Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 728  —  185. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot gegn börnum).

Frá allsherjarnefnd.


    
    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að nefndarálit var gefið út fyrir 2. umræðu. Hefur nefndin fengið á sinn fund Björgu Thorarensen frá dómsmálaráðuneyti.
    Samkvæmt frumvarpinu er refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu af börnum og ungmennum bundið við að barni eða ungmenni yngra en 18 ára hafi verið greitt endurgjald, sem getur verið fé eða önnur verðmæti, gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Þá á ekki að skipta máli hvort endurgjaldið er greitt af geranda eða þriðja manni.
    Nefndin taldi rétt að skýrt kæmi fram í lagatextanum að háttsemi þriðja manns teldist brot á lögunum og lagði til í áliti sínu breytingu á frumvarpinu í þá átt. Slík breyting á lagatextanum er hins vegar ekki í samræmi við aðrar greinar almennra hegningarlaga. Nefndin leggur því til að fallið verði frá breytingunni þar sem almennar reglur í III. kafla laganna um tilraun og hlutdeild taka til þeirra tilvika. Ef greiðandinn er þriðji maður telst brot hans hlutdeild og ef broti gerandans lýkur með greiðslunni felur það í sér tilraun til brots samkvæmt ákvæðum kaflans.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur afgreiðslu málsins.
    Jónína Bjartmarz og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. febr. 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Ásta Möller.



Guðjón A. Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson.