Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 801  —  509. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2001.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) árið 1949 skyggði nokkuð á starfsemi VES en með breyttri skipan öryggis- og varnarmála í kjölfar endaloka kalda stríðsins jókst mikilvægi stofnunarinnar til muna. Með Maastricht-sáttmálanum árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB). Næstu ár efldist VES verulega og gegndi æ stærra hlutverki í öryggismálum Evrópu. Auk þess sem sambandinu var ætlað að annast framkvæmd á fyrirhuguðum varnarmálahluta ESB átti það að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO. Af þessum sökum var litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmála ESB.
    VES-þingið kom fyrst saman árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Á VES-þinginu koma saman þjóðkjörnir þingmenn frá aðildarríkjum sambandsins, en þau eru nú tíu talsins, þ.e. öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, auk Danmerkur. Loks hafa sjö ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES. Eftirfarandi ríki eiga aðild að þinginu: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Aukaaðildarríkin eru: Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild hafa: Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð. Þá eru samstarfsríkin sjö talsins: Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna 4–5 fundi á ári utan þingfundanna.

2. Íslandsdeild VES-þingsins árið 2001.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa ekki heldur rétt til að tala á móðurmáli sínu á fundum þingsins. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Aðalmenn Íslandsdeildar VES-þingsins á árinu voru eftirtaldir: Kristján Pálsson formaður og Katrín Fjeldsted varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Þá voru varamenn: Einar Oddur Kristjánsson og Hjálmar Jónsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Eftir að Hjálmar Jónsson lét af þingmennsku 3. október tók Sigríður Ingvarsdóttir sæti hans sem varamaður í Íslandsdeild VES-þingsins.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2001 var eftirfarandi:
Forsætisnefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Katrín Fjeldsted.
Stjórnarnefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Katrín Fjeldsted.
Stjórnmálanefnd: Kristján Pálsson.
Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Varnarmálanefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Sigríður Ingvarsdóttir.
Nefnd um almannatengsl: Lúðvík Bergvinsson.
Til vara: Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Tækni- og geimvísindanefnd: Lúðvík Bergvinsson.
Til vara: Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Fjármála- og stjórnsýslunefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Sigríður Ingvarsdóttir.
Þingskapanefnd: Katrín Fjeldsted.
Til vara: Sigríður Ingvarsdóttir.

3. Breytt staða VES og áhrif þess á VES-þingið.
    Árið 2001 voru framtíðarhorfur VES-þingsins sjálfs efst á baugi í umræðum auk þess sem þær snerust að töluverðu leyti um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en síðustu ár hafa miklar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu. Forsögu þessa má rekja til leiðtogafundar Bretlands og Frakklands í St. Malo í desember 1998 er öryggismálum álfunnar var beint inn á ótroðnar slóðir. Þar var ákveðið að ESB kæmi sér upp sjálfstæðum hernaðarmætti og í framhaldinu var ákveðið á leiðtogafundum ESB í Köln árið 1999 að stefna bæri að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000. Á fundi leiðtoga aðildarríkja ESB í Helsinki síðar sama ár urðu leiðtogarnir sammála um að NATO yrði áfram grundvöllur sameiginlegra varna ríkja sambandsins, en jafnframt að nauðsynlegt væri að koma á nýjum pólitískum og hernaðarlegum stofnunum er gerðu Evrópuríkjunum kleift að efna til hernaðaraðgerða undir forustu ESB þegar bregðast þyrfti við alþjóðlegum vanda. Samkæmt ákvörðunum leiðtoga aðildarríkja ESB hefur nauðsynlegum stofnunum þegar verið komið á fót innan „annarrar stoðar“ ESB og auk þess hefur hernaðarlegum markmiðum sambandsins þegar verið ýtt úr vör en stefnt er að því að það hafi á að skipa 50–60.000 manna evrópsku herliði sem brugðist geti skjótt við er hættuástand skapast. Ákvarðanir nokkurra leiðtogafunda ESB og yfirlýsing leiðtogafundar NATO í Washington lágu til grundvallar beinu sambandi milli NATO og ESB í þessum málum og hefur þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB í kjölfarið gert það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar er nokkru minna en áður í ljósi þess að stofnanir öryggis- og varnarmála álfunnar hefur færst á ábyrgð ESB. Jafnframt var í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO kveðið á um mikilvægi þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB og að NATO-ríkin utan ESB fengju aðgang að búnaði NATO. Því er ljóst að nauðsynlegt er að Ísland tengist VES nánari böndum og gæti þannig að stöðu landsins í öryggis- og varnarmálum Evrópu.
    VES-þingið hefur verið mikilvægur þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. VES-þingið hefur lagt til að komið verði á fót öryggis- og varnarmálaþingi Evrópu þar sem þjóðkjörnir þingmenn hefðu eftirlit með starfsemi stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Þá hefur verið lagt til að nýja þingið yrði grundvallað á ESB-sáttmálanum og að þingmenn þjóðþinga ESB-ríkjanna 15 tækju þar sæti, auk þjóðkjörinna þingmanna evrópsku aðildarríkja NATO sem eru ekki aðilar að ESB. Þá var ákveðið að VES-þingið tæki upp viðbótarheitið: Tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu (The Interim European Security and Defence Assembly).
    Íslandsdeildin hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að núverandi aukaaðildarríki VES geti tekið þátt í þróun öryggis- og varnarmálasamstarfs álfunnar, sem og framkvæmd þeirrar stefnu sem á endanum verður mótuð. Þá hefur Íslandsdeildin lagt áherslu á mikilvægi lýðræðislegs eftirlits þingmannasamkundu eins og VES-þingsins.

4. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í starfsemi VES-þingsins á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í báðum hlutum þingfundarins.

a. Fyrri hluti 47. fundar VES-þingsins.
    Dagana 18.–20. júní var fyrri hluti 47. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson formaður, Katrín Fjeldsted varaformaður og Lúðvík Bergvinsson, auk ritara. Að venju bar hin öra þróun á skipan Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) síðustu missiri hátt á fundi þingsins. Einna mest var fjallað um niðurstöður leiðtogafundar ESB í Nice fyrr á árinu og hvernig ákvarðanir þess fundar snertu við hlutverki VES og VES-þingsins. Í umræðum á þinginu var stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum fagnað og einnig því að Evrópusambandið hefði einsett sér að stefna að því að vera fært um að takast á við Petersberg-verkefnin svonefndu. Ályktun þingsins um framhald þróunar öryggis- og varnarmála álfunnar eftir Nice-fundinn kvað hins vegar á um að ESB yrði hið allra fyrsta að leita leiða til að koma þessum málaflokki í fastan farveg bæði með hliðsjón af hernaðarmætti ESB og þingræðislegri yfirsýn. Er jafnframt ályktað í þá veru að harmað sé að niðurstaða leiðtogafundarins í Nice hafi ekki getað leyst úr því að hin ýmsu verkefni á sviði öryggis- og varnarmála, sbr. sameiginlegar varnir og hættuástandsstjórnun, séu í verkahring óskyldra, sam-evrópskra stofnana, sem margar hverjar hafa ekki sömu aðildarríki innanborðs. Í þeirri ályktun þingsins og fleirum var ítrekað að afar mikilvægt væri að tryggja náið samráð við aukaaðildarríki, líkt og Ísland, auk áheyrnarríkja, hvað öryggis- og varnarstefnu ESB varðar. Þá var mælst til þess við ráðherraráð VES að aukin áhersla yrði lögð á að styðja VES-þingið í hlutverki sínu sem breiður umræðugrundvöllur fyrir öryggis- og varnarmál í álfunni. Á þinginu var m.a. samþykkt ályktun er varðaði stöðu aðildarríkja og þingræðislega umfjöllun um öryggis- og varnarmálastefnu ESB þar sem þjóðþingin voru hvött til þess að tryggja að þingmenn gerðu sér grein fyrir nauðsyn þess að fjalla um þennan málaflokk, einkum með tilliti til þess hve hnattræn málefni á borð við alþjóðlega glæpastarfsemi og alþjóðleg viðskipti hefðu mikil áhrif á öryggis- og varnarmál álfunnar.
    Í upphafi þingfundar ávarpaði Klaus Bühler, forseti VES-þingsins, þingmannasamkunduna og sagði meðal annars að ef áform ESB gengju eftir á næstu mánuðum mundi Evrópusambandið hafa lokið við að setja á fót viðeigandi stofnanir sem gerðu því kleift að taka við verkefnum og skyldum VES á sviði hættuástandsstjórnunar fyrir lok ársins. Þá ræddi hann nokkuð um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Írlandi um staðfestingu Nice-sáttmála ESB og sagði hana vera pólitískt skref aftur á bak og að allar afleiðingar atkvæðagreiðslunnar yrði ekki unnt að meta fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum. Nefndi hann afstöðu danskra kjósenda í þessu sambandi og taldi það vera hryggilegt ef annað ESB-ríki setti fyrirvara við sameiginlega öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Ástandið í Makedóníu gerði lýðum ljóst hve mikilvægt það væri að ESB hefði viðeigandi styrk á sviði hættuástandsstjórnunar, þ.m.t. hernaðarstyrk. Þá vék hann og máli sínu að NATO-ríkjunum sex sem standa utan Evrópusambandsins og sagði afar mikilvægt að leiða til