Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 889  —  406. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Skjaldarson og Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti og Björgu Thorarensen frá dómsmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd tvo alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum. Annars vegar er það alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. desember 1997 og hins vegar alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 9. desember 1999.
    Markmið alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkasprengingum og stefnir að því að refsiviðurlögum verði komið yfir þá sem fremja hryðjuverk með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum, t.d. útbreiðslu eiturefna eða smitandi sjúkdóma, geislavirkni og öðrum áþekkum aðferðum.
    Markmið alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkum og fjölga úrræðum til þess að unnt verði að koma fram refsiviðurlögum gagnvart þeim sem fjármagna hryðjuverkastarfsemi.
    Fullgilding samninganna kallar á lagabreytingar á Íslandi. Fyrir nefndina hefur verið lagt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á almennum hegningarlögum sem ætlað er að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt samningunum (þskj. 687, 427. mál). Nefndin vekur athygli á því að svo virðist sem b-liður 2. gr. frumvarpsins gangi lengra en 2. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem birtur er sem fylgiskjal II með þingsályktunartillögunni. Skv. 2. gr. samningsins er skilyrði refsinæmis að ásetningur þess sem leggur fram fé til samtaka hafi staðið til að styrkja afbrotastarfsemi þeirra. Hins vegar virðist í frumvarpinu gert ráð fyrir að refsivert geti talist að leggja fram fé til samtaka án þess að ásetningur hafi staðið til að styrkja tiltekna brotastarfsemi. Mælist nefndin til að þetta verði skoðað nánar við meðferð málsins í allsherjarnefnd.
    Nefndin mælir með að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 21. febr. 2002.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Vilhjálmur Egilsson.



Steingrímur J. Sigfússon.


Kristján Pálsson.


Jónína Bjartmarz.