Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 646  —  390. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2001.

1.    Inngangur.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og er hlutverk þess að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 142 þing en aukaaðilar að sambandinu eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök. IPU fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á samstarf við þá stofnun, og hefur samstarfið aukist á undanförnum árum. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en það hefur jafnframt skrifstofu í New York.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins er fjármögnuð með framlögum frá aðildarþingum þess. Þing IPU, sem hafa verið haldin tvisvar á ári, taka pólitískar ákvarðanir og álykta um alþjóðamál. Ráð IPU, sem í eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri landsdeild, markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Tólf manna framkvæmdastjórn starfar á milli þinga og hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.
    Fjórar fastanefndir eru starfandi innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     I.      nefnd um stjórnmál, öryggis- og afvopnunarmál,
     II.      nefnd um lagaleg málefni og mannréttindamál,
     III.      nefnd um efnahags- og félagsmál,
     IV.      nefnd um mennta-, vísinda-, menningar- og umhverfismál.
    Til viðbótar eru nú starfandi eftirfarandi nefndir og vinnuhópar: nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um sjálfbæra þróun, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, samhæfingarnefnd um öryggismál og samstarf á Miðjarðarhafssvæðinu, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU, vinnuhópur um samstarf kynjanna og stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna IPU.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu IPU, www.ipu.org.
    
2.    Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeildin var skipuð þeim Einari K. Guðfinnssyni, þingflokki sjálfstæðismanna, formanni, Jóhönnu Sigurðardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformanni, og Ástu Möller, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn Íslandsdeildar voru Guðjón Guðmundsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Drífa Hjartardóttir (til 1. október)/Sigríður Ingvarsdóttir (frá 1. október), þingflokki sjálfstæðismanna. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.
    
3.    Þing á árinu 2001.
    Að venju voru haldin tvö þing, hið fyrra í Havana í apríl (105. þing) og hið síðara í Ouagadougou í september (106. þing).

3.1. Störf og ályktanir 105. þings IPU.
    Dagana 1.–6. apríl var 105. þing IPU haldið í Havana. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson formaður, Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Möller, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: Ricardo Alarcón de Queseda, forseti kúbverska þingsins, Kirean Predesgast, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Najima Heptulla, forseti IPU-ráðsins, og Fidel Castro, forseti Kúbu.
    Að venju voru á þingfundinum almennar umræður um „stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum“. Ásta Möller tók til máls í almennum umræðum og ræddi um félagslegar og efnahagslegar afleiðingar kynjamisréttis. Hún lagði áherslu á að kraftur kvenna væri víða vannýtt auðlind. Hún benti á að fjárfesting í menntun kvenna skilaði sér í auknu heilbrigði allrar fjölskyldunnar og að hækkun launa kvenna skilaði sér betur í bættri afkomu fjölskyldunnar en samsvarandi hækkun á launum karla.
    Þingið afgreiddi ályktanir um fjögur mál. Tvö sérstök málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu og voru þau fyrst rædd í nefndum. Í I. nefnd þingsins, stjórn- og öryggismálanefnd, var umræðuefnið „að tryggja framfylgd alþjóðaréttar í þágu heimsfriðar og öryggis“. Einar K. Guðfinnsson flutti ræðu á fundi nefndarinnar þar sem hann benti m.a. á að milliríkjaátök væru orðin sjaldgæfari en átök innan landamæra einstakra ríkja og sú staðreynd gerði alla íhlutun mun flóknari. Alþjóðalög gætu í sjálfu sér ekki komið í veg fyrir stríð heldur yrði að ráðast að rótum undirliggjandi þjóðfélagsvanda. Útbreiðsla lýðræðis, alþjóðleg viðskipti og virðing fyrir mannréttindum væri besta leiðin til að forðast átök. Einar minnti á að Kúba væri enn kommúnistaríki og þar viðgengjust mannréttindabrot. Vonandi yrði breyting þar á á nýrri öld og einræðisstjórnir almennt látnar víkja fyrir lýðræði.
    Í IV. nefnd þingsins, mennta-, vísinda-, menningar- og umhverfismálanefnd, var fjallað um „hlutverk menntunar og menningar til að stuðla að þátttöku kynjanna í stjórnmálum og sem forsenda framþróunar“. Jóhanna Sigurðardóttir hélt ræðu á þeim nefndarfundi þar sem hún hvatti til baráttu gegn ólæsi, en slíkt átak þyrfti að beinast sérstaklega að stúlkubörnum. Þá þyrfti að efla áætlanir í þróunarlöndum sem stuðla að hagnýtri þjálfun kvenna. Slíkt gerði konum ekki einungis kleift að bæta eigin hag, heldur allrar fjölskyldunnar. Aukin áhrif kvenna í atvinnulífi og í stjórnmálum almennt drægju úr fátækt og mismunun. Í drögum að ályktun nefndarinnar var málsgrein þar sem ríkti nokkuð gamaldags hugsunarháttur um verkaskiptingu á heimilum. Ásta Möller lagði fram breytingartillögu við drögin þar sem nútímalegra viðhorfi var lýst og spunnust fjörugar umræður um hana. Breytingartillagan var samþykkt í nefndinni þrátt fyrir nokkra andstöðu, aðallega frá fulltrúum arabaríkja. Þeir létu hins vegar kyrrt liggja þegar ályktunin kom til afgreiðslu á þinginu sjálfu.
    Tvö mál voru tekin fyrir utan dagskrár. Í fyrsta lagi var samþykkt neyðarályktun um „aðgerðir alþjóðasamfélagsins til að mæta neyðarástandinu í Afganistan, þ.m.t. eyðileggingu talibana á menningarverðmætum“. Í öðru lagi var fjallað um „framlag þjóðþinga í baráttunni gegn hryðjuverkum, í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna 55/158“.