lykta hvernig samskiptum NATO og ESB verði háttað með tilliti til þessara ríkja. Nefndi hann Tyrkland sérstaklega í þessu sambandi og minnti á að í hinu evrópska öryggiskerfi sem ríkt hefði, hefðu Tyrkir verið þátttakendur á jafningjagrundvelli. Sagði hann það vera óásættanlega afstöðu að hin fjölmörgu evrópsku NATO-ríki og aðildarríki ESB sem stæðu utan ESB yrðu að bíða fullrar aðildar að ESB uns þau gætu orðið þátttakendur í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Af öðrum málum sem Bühler vék að í ræðu sinni má nefna umræðuna um eldflaugavarnir Bandaríkjastjórnar og hvernig sú umræða hefði áhrif á öryggis- og varnarmálastefnu ESB.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Björn von Sydow, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB fyrri hluta ársins 2001; Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála hjá ESB; Jozias Van Aartzen, utanríkisráðherra Hollands, sem fór með formennsku í ráðherraráði VES fyrri hluta árs 2001; og André Flahaut, varnarmálaráðherra Belgíu, sem fer með formennsku í VES og ESB seinni hluta ársins 2001.
    Í ávarpi Javier Solana kom fram að ráðherraráð ESB tækist á hendur allar þær skuldbindingar sem VES-þingið hefði lagt áherslu á undanfarin missiri. Lagði hann áherslu á að þrátt fyrir að þátttaka ríkja sem ekki væru með fulla aðild að VES í ákvörðunartöku innan ráðherraráðsins mundi minnka, þá yrði formleg staða þeirra tryggð með sama hætti og áður. Sagði hann það vera ætlun sína að setja ofuráherslu á að viðhalda góðum samskiptum við VES-þingið.
    André Flahaut sagði í ávarpi sínu að það væri eitt af forgangsverkefnum Belga í formennskutíð sinni að auka vitund almennings í Evrópu um nauðsyn sameiginlegs öryggis og varna. Sagði hann að þjóðþingin væru einn mikilvægasti hlekkurinn í þessari umræðu og því væri VES-þingið, þar sem sæti eiga þingmenn þjóðþinga ríkja ESB, afar vel til þess fallið að leiða þessa umræðu.
    Í umræðum í kjölfar ávarps ráðherrans sagði Kristján Pálsson að ljóst væri af umræðum á þinginu að áhrif VES verði hverfandi og að þess vegna muni áhrif VES-þingsins hverfa á komandi missirum. En jafnframt því hefðu ekki komið fram neinir aðrir raunverulegir úrkostir af hendi Evrópusambandsins. Sagði hann að á undanförnum áratugum hefði mikil þekking og reynsla safnast fyrir hjá VES-þinginu og að sú umræða sem þar hefði farið fram hefði gagnast aukaaðildarríkjum líkt og Íslandi afar vel. Lýsti hann þá yfir áhyggjum af því ef mál þróast með þeim hætti að Evrópusambandið sjálft tæki að sér þingræðislega umfjöllun um öryggis- og varnarmál álfunnar.
    Ráðherrann svaraði spurningum Kristjáns Pálssonar með nokkuð almennum hætti en sagði meðal annars að afar mikilvægt væri að hin þingræðislega vídd yrði tryggð. Slíkt væri trygging fyrir lýðræðislegri umfjöllun um öryggis- og varnarmál. Sagði hann að frumforsenda þess að Evrópusambandið hefði haldið inn á braut sameiginlegrar stefnu um öryggis- og varnarmál væri einmitt til að slá skjaldborg um þessi sam-evrópsku gildi. Hvað varðaði samskipti VES og NATO sagði ráðherrann að það væri framar öllu að tryggja farsælt samband milli stofnananna og lagði áherslu á að stefna ESB í öryggis- og varnarmálum væri ekki mörkuð þeirri forsendu að NATO-ríkjunum yrði haldið fyrir utan. Lykillinn að árangri væri að hvor stofnun fyrir sig bæti það upp sem hina vantar.

