöld til annarra trúfélaga 95,8 103,0 118,0 14,6 23,2
Sóknargjöld til Háskóla Íslands 56,2 61,0 0,0 -100,0 -100,0
Jöfnunarsjóður sókna 214,4 231,0 250,0 8,2 16,6
Samtals 3.019,3 3.227,1 3.443,0 6,7 14,0

701 Þjóðkirkjan. Heildarfjárveiting þessa fjárlagaliðar er 888,6 m.kr. á næsta ári. Rekstrargjöld að frádregnum sértekjum eru áætluð 835,7 m.kr. og eru í samræmi við samning ríkis og kirkju sem gerður var á árinu 1998. Útgjöldin eru óbreytt að raungildi að því frátöldu að fellt er niður tímabundið framlag vegna prests í Grafarvogi að fjárhæð 4 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 6.26 Auðunarstofa lækkar um 21 m.kr. og verður 12 m.kr. en fyrirhugað er að ljúka verkinu á næsta ári. Viðfangsefnið 6.27 Rannsóknarstofnun í helgisiðum í Skálholti er fellt niður en veitt var tímabundið framlag til verkefnisins að fjárhæð 8,5 m.kr. í fjárlögum ársins 2001.
733-736 Kirkjugarðsgjöld og sóknargjöld. Fjárveitingar á þessum fjárlagaliðum hækka alls um 145 m.kr. frá fjárlögum 2001 og verða 2.354 m.kr. á næsta ári. Þessi lögboðnu framlög aukast í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri milli tekjuáranna 1999 og 2000. Framlög til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna taka einnig mið af heildarfjárhæð sóknargjalda. Tvær efnislegar breytingar eru gerðar á framlögum á þessum liðum. Annars vegar er fellt niður tímabundið framlag á fjárlagalið 733 Kirkjugarðsgjöld sem ætlað var til skráningar legstaða og söguupplýsinga í eldri kirkjugörðum á Íslandi. Hins vegar er fellt niður viðfangsefnið 1.30 Sóknargjöld til Háskóla Íslands á fjárlagalið 735 Sóknargjöld. Framlagið er nú fært á fjárlagalið Háskóla Íslands hjá menntamálaráðuneytinu.


Fskj. IV.

Umsögn Fríkirkjunnar í Reykjavík.
(10. desember 2001.)


     Athugasemdir vegna frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, gr. 7. um breytingu á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld.
    Víst er að ef ofangreind 7. gr. frumvarpsins nær fram að ganga þá verður það mikið áfall fyrir Fríkirkjuna í Reykjavík og mun valda henni miklum fjárhagsvanda.
    Innheimta ríkissjóðs og skil á sóknargjöldum/trúfélagsgjöldum til trúfélaga er ekki framkvæmd skattlagningar eða einhverskonar „útgjöld ríkisins“, heldur meðferð á fjármunum sem sóknir og trúfélög eiga með réttu.

Varðandi sérstöðu trúfélagsins Fríkirkjan í Reykjavík.
    Fríkirkjan í Reykjavík er sjálfstætt evangelískt lúterskt trúfélag og hefur verið í örum vexti undanfarin 3–4 árin. Um það bil 5.600 manns tilheyra nú trúfélaginu og er það stærst þeirra trúfélaga sem standa utan þjóðkirkjustofnunarinnar. Fjölmargir telja það trúverðugt framtíðar fyrirkomulag trúmála í nútíma samfélagi.
    Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað vegna endurnýjunar kirkjubyggingarinnar og nýir starfsmenn hafa verið ráðnír.
    Trúfélagið Fríkirkjan í Reykjavík hefur ekki starfsmann sem er launaður af ríkinu eins og þjóðkirkjusöfnuðir hafa. Né heldur hefur trúfélagið aðgang að þeim ýmsu digru sjóðum sem liggja á milli ríkis og þjóðkirkjustofnunarinnar þó svo að nákvæmlega sama trúin sé játuð.
    Frikirkjan í Reykjavík hefur heldur ekki komið sér upp eigin tekjustofnum, né enn hafið neina markvissa tekjuöflunarstarfsemi eins og ýmis smærri trúfélögin hafa gert og eru þar af leiðandi ekki eins háð sóknargjöldum.
    Fríkirkjusöfnuðurinn hefur treyst á það innheimtufyrirkomulag þar sem að lögum samkvæmt ríkið innheimtir félagsgjöld fyrir trúfélagið sem annars er frjálst og óháð ríki.
    Af þessu leiðir að Fríkirkjan í Reykjavík mun fara afar illa út úr fyrirhuguðum lagabreytingum, jafnvel verr en þjóðkirkjustofnunin og önnur trúfélög.

Virðingarfyllst,

Hjörtur Magni Jóhannsson,
prestur og forstöðumaður Fríkirkjunnar í Reykjavík.



Fskj. V.

Samningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.



Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi
s a m n i n g
um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað
biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar:


1. gr.


    Samningur þessi er nánari útfærsla á samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, hér eftir nefnt kirkjujarðasamkomulagið, og nær jafnframt til rekstrarkostnaðar þjóðkirkjunnar sem fellur utan þess samkomulags, sbr. 3. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
    Með samningi þessum eru þrjú fylgiskjöl nr. 1, 2 og 3. Um er að ræða skýringar við samning þennan (fskj. nr. 1), yfirlit yfir fjárhæðir samningsins (fskj. 2) og framangreint samkomulag frá 10. janúar 1997 (fskj. nr. 3).

2. gr.