3.2. Störf og ályktanir 106. þings IPU.
    Dagana 9.–14. september var 106. þing IPU haldið í Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson formaður, Gísli S. Einarsson og Drífa Hjartardóttir, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Hryðjuverkin sem framin voru í Bandaríkjunum 11. september höfðu óhjákvæmilega áhrif á þinghaldið. Sérstök umræða um breytingar á starfi IPU átti að fara fram allan eftirmiðdaginn 11. september en þinghald var stöðvað þegar fréttist af ódæðisverkunum og öllu starfi frestað til næsta dags. Ákveðið var að stytta þinghaldið um einn dag. Einar K. Guðfinnsson lagði til innan Tólfplús-hópsins að hópurinn færi fram á að flaggað yrði í hálfa stöng föstudaginn 14. september. Formaður hópsins kom þessari tillögu á framfæri við þingið en hún þótti því miður ekki framkvæmanleg vegna mismunandi siða aðildarþjóða. Einnig vegna þess að ákvörðun af þessu tagi yrði að samþykkja í öllum sendinefndum, sem ekki voru allar fullskipaðar þegar hér var komið sögu.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: Mélégué Traoré, forseti búrkínska þingsins, Olara Otunnu, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum barna og vopnaðra átaka, Najima Heptulla, forseti IPU-ráðsins, og Blaise Compaoré, forseti Búrkína Fasó.
    Að venju voru á þingfundinum almennar umræður um „stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum“. Einar K. Guðfinnsson tók til máls í almennum umræðum, en eftir atburði þriðjudagsins breyttust að sjálfsögðu áherslurnar í þeim. Einar notaði hluta af ræðutíma sínum til að fordæma hryðjuverkaárásina á Bandaríkin og hvetja til samstöðu með Bandaríkjamönnum á þessum erfiðu tímum, en ræddi að öðru leyti um alþjóðavæðinguna og næstu skref í viðræðum um aukið viðskiptafrelsi, í framhaldi af sameiginlegum fundi IPU og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem haldinn hafði verið í júní í Genf.
    Þingið afgreiddi ályktanir um fjögur mál. Tvö sérstök málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu og voru þau fyrst rædd í nefndum. Í II. nefnd þingsins, laga- og mannréttindanefnd, var umræðuefnið verndun barna. Drífa Hjartardóttir flutti ræðu á fundi nefndarinnar þar sem hún kynnti áherslur Íslands í þessum málaflokki. Hún lagði jafnframt áherslu á stöðu stúlkubarna í heiminum og studdi ályktanadrög sem breska sendinefndin hafði sett fram fyrir fundinn.
    Í III. nefnd þingsins, efnahags- og félagsmálanefnd, var fjallað um „brýnar aðgerðir í baráttunni gegn HIV/alnæmi og öðrum faröldrum sem ógna heilbrigði almennings, jafnt sem efnahagslegri, félagslegri og stjórnmálalegri þróun og jafnvel afkomu margra ríkja“. Fundi nefndarinnar stýrði Einar K. Guðfinnsson, en hann er formaður hennar. Gísli S. Einarsson hélt ræðu á þeim nefndarfundi og lagði áherslu á mikilvægi menntunar sem forvarnar. Einnig lagði hann áherslu á virðingu fyrir mannréttindum, sérstaklega réttindum kvenna. Jafnframt minnti hann á nauðsyn þess að tryggja aðgang fátækra ríkja að nauðsynlegum lyfjum. Hann hvatti iðnríkin til að leggja fram nauðsynlegt fjármagn til að vinna gegn alnæmi og öðrum faröldrum í þriðja heiminum. Í lok fundarins var Einar K. Guðfinnsson endurkjörinn formaður nefndarinnar til næsta árs.
    Samþykkt var á fyrsta degi þingsins að hafa utandagskrárumræðu um ástandið á hernumdu svæðunum. Ákveðið var í kjölfar árásarinnar á Bandaríkin að hafa enga almenna umræðu um þetta mál eins og til hafði staðið heldur skipa án umræðu nefnd til að vinna ályktunardrög. Á grundvelli þeirrar vinnu var ályktun samþykkt af þinginu þar sem þess er krafist að bæði Ísrael og heimastjórn Palestínumanna virði gildandi samkomulag, hætti öllum ofbeldisverkum og snúi aftur að samningaborðinu. Í ályktuninni eru morð á saklausum borgurum og aftökur á Palestínumönnum án dóms og laga fordæmdar, Ísraelar eru m.a. hvattir til að frysta landnám og stjórn Palestínumanna til að nota skilvirkar aðferðir til að koma í veg fyrir hryðjuverk, lagt er til að alþjóðlegt gæslulið verði sent til hernumdu svæðanna til að tryggja að mannúðarlög séu virt og binda enda á ofbeldi á svæðunum og farið fram á að samningaviðræður hefjist aftur með það að markmiði að stofna sjálfstætt ríki Palestínu með Jerúsalem sem höfuðborg.
    Þá var samþykkt ályktun sem fordæmir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Í ályktuninni er lýst samstöðu með fórnarlömbum hryðjuverkanna, aðstandendum þeirra, bandarísku ríkisstjórninni, Bandaríkjaþingi og bandarísku þjóðinni allri. Farið er fram á aukna samvinnu ríkja í milli til að koma í veg fyrir og uppræta hryðjuverk og öllum aðildarríkjum IPU gert að vinna með Bandaríkjunum til að koma upp um ódæðismennina og refsa þeim í samræmi við alþjóðalög.

4.    Svæðisbundið samstarf.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist svokallaður Tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þingið stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Í Havana kom fram að bæði Ísrael og Evrópuþingið hafa sótt um fulla aðild að Tólfplús-hópnum. Ísrael á núna fulla aðild að IPU, en á aukaaðild að Tólfplús-hópnum. Í tilfelli Ísraels er þetta því spurning um pólitískan vilja. Evrópuþingið er áheyrnaraðili að bæði IPU og Tólfplús-hópnum. Þar sem Evrópuþingið er ekki þjóðþing og getur því samkvæmt núgildandi reglum ekki átt fulla aðild að IPU er ólíklegt að það fái aðild að Tólfplús-hópnum. Vinnuhópur var settur á laggirnar til að skoða þessar beiðnir sérstaklega, en ákvörðunum var frestað. Þess má geta að framkvæmdastjórn IPU er jafnframt að skoða umsóknir frá Evrópuþinginu og þingi rómönsku Ameríku um fulla aðild að IPU, en yrðu slíkar beiðnir samþykktar yrði það töluverð breyting frá núverandi stefnu þar sem skýrt er í lögum IPU að einungis þjóðþing eða fulltrúar þeirra geta átt aðild að samtökunum. Engin ákvörðun var tekin um málið á árinu.
    Í framhaldi af umræðunni í Havana tók Tólfplús-hópurinn fyrir tillögu um breytingar á starfsreglum hópsins í Ouagadougou. Samþykkt var að hægt yrði að bjóða landsdeildum aðild að hópnum sem ekki eru innan hefðbundins svæðis hans. Þetta gerir hópnum m.a. kleift að bjóða Ísrael fulla aðild ef aukinn meiri hluti samþykkir það. Þegar lagabreytingin hafði verið samþykkt var gengið til atkvæða um inngöngubeiðni frá Ísrael, en2/ 3hluta greiddra atkvæða þarf til að samþykkja inngöngu nýrra ríkja. Eitt atkvæði vantaði upp á til að beiðnin yrði samþykkt og fékk Ísrael því ekki inngöngu að sinni.
    Á síðasta fundi Tólfplús-hópsins í Ouagadougou var Oddbjörg Starrfeldt frá Noregi kjörin formaður hópsins með dyggri aðstoð annarra norrænna þingmanna sem unnu ötullega að kosningu hennar. Mótframbjóðandi hennar var frá Belgíu og munaði aðeins þremur atkvæðum á þeim.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Finnland fór með forustu í Norðurlandahópnum á árinu og voru samráðsfundirnir því haldnir þar í landi, sá fyrri í febrúar en sá síðari í ágúst. Formaður og ritari Íslandsdeildar sóttu báða fundi ársins 2001. Var m.a. rætt um breytingar á starfi IPU, sérstaklega á seinni fundinum. Einar K. Guðfinnsson lagði greinargerð Íslandsdeildarinnar um málið (sjá aftar í skýrslunni) til grundvallar sínum málflutningi. Norðmenn studdu sjónarmið Íslandsdeildar í öllum meginatriðum, aðrir gátu fallist á sum atriði en ekki önnur, eða höfðu ekki fastmótaða afstöðu. Ákveðið var að sameinast um nokkur grundvallaratriði, en að leggja ekki fram sameiginlega norræna afstöðu.

5.    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipað er tveimur þingmönnum frá hverri sendinefnd og fer með æðsta vald í innri málefnum þess, kom tvívegis saman í tengslum við hvort þing.
    Mikið var rætt um breytingar á starfi IPU í Havana, sem og fjármál samtakanna, bæði í Tólfplús-hópnum og í IPU-ráðinu. Tillögur frá framkvæmdastjóra gengu m.a. út á að breyta fyrirkomulagi þinga og nefndastarfs. T.d. var rætt um að fækka málum sem fjallað er um á hverju þingi, breyta fyrirkomulagi almennra umræðna til að gera þær markvissari og halda nefndafundi á milli þinga. Þá vinnur stjórn IPU að því að tengja starf IPU betur starfi Sameinuðu þjóðanna, en það kallar væntanlega á öflugra starf innan IPU. Fjárhagsstaða IPU er erfið um þessar mundir þar sem Bandaríkjaþing hætti fyrir nokkrum árum að greiða árgjald til IPU. Þegar þessi mál voru rædd í Tólfplús-hópnum í Havana til undirbúnings fyrir fund IPU-ráðsins kom skýrt fram að aðildarríki þess væru ekki tilbúin til að auka árgjöld til IPU og fannst sumum gildi samtakanna hafa rýrnað eftir að Bandaríkin hættu þátttöku. Breytingar á starfi IPU gætu leitt til aukins kostnaðar, og voru fundarmenn ekki á eitt sáttir um það hvort IPU gæti leyft sér að hugsa um slíkar breytingar á meðan fjármálin væru í óvissu. Einar K. Guðfinnsson benti í Tólfplús-hópnum á að í stað þess að áforma aukin útgjöld þyrfti IPU að draga úr útgjöldum. Lagði hann áherslu á að þetta væru pólitísk mál sem væri einvörðungu á færi kjörinna þingmanna að móta stefnu um. Þingmenn þyrftu að fá nákvæmar upplýsingar frá skrifstofu IPU um hve mikið ákveðin verkefni kostuðu og taka skýrar pólitískar ákvarðanir um hvar ætti að skera niður. Þegar fjármálin voru rædd á fundi IPU-ráðsins tók Jóhanna Sigurðardóttir í svipaðan streng og tók þar undir athugasemdir ýmissa þingmanna um nauðsyn aukins aðhalds og ábyrgðar. Hún studdi jafnframt óskir um nákvæmari upplýsingar um launakostnað IPU og um starfsmannamál samtakanna almennt. Var umræðum síðan frestað til næsta þings, þar sem taka átti upp almennar umræður um málið.
    Ráðið samþykkti lagabreytingu í Havana svo að nú getur hvert þjóðþing ráðið því hvort það er þingið í heild eða landsdeild þess sem á aðild að IPU. Þannig var komið til móts við bæði sjónarmiðin sem uppi voru. Sumir töldu annars vegar að það skipti miklu máli að þjóðþingið sjálft væri aðili að IPU en aðrir töldu slíkt útilokað þar sem þjóðþing gæti aldrei verið bundið af samþykktum samtakanna.
    Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september tók ráðið einungis fyrir aðkallandi mál í Ouagadougou, en öðru var frestað til næsta þings. Eins og fram hefur komið féllu sérstakar umræður um breytingar á starfi IPU niður á 106. þinginu sjálfu, en málið fékk nokkra umræðu í IPU-ráðinu, sérstaklega í tengslum við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir árið 2002. IPU-þing hafa venjulega verið tvö á ári, en ákveðið var í sparnaðarskyni að fækka þingum á árinu 2002 í eitt, en halda jafnframt sérstakan fund IPU-ráðsins í Genf í stað haustþingsins. Samþykkt var eftir nokkra umræðu 5% hækkun á framlögum aðildarríkja, sem samsvarar verðbólgu síðustu sjö ára, en á þeim tíma hafa aðildargjöld verið óbreytt. Ekki var samþykkt 5% viðbótarhækkun sem framkvæmdastjórnin hafði lagt til. Einar K. Guðfinnsson tók til máls þegar fjárhagsáætlun var rædd og taldi mikilvægt að leggja áherslu á tvö markmið með fyrirhuguðum breytingum á starfi IPU, annars vegar að draga úr kostnaði og hins vegar að tryggja stöðu IPU sem heimssamtaka þingmanna.
    Gert er ráð fyrir heilum degi til að ræða breytingar á starfi IPU á næsta þingi sambandsins og er gert ráð fyrir að ákvarðanir um þau mál verði teknar í framhaldi af þeirri umræðu.