b. Síðari hluti 47. fundar VES-þingsins.
    Dagana 3.–6. desember var seinni hluti 47. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson formaður, Katrín Fjeldsted varaformaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir, auk ritara. Sem fyrr bar hin öra þróun á skipan Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) síðustu missiri hátt á fundi þingsins. Þá var fjallað um afleiðingar hinna hörmulegu atburða í Bandaríkjunum 11. september, stríðið í Afganistan og stöðuna í Evrópu með tilliti til baráttunnar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Hvatti þingheimur til þess að efnt yrði til leiðtogafunda á næstu missirum þar sem fjallað yrði um getu Evrópuríkja til að sporna gegn ógn af hugsanlegum árásum hryðjuverkamanna sem hefðu gereyðingarvopn undir höndum. Hvatti þingið jafnframt til þess að Evrópuríkin leituðu allra leiða til að verja íbúa sína fyrir árásum af þessu tagi og að aðildarríki VES legðust á eitt við að eyða efnavopnabirgðum sínum hið fyrsta. Nokkrar umræður urðu um afleiðingar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum og þá sérstaklega um viðbúnað öryggis- og varnarmálaarms Evrópusambandsins í þessu tilliti. Í málflutningi margra þingmanna komu glögglega fram áhyggjur af úrræðaleysi Evrópuríkjanna á þessu sviði sem og ósætti innan ráðherraráðs ESB um afstöðu til baráttunnar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Var jafnframt varað við því að afstöðuleysi ESB kynni að veikja samstöðuna innan Atlantshafsbandalagsins.
    Fyrr á árinu hafði ráðherraráð VES ákveðið að óska ekki eftir fjárframlögum aukaaðildarríkja VES líkt og gert hafði verið um árabil og jafnframt hafði fjármálanefnd ráðherraráðsins gert ráð fyrir yfir 25% niðurskurði til VES-þingsins árið 2002. Ollu þessar ákvarðanir ráðherraráðs VES afar mikilli gremju meðal þingmanna sem gagnrýndu þessar ráðstafanir harkalega á fundinum. Var gripið til þess ráðs að efna til utandagskrárumræðu um málið þar sem fjölmargir þingmenn tóku til máls. Klaus Bühler, sem var endurkjörinn sem forseti VES-þingsins á fundinum, sagði í umræðunum um fjármál þingsins að VES-þingið væri að sjálfsögðu reiðubúið að taka á sig nokkurn niðurskurð líkt og aðrar stofnanir en að því færi fjarri að réttlætanlegt væri að draga svo mjög úr fjárframlögum að komið væri í veg fyrir að þingið gæti sinnt skyldum sínum. Þá sagði hann að ákvörðun ráðherraráðsins um að óska ekki eftir fjárframlögum aukaaðildarríkja væri röng pólitískt og að gjáin milli aðildarríkja og aukaaðilja breikkaði í kjölfarið. Taldi Bühler að slík ráðstöfun væri afar óábyrg. Formenn allra landsdeilda aukaaðildarríkjanna voru fylgjandi því að greiða framlög sín áfram sem endranær. Þá voru allir flokkahópar sem á þinginu starfa á einu máli um gagnrýni á tillögur ráðherraráðsins um niðurskurð í fjárveitingum til VES-þingsins.
    Nokkrar umræður urðu um leiðtogafund ESB sem haldinn var í Laeken í Belgíu síðar í mánuðinum og voru leiðtogar aðildarríkja ESB hvattir til að tryggja þingræðislegt aðhald með sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Á þinginu var samþykkt ályktun belgíska þingmannsins Mark Eyskens, fyrir hönd stjórnmálanefndar VES-þingsins, þess efnis að ráðherraráð VES hvetti leiðtoga ESB til að taka á þeim vanda sem stafar af skorti á þingræðislegu aðhaldi í þessum málaflokki og er einkum til kominn af því að þjóðþing Evrópuríkja hafa ekki bein áhrif á sameiginlega stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Var hvatt til þess að á leiðtogafundinum yrði lagður grunnur að varanlegri lausn sem fæli í sér sameiginlegt hlutverk Evrópuþingsins og þjóðþinga Evrópuríkja í þessum málum og að þeirri lausn yrði unnt að hrinda í framkvæmd