    Úr ríkissjóði skal greitt fjárframlag vegna launa og launatengdra gjalda biskups Íslands, vígslubiskupa og 138 presta og prófasta samkvæmt úrskurðum kjaranefndar, kjaradóms og gildandi lögum og reglum á hverjum tíma.
    Að auki skal árlega gera ráð fyrir fjárframlagi er svarar til launa og launatengdra gjalda í 70 mánuði vegna námsleyfa, veikinda og annarra launaútgjalda umfram greiðslur samkvæmt 1. mgr., þar með talið fæðingarorlof. Þau mánaðarlaun skal miða við meðalheildarlaun sóknarprests samkvæmt líkani sem tilgreint er í 4. mgr. þessarar greinar.
    Fjölgi eða fækki prestum samkvæmt 2. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag, sbr. 1. mgr., breytast sem því nemur. Fyrir hvert prestsembætti, sem þannig fjölgar eða fækkar um, skal fjölga eða fækka mánuðum vegna námsleyfa o.fl., sbr. 2. mgr., um hálfan mánuð.
    Fjárframlag samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. skal áætlað í reiknilíkani sem biskupsstofa hefur umsjón með í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Líkanið skal sundurliða launin niður á embætti og launategundir. Við undirbúning frumvarps til fjárlaga hvers árs skal biskupsstofa endurskoða líkanið til samræmis við síðustu úrskurði kjaranefndar og kjaradóms. Niðurstaða líkansins skal lögð til grundvallar fjárframlagi í frumvarp til fjárlaga hvers árs enda staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti líkanið.
    Ef nýir úrskurðir kjaranefndar og kjaradóms leiða til breytinga á kostnaði samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. sem ekki eru í samræmi við forsendur fjárlaga skal leiðrétta framlögin til samræmis.

3. gr.


    Úr ríkissjóði skal árlega greitt fjárframlag að fjárhæð 89,5 m.kr. til rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta og annars kostnaðar en launa sem tilgreindur er í úrskurðum kjaranefndar. Kirkjuþing setur reglur um greiðslu rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta og skulu þær taka gildi 1. janúar 1999.
    Fjölgi eða fækki prestum, samkvæmt 2. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins, breytist fjárframlag um 0,6 m.kr.
    Samningsfjárhæðir, samkvæmt grein þessari, skulu verðbættar í fjárlögum ár hvert í samræmi við forsendur fjárlaga um hækkun annarra rekstrargjalda en launa.

4. gr.


    Úr ríkissjóði skal árlega greitt framlag að fjárhæð 52,7 m.kr. til greiðslu launa starfsmanna biskupsstofu. Biskupsembættið ákveður fjölda starfsmanna hverju sinni og ráðningarkjör þeirra.
    Fjölgi eða fækki störfum á biskupsstofu samkvæmt 3. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag samkvæmt 1. mgr. breytast um 2,9 m.kr. fyrir hvert starf.
    Samningsfjárhæðir samkvæmt grein þessari skulu hækka í samræmi við meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna samkvæmt mati Hagstofu Íslands. Verði breyting, á þeim sem ekki er í samræmi við forsendur fjárlaga skal framlagið leiðrétt.

5. gr.


    Árlega skal greitt úr ríkissjóði framlag að fjárhæð 30 m.kr. til annars kostnaðar biskupsstofu, vígslubiskupa og biskups Íslands, en að framan greinir. Fjárhæðin tekur til alls rekstrarkostnaðar annars en launa og launatengdra gjalda samkvæmt 2. og 4. gr., m.a. endurnýjunar á tækjum og búnaði, húsnæðiskostnaðar, ferðakostnaðar, risnu og kostnaðar vegna biskupskosninga.
    Fjölgi eða fækki störfum á biskupsstofu samkvæmt 3. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag vegna reksturs breytast um 1,4 m.kr. fyrir hvert starf.
    Samningsfjárhæðir samkvæmt grein þessari skulu verðbættar í fjárlögum ár hvert í samræmi við forsendur fjárlaga um hækkun annarra rekstrargjalda en launa.

6. gr.


    Árlegt framlag í fjárlögum til kristnisjóðs skal svara til 15 fastra árslauna presta í fámennustu prestaköllum samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Auk þess skal árlega greiða úr ríkissjóði til ársloka 2005 sem nemur einum árslaunum samkvæmt 1. mgr.

7. gr.


    Ríkissjóður greiðir samkvæmt fjárlögum ár hvert sérframlög til þjóðkirkjunnar, sem samið er um sérstaklega, lög kveða á um eða Alþingi ákveður. Með sérframlögum er átt við styrki sem ekki falla innan 2.–6. gr. samnings þessa.

8. gr.


    Þjóðkirkjan ber fulla ábyrgð á fjármálum sínum og hagar rekstri eins og þykir best hverju sinni. Í því felst m.a. að þjóðkirkjan fjármagnar án aðstoðar úr ríkissjóði útgjöld sem reynast umfram greiðsluskyldu ríkissjóðs. Framlag úr ríkissjóði er óháð öðrum tekjum sem þjóðkirkjan kann að afla, hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins vegna presta er þjóna erlendis, þjónustugjöldum sjóða til biskupsstofu o.fl.
    Ef kirkjan fjölgar eða fækkar prestum umfram það sem tilgreint er í 1. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins hefur það ekki áhrif á greiðsluskyldu ríkissjóðs samkvæmt samningi þessum. Eins getur kirkjan fjölgað eða fækkað öðru starfsliði, breytt launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði án þess að það hafi áhrif á framlag úr ríkissjóði.

9. gr.


    Hækka skal framlag í fjáraukalögum 1998 til fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands alls um 70,3 m.kr. Af þeirri fjárhæð eru 27,3 m.kr. vegna uppsafnaðs halla fyrri ára. Hækka skal framlag til kristnisjóðs í fjáraukalögum 1998 um 5,2 m.kr.
    Heildarframlag til fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands árið 1999 skal vera 655,2 m.kr. Á árinu 2000 lækkar framlag um 8,1 m.kr. Framlag til fjárlagaliðar kristnisjóðs árið 1999 skal vera 36,4 m.kr. Í fjárlögum ársins 2006 lækkar framlag um sem nemur einum árslaunum prests, sbr. 6. gr.
    Framlag samkvæmt 1. mgr. er á verðlagi fjárlaga 1998. Aðrar fjárhæðir samnings þessa eru á verðlagi frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1999.

10. gr.


    Samningsaðilar skulu í upphafi hvers árs sammælast um greiðsluáætlun fyrir einstaka mánuði innan þess fjárhagsramma sem fjárlög ársins setja á fjárlagalið þjóðkirkju Íslands. Laun til biskups Íslands, vígslubiskupa, presta, prófasta og starfsmanna biskupsstofu skulu greidd úr ríkissjóði til viðkomandi einstaklinga án atbeina biskupsstofu. Mánaðarlegt framlag til annars kostnaðar samkvæmt 3. og 5. gr. skal vera mismunur á heildarframlagi viðkomandi mánaðar og þeirra launa sem greidd hafa verið í þeim mánuði. Framlagið skal greiðast til biskupsstofu.

11. gr.


    Samningsaðilar geta óskað eftir endurskoðun á samningi þessum ef grundvallarbreyting verður á úrskurðum kjaradóms og/eða kjaranefndar og vegna verulegra breytinga á öðrum forsendum samningsins.
    Verði verulegar vanefndir á skyldum af hálfu annars hvors samningsaðila getur hinn sagt samningi þessum upp. Tekur uppsögnin gildi frá og með næstu áramótum eftir að hún er tilkynnt.
    Rísi ágreiningur um framkvæmd samnings þessa skal honum vísað til þriggja manna nefndar sem gera skal út um ágreininginn. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af biskupi Íslands, einn sameiginlega af dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra og oddamaður skal tilnefndur af Hæstarétti Íslands. Kostnaður sem hlýst af starfi nefndarinnar skal að hálfu greiddur úr ríkissjóði og að hálfu af þjóðkirkjunni.

12. gr.


    Dóms- og kirkjumálaráðherra mun á haustþingi 1998 leggja fram frumvarp til laga á Alþingi er felur í sér brottfall 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra mun 31. desember 1998 fella úr gildi reglur um greiðslu embættiskostnaðar presta og prófasta settar 15. júní 1989, með síðari breytingum.

13. gr.


    Samningur þessi gildir frá 1. janúar 1999. Hann er gerður með fyrirvara um samþykki kirkjuþings og samþykki Alþingis á fjárframlögum.

Reykjavík, 4. september 1998



Karl Sigurbjörnsson,    Þorsteinn Pálsson,    Geir H. Haarde,
biskup Íslands    dóms- og kirkjumálaráðherra    fjármálaráðherra


Fylgiskjal nr. 1.


Skýringar við einstakar greinar samningsins:


Um 1. gr.


    Samningur þessi tengist samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, fskj. 3 um eignaafhendingu á móti skuldbindingu með fyrirvara um fækkun eða fjölgun á skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar miðað við þjóðskrá 1. desember 1996, sem var 244.060.

Um 2. gr.


    Til viðbótar við framlag til launa og annars kostnaðar til samræmis við kirkjujarðasamkomulagið skal greitt framlag sem nemur 70 mánaðarlaunum til námsleyfa, veikinda o.fl. en það samsvarar um hálfum mánuði fyrir hvert prestsembætti.
    Með staðfestingu ráðuneyta á launalíkani er átt við að samþykktar verði breytingar á talnaforsendum og gerð embætta. Núverandi skipting á 138 embættum er 16 prófastar, 112 sóknarprestar, 4 héraðsprestar og 6 sérþjónustuprestar.

Um 3. gr.


    Til rekstrarkostnaðar embætta telst allur embættiskostnaður þar með talinn aksturskostnaður, svo og allur kostnaður vegna sérþjónustupresta að frátöldum almennum prestslaunum, sbr. 2. gr.
    Kveðið er á um annan kostnað en laun og launatengd gjöld presta í úrskurði kjaranefndar. Samkvæmt úrskurði hennar frá 13. febrúar 1998 gilda reglur kjaranefndar dagsettar 16. desember 1997, en í 4. lið III. kafla þess úrskurðar segir: Um greiðslur til búferlaflutninga og vegna starfa í þremur fastanefndum kirkjunnar skulu gilda óbreytt ákvæði síðasta kjarasamnings. Kostnaður þessi telst hluti af framlagi samkvæmt 3. gr. samnings þessa en er ekki áætlaður í reiknilíkani samkvæmt 2. gr.
    Að því er varðar 2. mgr. 3. gr. samningsins er miðað við meðaltalstölur þannig að deilt er í heildarfjárhæð með 138.

Um 4. gr.


    Fjárhæðin nemur launum og launatengdum gjöldum 18 starfsmanna biskupsstofu samkvæmt 2. gr. kirkjujarðasamkomulagsins.
    Að því er varðar 2. mgr. 4. gr. er miðað við meðaltalstölur þannig að deilt er í heildarfjárhæð með 18.

Um 5. gr.


    Að því er varðar 2. mgr. 5. gr. er miðað við meðaltalstölur þannig að deilt er í heildarfjárhæð með 21 (18 starfsmenn biskupsstofu, biskup Íslands og tveir vígslubiskupar).

Um 6. gr.