6.    Kvennafundur.
    Sérstakur kvennafundur er haldinn á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins. Starf kvennafundarins miðar að því að fjölga konum á þingum IPU og styðja konur í ríkjum þar sem konur eiga erfitt uppdráttar í stjórnmálum. Rætt er m.a. um stöðu kvenna í þjóðþingum og framlag þeirra til lýðræðis. Þá reynir kvennafundurinn að koma sérstökum sjónarmiðum kvenna að í ályktunum sambandsins. Íslandsdeildin í heild hefur verið dugleg við að benda á málefni kvenna í þeim ólíku málaflokkum sem ræddir eru á þingum IPU og hefur haldið jafnréttissjónarmiðum mjög á lofti.

7.    Mannréttindi þingmanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um mál sem hún hefur skoðað þar sem mannréttindi þingmanna hafa verið vanvirt og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríki sem í hlut áttu eru Argentína, Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Djíbúti, Ekvador, Gambía, Gínea, Hondúras, Indónesía, Madagaskar, Malasía, Mongólía, Burma, Pakistan, Moldavía, Srí Lanka og Tyrkland.

8.    Áherslur Íslandsdeildar í tengslum við hugsanlegar breytingar á starfi Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Í ársskýrslu ársins 2000 fjallaði Íslandsdeildin nokkuð um þær breytingar sem til umræðu eru á starfi IPU og ástæðurnar sem þar liggja að baki, auk þess sem hún fór nokkrum almennum orðum um afstöðu sína til starfsemi IPU. Þetta mál, þ.e. breytingar á starfsemi IPU, var áfram í brennidepli á árinu 2001 og ákvað Íslandsdeildin að blanda sér með formlegum hætti í þær umræður. Hún lagði fram greinargerð um hugsanlegar breytingar á starfi samtakanna til framkvæmdastjórnar IPU. Hún sendi greinargerðina jafnframt til upplýsingar til Tólfplús-hópsins og norræna hópsins. Skal hér gerð í stuttu máli grein fyrir helstu athugasemdum Íslandsdeildar.
    Greinargerðin skiptist í fjóra kafla, þ.e. hlutverk IPU, greining á núverandi stöðu mála, markmið breytinga og sérstakar athugasemdir við tillögur um breytingar sem framkvæmdastjóri IPU lagði fram sem grundvöll umræðunnar. Íslandsdeildin benti m.a. á að IPU væri vettvangur til skoðana- og upplýsingaskipta, en hefði jafnframt mikilvægu hlutverki að gegna við uppbyggingu lýðræðis. Þá ætti IPU að upplýsa þjóðþingin um starfsemi alþjóðastofnana og benda á málefni sem þar væru til umfjöllunar og þingin vildu hugsanlega láta til sín taka. Íslandsdeildin lagði áherslu á að IPU væri ekki stefnumótandi samtök og hvorki þing né ríkisstjórnir væru bundin af samþykktum þess eða ummælum forustumanna samtakanna. Íslandsdeildin taldi nauðsynlegt að draga úr kostnaði