Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 694  —  321. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001, um breytingu á XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Má Sigurðsson, Nikulás Hannigan og Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Sigrúnu Ágústsdóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001, um breytingu á XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999, um urðun úrgangs.
    Tilskipunin fjallar um rekstrarlegar og tæknilegar kröfur varðandi úrgang og urðun hans og kveður á um ráðstafanir, aðferðir og leiðbeiningar til að koma í veg fyrir eða minnka eins og unnt er neikvæð áhrif á umhverfið, sérstaklega mengun yfirborðsvatns, grunnvatns, jarðvegs og andrúmslofts. Innleiðing tilskipunarinnar í landsrétt kallar á lagabreytingar hér á landi en umhverfisráðuneytið hyggst leggja fram lagafrumvarp þess efnis fljótlega.
    Fyrir utanríkismálanefnd hefur verið lögð álitsgerð Árna Páls Árnasonar hdl. sem hann vann að beiðni umhverfisráðuneytisins. Niðurstaða álitsins er m.a. sú að ákvæði tilskipunarinnar feli ekki í sér skilyrðislausa kröfu um hlutlæga ábyrgð á umhverfistjóni og var sá skilningur staðfestur af fulltrúum umhverfis- og utanríkisráðuneytis á fundi nefndarinnar. Tilskipunin gerir hins vegar ráð því að innstæða verði fyrir greiðslu kostnaðar við vöktun og lokun urðunarstaðar en gerir ekki kröfu um ábyrgðartryggingu vegna umhverfistjóns. Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina er ljóst að innleiðing tilskipunarinnar mun hafa í för með sér aukinn kostnað við vöktun urðunarstaða á landinu. Áætlaður kostnaður við vöktun hjá Sorpu bs. mun við innleiðingu nýrra reglna aukast úr 0,07% af árlegum rekstrarkostnaði í rúm 1% en hjá Sorpstöð Suðurlands er áætlað að kostnaður hækki úr 1% í u.þ.b. 8% af árlegum rekstrarkostnaði.
    Rannveig Guðmundsdóttir, Lára M. Ragnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Árni R. Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin mælir með að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 29. jan. 2002.



Tómas I. Olrich,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.