    Viðmiðun um 15 föst árslaun presta tekur mið af b. lið 20. gr. laga nr. 35/1970, um kristnisjóð o.fl. sem felldur var niður með lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en kirkjujarðasamkomulagið gerði ekki ráð fyrir að framangreindur b. liður félli niður. Ákvæðið var svohljóðandi: „Tekjur kristnisjóðs skulu vera Árlegt framlag úr ríkissjóði, er samsvari hámarkslaunum presta í þeim prestaköllum, sem lögð eru niður samkvæmt lögum þessum“. Tekið er mið af árslaunum prests í fámennustu prestaköllum, þ.e. mánaðarlaun með 5% álagi ásamt einingum, sbr. úrskurð kjaranefndar frá 13. febrúar 1998. Nema þau árslaun nú um 2,2 m.kr.
    Samkvæmt 2. mgr. 62. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, skal næstu 8 ár frá samþykkt laganna greiða sem nemur einum árslaunum sóknarprests. Því er heildarviðmiðun 16 árslaun. Framlag þetta fellur niður í árslok 2005.

Um 7. gr.


    Átt er við styrki samkvæmt ákvörðun Alþingis, samningsbundnar og lögboðnar greiðslur, ss. greiðslur til Skálholtsstaðar, Hallgrímskirkju, Hóladómkirkju, Kirkjumiðstöðvar Austurlands, Löngumýrar í Skagafirði og Skálholtsskóla. Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar- og kirkjugarðsgjöld fyrir þjóðkirkju Íslands og innir af hendi lögbundnar greiðslur í kirkjumálasjóð, jöfnunarsjóð sókna og kirkjugarðasjóð.
    Ekki er gert ráð fyrir verðlagshækkun fjárframlaga samkvæmt þessari grein. Tekið er mið af almennum venjum við gerð og meðferð fjárlaga en við undirbúning frumvarps til fjárlaga hefur það ekki tíðkast að verðlagsbæta styrkjaliði heldur er tekin ákvörðun hverju sinni um styrkfjárhæð. Taki liður hækkun samkvæmt lögum eða samningi þar um, sbr. 7. gr., hækkar fjárframlag til samræmis við það.

Um 8. gr.


    Niðurstaða þessa samnings er ákveðin fjárhæð fyrir hvert ár. Ef tekjur eða gjöld breytast á fjárlagalið þjóðkirkjunnar þarf að breyta samsvarandi þannig að greiðsla úr ríkissjóði standi óbreytt.

Um 9. gr.


    Með orðunum „fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands“ er átt við viðfangsefnið 1.01 Þjóðkirkja Íslands á fjárlagalið 06-701 Biskup Íslands, eða sambærilegan lið, verði breyting á framsetningu fjárlaga frá frumvarpi til fjárlaga 1999.
    Í fjárlögum 1998 var veitt tímabundið framlag til prestsembættis í Grafarvogsprestakalli. Dóms - og kirkjumálaráðherra skipaði prestinn til tveggja ára frá 1. september 1997 og er því gert ráð fyrir framlagi á árinu 1999 sem svarar til 8 mánaða launa. Framlagið fellur niður í fjárlögum ársins 2000.
    Í fjárlögum árið 2000 fellur niður tímabundið framlag til embættis sérþjónustuprests er þjónar meðal Íslendinga búsettra á meginlandi Evrópu.

Um 10. gr.


    Með orðunum „fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands“ er átt við viðfangsefnið 1.01 Þjóðkirkja Íslands á fjárlagalið 06-701 Biskup Íslands, eða sambærilegan lið, verði breyting á framsetningu fjárlaga frá frumvarpi til fjárlaga 1999.

Um 11. gr.


    Hér er einungis átt við meiri háttar breytingar, s.s. meiri háttar breytingar á efnisatriðum úrskurða kjaranefndar, dagsett 3. febrúar 1998, og úrskurða kjaradóms, dagsett 17. desember 1997.

Um 12. gr.


    Lagaákvæði er svohljóðandi: Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum biskups, fyrirfram til 5 ára í senn, embættiskostnað hvers prestakalls. Upphæðin greiðist síðan prestinum mánaðarlega á sama hátt og embættislaun.

13. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal nr. 2.


Grein Kostnaðarliður Frumvarp
til fjárlaga
1999
Verðlag 1998
Frumvarp
til fjárlaga
1999 1)
Verðlag 1999
Frumvarp
til fjárlaga
2000
Verðlag 1999
2. gr. Laun samkvæmt kirkjujarðasamkomulagi 461,5 477,7 477,7
Grafarvogsprestur 2,4 2,5 0,0
Evrópuprestur 5,4 5,6 0,0
3. gr. Rekstrarkostnaður prestsembætta og prófasta 87,7 89,5 89,5
4.gr. Launakostnaður biskupsstofu 50,9 52,7 52,7
5. gr. Annar rekstrarkostnaður biskupsstofu 29,4 30,0 30,0
7. gr. Styrkjaliðir 23,7 23,7 23,7
8. gr. Sértekjur -26,3 -26,3 -26,3
Alls 634,7 655,2 647,2
6. gr. Framlag til Kristnisjóðs 35,2 36,4 36,4
Samtals, framlag úr ríkissjóði 669,9 691,7 683,6
Frumvarp til fjáraukalaga 1998
2. gr. Laun samkvæmt kirkjujarðasamkomulagi 2) 33,0
3. gr. Rekstrarkostnaður prestsembætta og prófasta 6,0
5. gr. Annar rekstrarkostnaður biskupsstofu 4,0
6. gr. Framlag til Kristnisjóðs 5,2
Hækkun frá fjárlögum 1998 48,2
Halli frá fyrri árum 27,3
SAMTALS 75,5
1) Hækkun frá verðlagi 1998 til verðlags 1999 er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga og er þá miðað við að kjaranefnd og kjaradómur muni úrskurða sömu hækkun launa í upphafi árs 1999 og almennt er kveðið á um í kjarasamningum.
2) Alls hækkar framlag skv. 2. gr. um 33 m.kr. frá fjárlögum 1998. Af þeirri fjárhæð verður aflað 10,8 m.kr. viðbótarheimildar í frumvarpi til fjáraukalaga 1998 en 22,2 m.kr. verða fluttar af launa- og verðlagsmálalið fjármálaráðuneytis á árinu 1998.