við starfsemi IPU í ljósi þess að tekjur samtakanna hafa rýrnað um 15% í kjölfar þess að Bandaríkin hættu að greiða til þeirra fyrir nokkrum árum. Þá bæri að tryggja stöðu IPU og forðast stofnun fleiri alþjóðlegra þingmannasamtaka til að eiga samstarf við einstakar alþjóðastofnanir. Talið var mikilvægt að vinnubrögð IPU einkenndust af lýðræði og því mættu breytingar á starfseminni ekki leiða til samþjöppunar valds og ekki heldur til aukinna raunútgjalda, breytingarnar ættu að skerpa áherslur samtakanna og gera þeim betur kleift að eiga samstarf við viðeigandi alþjóðastofnanir og ekki ætti að ráðast í breytingar nema sýnt væri að þær væru til hagsbóta fyrir þjóðþingin.
    Íslandsdeildin studdi þá hugmynd að fækka þingum IPU í eitt á ári og taldi jafnframt að vissar breytingar ætti að gera á skipulagi ráðstefnunnar, sérstaklega hvað varðar almennar umræður. Í stað haustþings vildi Íslandsdeildin að haldinn yrði sérstakur fundur ráðsins á haustin, en slíkur fundur yrði mun fámennari og styttri en þing og því mun ódýrari. Íslandsdeildin vildi fækka nefndum IPU úr fjórum í þrjár, en var á móti því að fjölga nefndarfundum, eins og sumir hafa lagt til. Þá taldi Íslandsdeildin að stytta mætti kvennafundinn án þess að innihald hans og áhrif rýrnuðu. Íslandsdeildin vildi auka áhrif svæðishópa og taldi því mikilvægt að þeir fengju tækifæri til að hittast í tengslum við haustfund ráðsins. Íslandsdeildin vildi auka samskipti IPU við Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaviðskiptastofnunina, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en benti á að allar tilraunir til slíks yrðu fremur máttlausar á meðan Bandaríkjaþing tæki ekki þátt í starfi IPU. Íslandsdeildin fór að lokum yfir fjármál og starfsmannamál IPU og setti fram ýmsar tillögur í þeim málum.
    Íslandsdeildin telur brýnt að taka ákvarðanir um framtíðarskipulag starfsemi IPU á árinu 2002, en ákvarðanataka – sérstaklega hvað varðar grundvallarbreytingar – getur verið mjög erfið í stórum samtökum á borð við IPU, þar sem áherslur landsdeilda eru oft mjög mismunandi. Þær skammtímaráðstafanir sem gerðar voru til að spara á árinu 2002, þ.e. að halda vorþing, en síðan einungis ráðsfund um haustið í stað þess að halda þing, eru í samræmi við áherslur Íslandsdeildar. Einhverjar sendinefndir voru þó mjög ósáttar við þessa ráðstöfun. Það verður vafalítið tekist á um þessi mál á 107. þingi IPU, en Íslandsdeildin mun áfram beita sér fyrir því að finna skynsamlega lausn þar sem fara saman ráðdeild í rekstri og ráðstafanir til að tryggja að IPU geti sinnt hlutverki sínu.
    
