Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 729  —  203. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53 24. maí 1989.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, laganefnd Lögmannafélags Íslands og dómstólaráði.
    Hinn 12. desember 2001 samþykkti Alþingi þingsályktun um aðild að samningi um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða sem gerður var í New York 10. júní 1958 og tók gildi 7. júní 1959. Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um samningsbundna gerðardóma svo að unnt verði að fullgilda samninginn. Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði sem lúta að breytingum á aðfararheimildum samkvæmt lögum um aðför.
    Nefndin telur að með aukinni alþjóðavæðingu, fjölbreyttari viðskiptum íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu og auknu sóknarfæri erlendra aðila til að stunda viðskipti á Íslandi sé nú orðið brýnt að Ísland gerist aðili að samningnum. Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur afgreiðslu málsins.
    Jónína Bjartmarz og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 4. febr. 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Ásta Möller.



Guðjón A. Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson.