Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 848  —  543. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2001.

I. Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landstjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið á vettvangi norrænnar samvinnu og vera þingræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila í þessum löndum og annarra fjölþjóðlegra hagsmunahópa og ríkjasamtaka. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningarsamstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu um einstakan málaflokk og getur auk þess skipað sérstakar vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landstjórna, með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

II. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í byrjun árs 2001 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Í ágúst sl. urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildar að Árni Johnsen sagði af sér þingmennsku og tók þá Hjálmar Árnason tímabundið við formennsku í deildinni. Frá og með 8. október sl. tók Einar Oddur Kristjánsson við formennsku og Hjálmar Árnason við varaformennsku, auk þess sem Kjartan Ólafsson tók sæti aðalmanns af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokks. Jóhanna H. Halldórsdóttir var ritari Íslandsdeildar til 31. mars, Stígur Stefánsson gegndi þá starfi ritara tímabundið þar til í byrjun ágúst en þá tók Guðfríður Lilja Grétarsdóttir við starfinu.

III.    Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Fyrri hluta árs bar hæst skipulagningu og innlegg Íslandsdeildar til ráðstefnu Vestnorræna ráðsins um veiðimennsku Vestur-Norðurlanda, en ráðstefnan var haldin á Akureyri dagana 11.–14. júní. Íslandsdeildin tók virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og ræddi ýmsar tillögur að dagskrá, fyrirlesurum og erindum. Auk þess hafði deildin náið samráð við sérfræðinga hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Akureyrarbæ til að gera ráðstefnuna sem best úr garði. Í þessu sambandi má nefna að Akureyrarbær hefur á ýmsan hátt sýnt áhuga á að skipa sér sess sem eins konar miðstöð fyrir vestnorræna samvinnu og m.a. útbúið tillögur að vestnorrænum samstarfsverkefnum sem Íslandsdeild hefur tekið til skoðunar.
    Á fundum sínum hefur Íslandsdeild einnig lagt fram tillögur um aukið samstarf landsdeildanna á vefnum og hvernig nýta megi tölvutæknina betur til að styrkja samstarf og upplýsingaflæði landanna þriggja á milli. Í samráði við framkvæmdastjóra vann deildin auk þess að tillögum um hvernig heimasíða ráðsins yrði betrumbætt og uppfærð, en sú vinna er enn í fullum gangi.
    Íslandsdeild lagði metnað sinn í að ígrunda vel tillögur að ályktunum fyrir ársfund, en ályktanir þær sem samþykktar eru á ársfundi Vestnorræna ráðsins eru í kjölfarið lagðar fyrir Alþingi af hálfu Íslandsdeildar í formi þingsályktunartillagna. Deildin var sammála um að nauðsynlegt væri að fylgjast betur með afdrifum ályktana ráðsins og að tryggja þyrfti skilvirkara upplýsingaflæði og eftirfylgni við framkvæmd þessara ályktana. Nauðsynlegt væri að hafa skýra yfirsýn yfir hvar á vegi hinar ýmsu ályktanir væru staddar innan ráðuneytanna og tilgangslaust væri að eyða orku og tíma í samningu og samþykkt ályktana sem aldrei yrðu að veruleika. Í þeim efnum var sérstaklega veitt athygli drögum að yfirlýsingu þar sem samstarfsráðherrar landanna skuldbinda sig til að hafa yfirsýn yfir þessi mál og halda landsdeildum Vestnorræna ráðsins upplýstum um gang mála. Íslandsdeild studdi undirskrift slíkrar yfirlýsingar samstarfsráðherranna eindregið á ársfundi ráðsins í september sl. og málið er nú í vænlegum farvegi.
    Fyrir ársfund útbjó Íslandsdeild sérstaka ályktun til samþykktar um stofnun sameiginlegrar auðlindanefndar landanna þriggja þar sem bent var sérstaklega á að hver þjóð um sig hefði dýrmæta reynslu á tilteknum sviðum auðlindanýtingar sem aðrar þjóðir gætu lært af. Íslandsdeild ræddi auk þess tillögur að ýmsum verkefnum sem auka eiga samstarf og þekkingu almennings á vestnorrænu löndunum, en nánari útfærsla og framkvæmd þessara tillagna er í vinnslu.

IV. Ráðstefna um veiðimennsku.
    Ráðstefnan um veiðimennsku sem haldin var á Akureyri dagana 11.–14. júní. sl. var vel sótt og þótti einkar vel heppnuð. Við skipulagningu ráðstefnunnar kappkostaði Íslandsdeild, forsætisnefnd og framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins að fá gesti úr sem flestum áttum til að sækja ráðstefnuna og flytja erindi. Veiðimenn, vísindamenn, náttúruverndarsinnar, stjórnmálamenn og aðrir sem sinna veiði og nýtingu lífríkis landanna voru sérstaklega boðnir svo að opin og gagnrýnin umræða mætti skapast ólíkra hópa á milli. Þrjú stór mál voru tekin fyrir á ráðstefnunni. Í fyrsta lagi var fjallað um framtíðarhorfur hins vestnorræna veiðimannasamfélags og stað þess í nútímanum, í öðru lagi var fjallað um tengsl veiðimennsku og ferðamannaiðnaðar og í þriðja lagi um alþjóðlegar umhverfisstofnanir og náttúruvernd og tengsl þeirra við vestnorrænan veruleika. Fjölmargir fyrirlesarar frá löndunum öllum tóku til máls og gerðu grein fyrir viðhorfum sínum.
    Veiði hefur ætíð skipað stóran sess á Vestur-Norðurlöndum og hefðir og lifnaðarhættir veiðimennsku einkenna löndin öll. Veiðimennska landanna er merki um þau nánu tengsl manns og náttúru sem þar ríkja og í löndunum hefur þróast veiðimenning sem sker sig á ýmsan hátt úr á alþjóðlegum vettvangi. Þessi menning snýr ekki eingöngu að þeim háttum, aðferðum og tækni sem einkennt hafa vestnorræna veiðimenn að störfum um aldir, heldur nær til mun víðtækari menningarlegra þátta eins og t.d. fjölbreytilegrar notkunar skinna og matargerðarlistar. Það er því sérstakt áhersluatriði landanna allra að varðveita vitneskju og auka þekkingu umheimsins á veiðimennsku og veiðimenningu. Ráðstefnan á Akureyri var einn liður í að halda á lofti þessu sérstæða einkenni Vestur-Norðurlanda, en fleiri viðburðir eru ráðgerðir á næsta ári til að ljá málinu lið.

V. Ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Ársfundur ráðsins var haldinn í Nuuk dagana 10.–14. september. Þá var kosin ný forsætisnefnd ráðsins. Hana skipa Hjálmar Árnason, formaður Vestnorræna ráðsins og varaformaður Íslandsdeildar, Jógvan Durhuus, fyrsti varaformaður, og Ole Lynge, annar varaformaður. Sem nýkjörinn formaður ráðsins lagði Hjálmar Árnason í ræðu sinni sérstaka áherslu á að samkomulag samstarfsráðherra Vestur-Norðurlanda um eftirfylgni og upplýsingaflæði varðandi ályktanir ráðsins yrði undirritað sem fyrst. Auk þess fjallaði hann um ýmsa þætti vestnorrænnar samvinnu og leiðir til að efla þá vinnu, einkum á sviði menningarmála, íþrótta- og æskulýðsstarfs.
    Sérstakir gestir fundarins voru Klaus Nygaard, vísindamaður hjá náttúrufræðistofnuninni í Nuuk, Jonathan Motzfeldt, formaður grænlensku landstjórnarinnar og Amalie Jessen, embættismaður heimastjórnarinnar í umhverfismálum, og voru líflegar umræður um erindi þeirra.
    Á ársfundinum voru allar framlagðar tillögur, þrjár samtals, samþykktar sem ályktanir. Í fyrstu ályktun er skorað á ríkis- og landstjórnir landanna að halda alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á Vestur-Norðurlöndum. Þátttakendur ráðstefnunnar skulu koma úr mismunandi áttum, þar á meðal verði stjórnmálamenn, vísindamenn, leikmenn og ólík hagsmunasamtök, svo sem dýra- og náttúruverndarsamtök. Í annarri ályktun er skorað á ríkis- og landstjórnir landanna að efna til samstarfs um heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda svo að þekking á þessari sameiginlegu arfleifð gleymist ekki. Í þriðju ályktun er skorað á ríkis- og landstjórnir landanna að koma á fót níu manna vestnorrænni samstarfsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda, með þremur fulltrúum frá hverju landi, þar sem löndin skiptast á upplýsingum og læra af reynslu hvers annars á mismunandi sviðum auðlindanýtingar. Ályktanirnar voru allar samþykktar samhljóða og liggja nú fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögur.
    Fundurinn fagnaði nýfenginni áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að þingmannanefnd um norðurskautsmál, en sú aðild var samþykkt á fundi þingmannanefndarinnar á Akureyri í ágúst sl. Ljóst er að málefni Vestur-Norðurlanda og málefni annarra ríkja við norðurskaut skarast á margvíslegan hátt og því ætti náið samstarf að vera beggja hagur.
    Það setti svip sinn á setningu fundarins hinn 11. september sl. að fréttir höfðu þá nýlega borist af hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. Upphafi fundar var frestað um tvo klukkutíma og síðar var hinna látnu minnst með þögn fundargesta. Að auki samþykkti fundurinn að senda sérstakt bréf til forseta Bandaríkjanna þar sem Vestnorræna ráðið vottaði Bandaríkjamönnum hryggð sína og hlutdeild.

VI.    Fundir forsætisnefndar með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forstöðumönnum Norrænu húsanna.
    Fundir forsætisnefndar með ráðherrum Vestur-Norðurlanda þóttu einkar árangursríkir að þessu sinni og gáfu tækifæri til að fylgja á eftir ýmsum áhersluatriðum sem rædd höfðu verið á ársfundi ráðsins. Hjálmar Árnason sótti fundina sem formaður Vestnorræna ráðsins.
    Af fundunum mætti fyrst nefna að samstarfsráðherrar landanna samþykktu að skrifa undir yfirlýsingu sem tryggja á betra upplýsingaflæði og eftirlit með framkvæmd ályktana Vestnorræna ráðsins. Áður en skrifað verður undir vildu ráðherrarnir þó fínkemba orðalag samkomulagsins og því er formleg undirskrift ráðgerð síðar á þessu ári. Eins og komið hefur fram er þetta mál sem Íslandsdeild hefur lagt sérstaka áherslu á.
    Á fundi með menntamálaráðherrum landanna lýstu ráðherrar yfir stuðningi sínum við vestnorræn bókmenntaverðlaun fyrir barna- og unglingabækur, en Vestnorræna ráðið samþykkti árið 1999 að efna til slíkra verðlauna. Verðlaunin skulu veitt annað hvert ár og ein bók er útnefnd í hverju landi. Ráðuneyti landanna ábyrgðust að sjá um og borga allar þýðingar á verkunum sem tilnefnd væru. Menntamálaráðherrarnir sögðu einnig frá ýmiss konar ánægjulegu samstarfi, svo sem í tölvumálum grunnskóla, íþróttamótum, ráðstefnu vestnorrænna ungmennahreyfinga og öðru slíku. Þeir sögðu margt vera að gerast á þessu sviði og væri það ekki síst ályktunum Vestnorræna ráðsins að þakka.
    Fundur með félagsmála- og heilbrigðisráðherrum landanna var einnig vel heppnaður. Samstarf landanna þriggja á þessu sviði hefur nokkuð aukist frá því á kvennaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn og sögðust ráðherrarnir stefna að meiri samvinnu í framtíðinni.
    Á sérstökum fundi með forstöðumönnum Norrænu húsanna var farið yfir stöðu mála varðandi veiðimenningarsýningu sem opnuð verður á vegum Vestnorræna ráðsins hinn 15. júní 2002 í Þórshöfn. Undirbúningur gengur mjög vel og tölvulíkan af sýningunni mæltist vel fyrir. Ráðgert er að sýningin verði sett upp í ýmsum norðlægum löndum og margir hafa sýnt verkefninu áhuga og stuðning. Sýningin er þegar bókuð á öllum Norðurlöndum, sem og á Írlandi, Skotlandi og víðar. Eystrasaltsríkin hafa einnig veitt sýningunni athygli en enn er ekki ljóst hvort af uppsetningu verður þar.
    Að lokum má nefna að samhliða fundum efndi forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins til blaðamannafundar vegna útgáfu bókarinnar „Viljen til Vestnorden“. Í þessari stuttu og handhægu bók, undir ritstjórn Ole Lindboe og Ernst Olsen, er að finna margvíslegar ritgerðir og vangaveltur um vestnorrænu löndin og einkenni þeirra. Bókinni er ætlað að vekja athygli á sameiginlegum einkennum vestnorrænu landanna og vekja umræðu um stöðu þeirra. Forsætisnefnd og Ole Lindboe sátu fyrir svörum á vel sóttum blaðamannafundi um bókina, en bókinni hefur m.a. verið dreift til bókasafna og skóla hérlendis.