9.    Fundur IPU um alþjóðleg viðskipti.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur fjölmarga fundi og ráðstefnur á ári hverju um margvísleg málefni sem tengjast starfi alþjóðastofnana. Fundirnir eru oft haldnir í samstarfi við viðkomandi alþjóðastofnun. Íslandsdeildin hefur fjárveitingu til að sækja einn slíkan fund á ári og verður að velja úr það sem henni þykir mikilvægast hverju sinni, en það getur oft verið vandasamt verk þar sem á hverjum tíma þarf að fylgjast með stefnumótunarstarfi stjórnvalda á mörgum sviðum og æskilegt er að íslenskir þingmenn geti komið áherslum sínum að. Á árinu 2001 voru haldnir nokkrir áhugaverðir þingmannafundir, t.d. í tengslum við 3. ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni fátækustu ríkja heims, heimsráðstefna gegn kynþáttahatri og um alþjóðleg viðskipti.
    Íslandsdeildin sendi fulltrúa á síðastnefnda fundinn, en hann var haldinn 8.–9. júní í Genf. Þema fundarins var „Í átt að frjálsu, réttlátu og sanngjörnu alþjóðaviðskiptakerfi: Þáttur löggjafans“. Einar K. Guðfinnsson sótti fundinn f.h. Íslandsdeildar. Hann notaði jafnframt tækifærið og fundaði með framkvæmdastjóra IPU til að ræða fjármál samtakanna og breytingar á starfseminni og kynna greinargerð Íslandsdeildar um málið, en hún hafði þá nýlega verið send til framkvæmdastjórnar IPU.

10.    IPU-þing 2002.
    Næsta þing sambandsins verður í Marrakesh í mars 2002. Þar eru á dagskrá annars vegar umhverfismál með áherslu á stuðning þingmanna við Kyoto-bókunina og hins vegar hlutverk þjóðþinga á tímum alþjóðavæðingar, fjölþjóðasamtaka og alþjóðlegra viðskiptasamninga.

11.     Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2001.
          Að tryggja framfylgd alþjóðaréttar í þágu heimsfriðar og öryggis.
          Hlutverk menntunar og menningar til að stuðla að þátttöku kynjanna í stjórnmálum og sem forsenda framþróunar.
          Framlag þjóðþinga í baráttunni gegn hryðjuverkum, í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna 55/158.
          Aðgerðir alþjóðasamfélagsins til að bregðast við neyðarástandinu í Afganistan, þ.m.t. eyðileggingu talibana á menningarverðmætum.
          Verndun barna.
          Brýnar aðgerðir í baráttunni gegn HIV/alnæmi og öðrum faröldrum sem ógna heilbrigði almennings, jafnt sem efnahagslegri, félagslegri og stjórnmálalegri þróun og jafnvel afkomu margra ríkja.
          Hlutverk þjóðþinga við að leysa hið hörmulega ástand á hernumdu svæðunum, leggja til alþjóðlega gæsluliða og vernda Palestínumenn, sérstaklega óvopnaða borgara.
          Fordæming á hryðjuverkaárásum 11. september 2001 á Bandaríkin.


Alþingi, 7. jan. 2002.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Jóhanna Sigurðardóttir,


varaform.


Ásta Möller.