árið 2004 á næstu ríkjaráðstefnu ESB. Ályktunin gerði enn fremur ráð fyrir að ákveðið yrði að efna til reglulegra funda fulltrúa Evrópuþingsins, VES-þingsins og ESB þar sem málefni sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB yrðu rædd. Þá kvað ályktunin einnig á um að tveir áheyrnarfulltrúar VES-þingsins sætu fundi nefndar sem legði drög að hlutverki þjóðþinganna í þessum málaflokki. Var ítrekað að sú framtíðarlausn sem rík þörf væri á að finna hið fyrsta fæli ekki í sér skert þingræðislegt aðhald miðað við það aðhald sem VES-þingið hefur veitt stjórnvöldum til skamms tíma.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: André Flahaut, varnarmálaráðherra Belgíu, sem fer með formennsku í ráðherraráði VES og ESB síðari hluta ársins 2002; Armand de Decker, forseti öldungadeildar belgíska þingsins; Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og yfirmaður utanríkis- og öryggismála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins; og Borís Trajkovskí, forseti fyrrum Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu.
    Kristján Pálsson beindi þeirri spurningu til André Flahauts hver væri ástæða þess að framlags Íslands og annarra aukaaðildarríkja VES væri ekki vænst frá og með árinu 2002. Sagði Kristján að aukaaðild Íslands að VES hefði reynst afar mikilvæg, ekki síst til að efla samstöðuna innan Atlantshafsbandalagsins. Margir þingmenn urðu til að spyrja ráðherrann um framlög aukaaðildarríkjanna til VES og gagnrýndu ákvörðun ráðherraráðsins. Flahaut sagðist eingöngu hafa heyrt af ákvörðun þessari samdægurs og sagðist mundu leita eftir svörum hjá ráðinu.
    Kristján Pálsson hélt ræðu í umræðunum um áhrif hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og hernaðarins í Afganistan á varnar- og öryggismál í Evrópu. Í ræðu sinni sagðist Kristján hafa miklar áhyggjur af þróun mála á alþjóðavettvangi og jafnframt því að samstaðan innan Atlantshafsbandalagsins kynni að vera í hættu. Í fyrsta lagi ítrekaði Kristján að finna yrði hið fyrsta varanlega lausn á stöðu NATO-ríkjanna sex sem stæðu utan Evrópusambandsins hvað hina sameiginlegu öryggis- og varnarmálastefnu ESB varðaði. Afar mikilvægt væri að áhrif þessara ríkja minnkuðu ekki innan VES. Þá hefðu öll ríkin lýst yfir óánægju sinni með að VES skyldi verða leyst upp. Kristján vék því næst máli sínu að afleiðingum hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og ákvörðun NATO um að hrinda 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans í framkvæmd. Sagði Kristján það valda talsverðum áhyggjum að aðildarríki ESB sem einnig væru í NATO hefðu margsinnis fundað sín í milli án þess að efna til funda þessara ríkja með utanríkisráðherrum þeirra Evrópuríkja sem stæðu utan ESB. Sagði Kristján að slíkar ráðstafanir bæru þess merki að ekki væri mikill vilji til að halda í þá samstöðu sem í fyrri tíð hefði skapast á vettvangi VES. Þá sagði Kristján að afstaða hlutlausu ríkjanna innan ESB til málefna sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins flækti þessa stöðu enn frekar. Niðurstaðan væri sú að ráðherraráð Evrópusambandsins hefði ekki getað sammælst um eina afstöðu hvað viðbrögð við alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi varðar. Benti Kristján jafnframt á að hvorki ESB né NATO ættu beinan þátt að hernaðaraðgerðunum í Afganistan heldur hefði niðurstaðan orðið sú að að þeim stóðu aðeins Bandaríkin og Bretland. Í þessu samhengi varpaði Kristján þeirri spurningu fram hvort það væri ekki áhyggjuefni að ef Bandaríkin og Bretland stæðu ein að aðgerðunum gegn hryðjuverkamönnum í Afganistan, án raunverulegrar þátttöku NATO og ESB, þá væri hætta á að ríkin tvö einangruðust þegar til lengri tíma væri litið.