VII.     Verkefni Vestnorræna ráðsins 2002.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins verður haldin í Þórshöfn dagana 13.–14. júní nk. og mun að þessu sinni verða fjallað um samgöngumál landanna. Samgöngur landanna á milli eru, eins og vitað er, bæði dýrar og stopular og ráðstefnunni er ætlað að kanna frá sem flestum sjónarhornum hvaða úrbætur koma til greina í þessum málaflokki. Íslandsdeild hefur þegar hafið undirbúning að framlagi Íslands til ráðstefnunnar og hafið viðræður við ýmsa aðila hérlendis sem lagt gætu málefninu lið. Veiðimenningarsýning ráðsins verður svo sett við hátíðlega athöfn í Þórshöfn hinn 15. júní nk.
    Eins og fram hefur komið samþykkti Vestnorræna ráðið fyrir nokkrum árum að efna til verðlauna fyrir barna- og unglingabækur og í ár verða verðlaunin veitt í fyrsta sinn. Verðlaunin eru að upphæð 60.000 danskar krónur og meginmarkmið þeirra er að styðja við bókmenntahefð Vestur-Norðurlanda og hvetja barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu, og gert er ráð fyrir því að bækurnar komi að gagni í fræðslu- og skólastarfi landanna. Fyrirhugað er að veita verðlaunin við hátíðlega athöfn á ársfundi Vestnorræna ráðsins hérlendis í ágúst komandi, en Íslandsdeild vinnur nú að undirbúningi fundarins.

VIII.    Yfirlit yfir ályktanir sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi sínum í Nuuk, Grænlandi, 10.–14. september 2001.
     *      Ályktun um að halda alþjóðlega ráðstefnu um sjálfbæra þróun og nýtingu lífríkis á Vestur-Norðurlöndum.
     *      Ályktun um samvinnu við heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda.
     *      Ályktun um að koma á fót vestnorrænni samstarfsnefnd um nýtingu náttúruauðlinda.

Alþingi, 15. febr. 2002.



Einar Oddur Kristjánsson,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Guðmundur Hallvarðsson.



Gísli S. Einarsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Kjartan Ólafsson.