Fylgiskjal nr. 3.


Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir
í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997.


    Mættir eru af hálfu ríkisins Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson og Stefán Eiríksson. Af hálfu kirkjunnar eru mættir Þorbjörn Hlynur Árnason, Þórir Stephensen og Halldór Gunnarsson.
    Þorsteinn Geirsson setti fundinn. Fyrir fundinum liggja eftirfarandi drög að samkomulagi:

Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi
samkomulag
um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar:


1. gr.


    Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð. Umsýsla og ráðstöfun umræddra eigna fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

2. gr.


    Íslenska ríkið skuldbindur sig til þess, á þeim grundvelli sem að framan greinir, að greiða laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Þá skuldbindur ríkið sig til að setja reglur um umgengni á kirkjustöðum.

3. gr.


     1.      Ríkissjóður greiði laun:
                  a.      Biskups Íslands og vígslubiskupa.
                  b.      138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar.
                  c.      18 starfsmanna biskupsembættisins.
     2.      Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 prests til viðbótar því sem greinir í b-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 lækkar talan í b-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.
     3.      Fjölgi prestum um 10, sbr. það sem greinir í 1. mgr., skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 starfsmanns biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í c-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um 10, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar talan í c-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.
     4.      Um ráðningar þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.
     5.      Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.
     6.      Greiðslur til kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu 8 ár, upphæð er svarar til fastra árslauna 1 sóknarprests.

4. gr.


    Aðilar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907. Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagsins að liðnum 15 árum frá undirritun þess.

5. gr.


    Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Kirkjuþings, svo og samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

    Til skýringar vilja fundarmenn taka fram að með kirkjujörðum er í samkomulagi þessu átt við jarðeignir sem kirkjur hafa átt og eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild eða gengið undan þeim með öðrum sambærilegum hætti, og hafa verið í umsjón ríkisins frá árinu 1907, sbr. lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, og lög nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða, og Álitsgerð kirkjueignanefndar 1984. Með orðalaginu „og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja“ er m.a. átt við kirknaítök, réttindi á afréttum o.fl. sem fylgir og fylgja ber umræddum jörðum í hverju tilviki.

    Undir þetta samkomulag falla ekki eftirtaldar jarðeignir:
     a.      Klausturjarðir: Fram kemur í álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 að ekki verði séð að íslenska kirkjan eigi nú neina lagalega kröfu til klausturjarðanna. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið klausturjarðir.
     b.      Stólsjarðir: Umræddar jarðir voru seldar kringum aldamótin 1800. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið stólsjarðir.
     c.      Prestssetur: Eins og tekið er fram í samkomulaginu þá falla prestssetrin og það sem þeim fylgir ekki undir þetta samkomulag. Prestssetrasjóður hefur á höndum umsjón og umsýslu umræddra jarða, sbr. lög nr. 137/1993, um prestssetur. Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar fjalli síðar um eignarréttarstöðu prestssetranna.
     d.      Kristfjárjarðir og fátækrajarðir: Eignarréttarstöðu jarða sem falla undir þessa skilgreiningu er ekki á einn veg háttað. Þær eignir sem eru í eigu eða umsjá sveitarfélaga falla ekki undir þetta samkomulag. Aðrar kirkjujarðir sem eru með kristfjárkvöðum eða fátækrakvöðum falla undir samkomulagið, en með þeim formerkjum þó að sannanlegar kristfjár- eða fátækrakvaðir sem á þeim hvíla halda gildi sínu. Hreinar kristfjár- eða fátækrajarðir falla ekki undir þetta samkomulag.

    Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar starfi áfram og fjalli sameiginlega um eignar- og réttarstöðu þjóðkirkjunnar í heild sinni.
    Í samkomulaginu er fyrirvari um samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings, svo og Alþingis, á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Frumvarpið og samkomulag þetta verður lagt fyrir ríkisstjórn 14. janúar n.k. og fyrir kirkjuþing sem hefst 21. janúar n.k. Í frumvarpinu eru ákvæði sem tryggja efnisatriði þessa samkomulags. Kirkjumálaráðherra gerir ráð fyrir að leggja frumvarpið fram á Alþingi á yfirstandandi þingi, að fengnu samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings á þessu samkomulagi.
    Fundarmenn eru sammála um framangreind drög, og rita nöfn sín því til staðfestingar undir fundargerð þessa.

Reykjavík, 10. jan. 1997.



Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson, Stefán Eiríksson, Þorbjörn Hlynur Árnason, Halldór Gunnarsson og Þórir Stephensen.



Fylgiskjal IX.


Umsögn minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 8. desember, fjallað um 9. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 348. mál, og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Dagnýju Brynjólfsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Sigurð Guðmundsson, Hauk Valdimarsson og Vilborgu Ingólfsdóttur frá landlæknisembættinu.
    Í greininni er lagt til að 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúkraheimili eða sjúkrahótel eru felld undir skilgreiningu á sjúkrahúsi, verði felldur brott.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og fer hér á eftir umsögn minni hluta nefndarinnar. Að áliti minni hlutans standa Ásta R. Jóhannesdóttir og Þuríður Backman.
    Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er lögð til sú breyting að sjúkrahótel/ heimili verði ekki lengur skilgreind sem sjúkrahús. Þar með sé heimilt að innheimta gjald fyrir dvöl þar. Hið opinbera greiðir fyrir 28 pláss á sjúkrahóteli RKÍ, daggjald sem nemur 4.407 kr. fyrir hvern sjúkling. Stjórnvöld hófu gjaldtöku á sjúkrahóteli RKÍ um síðustu áramót, þ.e. í janúar 2001, sem nam 700 kr. á dag fyrir sjúkling og sömu upphæð ef viðurkenndur fylgdarmaður dvaldi með sjúklingi á herbergi. Þessari gjaldtöku var hætt í október sl. þar sem ekki var fyrir henni stoð í lögum.
    Í 24. gr. laganna er skilgreind flokkun sjúkrahúsa eftir tegund og þjónustu og í 8. tölul. eru sjúkraheimili skilgreind sem dvalarstaður sjúklinga sem eru til rannsóknar eða meðferðar á heilbrigðisstofnunum og geta eigi dvalist í heimahúsum.
    Þær stofnanir sem flokkast undir sjúkrahús mega ekki innheimta sérstakt gjald af sjúklingum.
    Um sjúkrahús segir í 23. gr. laganna: „Sjúkrahús eru í lögum þessum hver sú stofnun sem ætluð er sjúku fólki til vistunar og þar sem læknishjálp, hjúkrun og allur aðbúnaður er í samræmi við það sem þessi lög og reglugerðir þar að lútandi krefjast.“ Þessi skilgreining er víð og nær í dag yfir fjölbreytta starfsemi. Sú starfsemi sem ekki flokkast undir svæðissjúkrahús, deildarsjúkrahús eða almenn sjúkrahús á það sameiginlegt að draga mjög úr álagi á sérhæfðustu og dýrustu heilbrigðisþjónustu landsins.
    Mikilvægi sjúkraheimila/hótela eykst samfara aukinni meðferð og eftirfylgni margra erfiðra sjúkdóma á göngudeildum í stað innlagnar á sjúkrahús. Þessi þróun er jákvæð fyrir starfsemi sjúkrahúsanna og ríkissjóð, en hefur að sama skapi þýtt stóraukin útgjöld fyrir sjúklingana auk oft á tíðum aukins líkamlegs og andlegs álags.
    Heilbrigðisástand þeirra sjúklinga sem dvelja á sjúkrahóteli/heimilum er af þessum sökum verra nú en fyrir fáum árum. Þessari þróun hefur verið svarað með því að koma á fastri þjónustu hjúkrunarfræðinga við sjúkrahótel RKÍ og bakvakt er frá Landspítala um kvöld og nætur. Á sjúkrahóteli RKÍ fer því fram heilbrigðisþjónusta. Þessi þjónusta veitir mjög mikilvæga samfellu og öryggi í meðferð sjúklinganna.
    Hér eru því greinilega nýjar og auknar álögur á sjúklinga og á það ekki síst við um þá sem búa fjarri þjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem gjaldið bætist við umtalsvert hærri kostnað sjúklinga á landsbyggðinni og eykur enn á ójöfnuð. Þetta bitnar einnig á öldruðum á höfuðborgarsvæðinu sem eru útskrifaðir snemma af sjúkrahúsi og geta ekki dvalið einir heima hjá sér.
    Í meðferð heilbrigðis- og trygginganefndar kom fram að á sjúkrahótelinu fer fram heilbrigðisþjónusta, þar starfar hjúkrunarfræðingur og bakvakt er frá Landspítala um kvöld og nætur. Landlæknir sagðist aðspurður vera andvígur breytingunni á skilgreiningunni og taldi hana varhugaverða. Hjá fulltrúum landlæknisembættisins kom einnig fram að mun meiri þörf væri fyrir fleiri pláss. Allt að 50 pláss væru í notkun sem sjúkrahótel átta mánuði á ári og RKÍ greiddi fyrir þau sem eru umfram 28.
    Minni hlutinn telur óeðlilegt að taka sjúkrahótel undan sjúkrahússkilgreiningunni og mótmælir harðlega auknum gjaldtökum á sjúklinga. Margir sjúklingar dvelja á sjúkrahóteli í 3–4 mánuði, svo sem krabbameinssjúklingar, en ríkisstjórnin hefur aukið álögur á þá verulega. Göngudeildarþjónusta hefur hækkað mjög í verði og getur gjaldið verið yfir 18 þús. kr. fyrir komu og þúsundir fyrir næstu heimsóknir eins og dæmin sanna.
    Hámarksgreiðsla áður en kemur að afsláttarkorti hækkaði um 50% í sumar og ýmis gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu hækkuðu einnig þá og nú enn meira með nýsamþykktum fjárlögum.
    Með sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar á einnig að taka 6.000 kr. hámarkið af sérfræðilæknishjálpinni og ferliverkunum sem mun hafa það í för með sér að greiðsla sjúklinga fyrir þau verk mun hækka um mörg hundruð prósent. Samkvæmt dæmi frá Tryggingastofnun ríkisins mun sjúklingur sem greiðir nú 6.000 kr. fyrir algenga bæklunaraðgerð á hné mun greiða 21.552–28.164 kr. eftir breytingu og æðahnútaaðgerð sem nú kostar 6.000 kr. mun kosta yfir 20.000 kr. svo algengar aðgerðir séu teknar sem dæmi.
    Einnig er áformað að hækka hlut sjúklinga í lyfjum um 200 millj. kr. Þjónustu sjúkrahótela ætti að auka til muna, hafa þennan ódýra valkost sem hluta heilbrigðisþjónustunnar en koma starfsemi þeirra í fastara form en er í dag.
    Fjárhagsvanda Landspítala – háskólasjúkrahúss þarf að leysa með öðrum hætti.
    Minni hlutinn mótmælir því að sjúklingar séu látnir greiða upp í tekjuafgang fjárlaga fyrir árið 2002 á þennan hátt og leggjast gegn þessari lagabreytingu.