c. Nefndafundir.
    Forsætisnefnd Alþingis veitti formanni Íslandsdeildar VES-þingsins takmarkaða aukafjárveitingu til að sækja fund forsætisnefndar sem haldinn var í Stokkhólmi í mars. Þá fóru Svíar með formennsku í ráðherranefnd VES. Á fundinum ávörpuðu fulltrúar forusturíkja VES og ESB nefndina og lýstu viðhorfum sínum til framtíðarþróunar öryggis- og varnarmála álfunnar og breytts hlutverks VES og VES-þingsins auk þess sem farið var yfir getu ESB á sviði hættuástandsstjórnunar.

Alþingi, 20. jan. 2002.


Kristján Pálsson,


form.


Katrín Fjeldsted,


varaform.


Lúðvík Bergvinsson.




Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli VES-þingsins árið 2001.


Fyrri hluti 47. þingfundar, 18.–20. júní:
     1.      Tilmæli nr. 685, um endurskilgreiningu öryggishugtaksins í Evrópu – ný viðbrögð við nýjum ógnum.
     2.      Tilmæli nr. 692, um Miðausturlönd og öryggi í Evrópu.
     3.      Tilmæli nr. 686, um framfylgd ákvarðana Nice-fundarins í sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum.
     4.      Tilmæli nr. 687, um framlag þeirra ríkja sem standa utan ESB til hernaðarlegrar hættuástandsstjórnunar í Evrópu.
     5.      Tilmæli 688, um afvopnunarsamninga á sviði hefðbundinna vopna – CFE-sáttmálann og áhrif hans á stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum.
     6.      Tilmæli nr. 689, um horfur á þátttöku áheyrnaraðildarríkja í sameiginlegri vopnaframleiðslu í álfunni.
     7.      Tilmæli nr. 691, um sameiginlega stefnu Evrópuríkja í geimvísindum: þættir á sviði öryggis- og varnarmála.
     8.      Tilmæli nr. 690, um evrópskar eldflaugavarnir og hlutverk Rússlands.
     9.      Álit nr. 38, um fjárlög og fjárveitingar til VES-þingsins.
     10.      Tilmæli nr. 687, um stöðu aðildarríkja VES innan framtíðarfyrirkomulags þingræðislegrar umræðu innan hinnar nýju öryggis- og varnarmálastefnu ESB.
     11.      Ályktun nr. 106, um svæðisbundnar fjölþjóðastofnanir í Norður-Evrópu.

Síðari hluti 47. þingfundar, 3.–6. desember:
     1.      Fyrirmæli 116, um þingræðislegt aðhald sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB.
     2.      Tilmæli 693, um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu.
     3.      Tilmæli 694, um öryggismál í Evrópu í ljósi alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi.
     4.      Tilmæli 695, um öryggismál í Evrópu í ljósi alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi – svar við ársskýrslu ráðherraráðs VES.
     5.      Tilmæli 696, um þingræðislegt aðhald sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB – tillögur fyrir leiðtogafundinn í Laeken.
     6.      Ályktun 107, um sama mál.
     7.      Tilmæli 697, um þróun mála í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi.
     8.      Tilmæli 698, um fjárhagsáætlun ráðherraráðs VES fyrir fjárhagsárið 2001.
     9.      Tilmæli 700, um hernaðarlega loftflutningagetu Evrópuríkja – svar við ársskýrslu ráðherraráðs VES.
     10.      Tilmæli 701, um hættur og hömlur á sviði efna- og lífefnavopna.
     11.      Tilmæli 702, um hergögn vegna hættuástandsstjórnunar á vegum Evrópuríkja – svar við ársskýrslu ráðherraráðs VES.
     12.      Tilmæli 703, um eldflaugavarnir og áhrif þeirra á hergagnaframleiðslu í Evrópu.
     13.      Tilmæli 704, um öryggismál á Balkanskaga.
     14.      Tilmæli 705, um nýjustu þróun mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu.
     15.      Ályktun 108, um þingræðislegt aðhald íhlutunar í alþjóðlegum hernaðaraðgerðum og tilsvarandi lagasetningu.