Fylgiskjal X.


Umsögn minni hluta menntamálanefndar.


    Menntamálanefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 8. desember, fjallað um 1.–5. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2002, 348. mál.
    Nefndin fékk á sinn fund Örlyg Geirsson frá menntamálaráðuneyti, Leif Eysteinsson frá fjármálaráðuneyti, Sölva Sveinsson frá Félagi íslenskra framhaldsskóla, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Þorvarð Tjörva Ólafsson og Dagnýju Jónsdóttur frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Rósu Árnadóttur frá nemendaráði Kennaraháskóla Íslands og Harald Helgason frá Þjóðminjasafni Íslands.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og fer hér á eftir umsögn minni hluta nefndarinnar sem leggst gegn 1.–5. gr. frumvarpsins. Að áliti minni hlutans standa Einar Már Sigurðarson, Sigríður Jóhannesdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.
    Í 1. gr., um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 335 millj. kr. renni í ríkissjóð á árinu 2002 í stað 385 millj. kr. eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
    Hér er gerð tillaga um aukna skerðingu sem m.a. mun valda niðurskurði á framlagi til Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands um 15 millj. kr. Í því sambandi vill minni hlutinn taka fram eftirfarandi: Í Húsasafninu eru varðveittar margar mikilvægustu byggingar þjóðarinnar og er þar í mörgum tilfellum um að ræða torfbæi sem þurfa stöðugt viðhald og tafarlausar úrbætur ef torf- eða steinhleðslur skaddast. Þjóðminjasafnið hefur gert munnlegt samkomulag við torf- og steinhleðslumenn víða um landið til að sinna brýnum viðhalds- og endurbótaverkefnum á húsakosti safnsins. Komi ekki til þessara verkefna er hætt við að þessir menn, sem oft eru einir um að kunna viðkomandi handverk í byggðarlaginu, flosni upp og hætti störfum. Nógu erfitt hefur þeim reynst að sjá sér fyrir verkefnum í heimabyggð yfir vetrartímann meðan ekki er hægt að vinna við endurbætur gamalla torfbæja. Hér er því um atlögu við handverksmenn að ræða og gjörning sem enn rýrir möguleika fólks á að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þegar fyrirætlanir af þessu tagi eru skoðaðar ofan í kjölinn verður allt tal um nauðsyn þess að viðhalda fjölbreyttu atvinnulífi á landsbyggðinni æði hjáróma. Sem dæmi um það hversu illa þessi niðurskurður bitnar á einstökum húsum má nefna torfbæina að Glaumbæ, Laufási og Grenjaðarstað. Gert hefur verið ráð fyrir endurbótum á þessum bæjum öllum á næsta ári sem kosta mundu 8 millj. kr. fyrir hvern bæ. Lækkun á framlagi til safnsins úr 65 millj. kr. í 50 getur því kostað það að einungis verði hægt að sinna einu af þessum þremur verkefnum. Í Húsasafni Þjóðminjasafnsins eru nú 40 hús sem öll þurfa umtalsvert viðhald auk þess sem menn eru í miðjum klíðum við endurbyggingu sumra þeirra. Allar áætlanir safnsins munu riðlast við niðurskurð af því tagi sem hér er lagður til. Það að koma áformum safnsins í slíkt uppnám hlýtur að teljast ámælisvert, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið um nauðsyn þess að efla menningartengda ferðamennsku um land allt. Þá verður að leggja áherslu á nauðsyn þess að eyða óvissu sem ríkir um framtíðarfjármögnun endurbóta menningarbygginga þar sem ákveðið hefur verið að fella niður tekjustofn Endurbótasjóðsins að ári.
    Í 2. gr. eru lagðar til breytingar á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, sem varða hækkun á innritunar- og efnisgjöldum. Í meðförum nefndarinnar kom m.a. fram að þau gjöld sem hér er gerð tillaga um að hækki eru aðeins hluti þeirra gjalda sem nemendur í framhaldsskólum þurfa að greiða. Vegna þröngrar fjárhagsstöðu framhaldsskólanna hafa skólarnir leitað margra leiða til að auka tekjur sínar og hafa nemendur skólanna fengið að kynnast ýmsum tegundum gjalda af þeim sökum. Lítið samræmi virðist vera milli skólanna í þessum gjaldtökum og er erfitt að fá heildaryfirlit yfir gjaldtökuna. Sú spurning hlýtur að vakna hvort gætt sé jafnræðis milli nemenda í framhaldsskólum hvað þessar gjaldtökur varðar. Sú gjaldtaka sem hér er gerð tillaga um kemur því til viðbótar ýmsum öðrum gjöldum og þeim almennu hækkunum sem m.a. hafa átt sér stað að undanförnu á námsbókum. Þá ert ljóst að 100% hækkun efnisgjalda fer ekki saman við fögur orð um eflingu verknáms heldur mun miklu frekar gera nemendum erfiðar að stunda það nám sem hugur þeirra stendur til. Með tillögunum er því gengið gegn markmiðinu um jafnrétti til náms.
    Í 3.–5. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997, um Háskólann á Akureyri, nr. 40/1999, og um Háskóla Íslands, nr. 41/1999. Allar breytingarnar varða hækkun á innritunargjöldum úr 25.000 kr. í 32.500 kr. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 var boðuð hækkun á þessum gjöldum í 35 þús. kr. eða um 40 %. Var þessi hækkun rökstudd með tilliti til verðlagshækkana frá 1991 sem ekki stenst nein rök. Árið 1995 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að upphæð gjaldsins, eins og það var ákvarðað með lögum, hafi ekki verið byggð á lögmætum sjónarmiðum þar sem upphæðin var byggð á sjónarmiðum um öflun tekna til greiðslu almenns rekstrarkostnaðar skólanna en ekki á útreikningum á þeim kostnaði sem gjaldið átti að standa undir. Til að mæta áliti umboðsmanns var lögum breytt 1996 og gjaldið þá hækkað í 24 þús. kr. Sú upphæð var þó ekki grundvölluð á nákvæmri úttekt á kostnaði heldur með því að framreikna upphæðina frá l992–3. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 er sagt að gjaldið eigi að standa undir 5,5% af kennsluútgjöldum samkvæmt kennslulíkani. Mjög margir hafa orðið til að mótmæla þessari túlkun, einkum þar sem ný lög um háskóla á Íslandi hafa verið sett á árunum l997–1999 og þar er að finna heimild fyrir innritunargjöldum sem aðeins eiga að standa undir kostnaði við innritun og á ljósrituðu efni. Engin rök eru fyrir því að raunhækkun á þeim kostnaði hafi numið 40% á þessu tímabili og má raunar færa rök fyrir því að slíkur kostnaður hafi jafnvel lækkað með aukinni notkun fjarskiptatækni þar sem nemendum er vísað á slíkt efni inni á heimasíðum sem þeir síðan prenta eða ljósrita á eigin kostnað.
    Í fjárlögum fyrir árið 2002 sem nú hafa verið afgreidd og í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hér er fjallað um er gert ráð fyrir að innritunargjöld í háskóla hækki í 32.500 kr. Minni hlutinn mótmælir að til þessara ráðstafana sé gripið „til að mæta sparnaðaráformum ríkisstjórnarinnar“ eins og það er orðað í frumvarpi til fjárlaga.
    Minni hlutinn ítrekar að með því að auka álögur á stúdenta á sama tíma og námsmöguleikum þeirra er ógnað með verulegum verðhækkunum, t.d. á námsbókum, húsaleigu og matvælum, er ógnað þeirri þjóðarsátt sem hingað til hefur verið um að standa vörð um jafnrétti til náms. Það eru ákveðnir hópar stúdenta sem standa verr að vígi en aðrir í slíkum hamförum, svo sem barnafólk og fólk af landsbyggðinni, en talið er að 30–40% þess hóps hafi hraktist frá námi í kjölfar breytinga á lögum um LÍN 1992. Slíkt má ekki endurtaka sig.



Fylgiskjal XI.


Umsögn samgöngunefndar.


    Samgöngunefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 8. desember, fjallað um 11. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 348. mál, og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu.
    Í 11. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 71. gr. b. laga um loftferðir. Lögð er til hækkun á sérstöku gjaldi til að standa straum af kostnaði við vopnaleit á flugvöllum. Lagt er til að gjald fyrir 12 ára og yngri hækki úr 65 kr. í 150 kr. og gjald fyrir hvern farþega 12 ára og eldri hækki úr 125 kr. í 300 kr. Orsaka þessara breytinga má rekja til hækkunar á kostnaði vegna vopnaleitar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl.
    Meiri hluti nefndarinnar, en hann skipa Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir, leggur til að 11. gr. frumvarpsins verði samþykkt óbreytt.
    Minni hluti nefndarinnar, Lúðvík Bergvinsson, Kristján Möller og Jón Bjarnason, gerir nokkrar athugasemdir við fyrirhugaða breytingu. Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir sundurliðun á þeim kostnaði sem þessari hækkun gjalda er ætlað að mæta og telur minni hlutinn ófært að taka afstöðu til hennar undir þeim kringumstæðum. Í öðru lagi er ljóst að þessi breyting mun hafa í för með sér hækkun á flugfargjöldum í millilandaflugi sem er ekki til þess fallið að bæta stöðu aðila í ferðaþjónustu og flugfélaganna sem er bág um þessar mundir. Í þriðja lagi telur minni hlutinn að þetta sé enn eitt dæmið um auknar álögur á flugsamgöngur innan lands sem utan. Með hliðsjón af framangreindu getur minni hlutinn ekki mælt með þessari breytingu.



Fylgiskjal XII.


Umsögn sjávarútvegsnefndar.


    Sjávarútvegsnefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 8. desember sl. fjallað um 6. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 348. mál.
    Nefndin fékk á sinn fund Arndísi Á. Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Gylfa Ástbjartsson frá Fiskistofu, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Í samræmi við endurskoðuð afkomumarkmið ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 er með frumvarpi þessu lagt til að gjald á úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla metið til þorskígilda í tonnum hækki úr 462 kr. í 593 kr. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur Fiskistofu af gjaldinu á heilu fiskveiðiári hækki um 50 millj. kr. vegna þessarar breytingar og standi að fullu undir kostnaði við veiðieftirlit. Gjaldið mun falla á útgerðina fyrir veiðiheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári sem enn hefur ekki verið úthlutað en kemur að fullu til framkvæmda frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. september 2002 og verður innheimt 1. desember sama ár.
    Nefndin mælir með að 6. gr. frumvarpsins verði samþykkt. Svanfríður Jónasdóttir og Jóhann Ársælsson gera þó fyrirvara af sinni hálfu. Guðjón A. Kristjánsson vill láta þess getið að hann stendur ekki að umsögn þessari.