Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 996  —  427. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns (hryðjuverk).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Thorarensen frá dómsmálaráðuneyti, Þóri Oddsson og Jón H. Snorrason frá ríkislögreglustjóra, Ingimund Einarsson og Egil Stephensen frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Jónas Magnússon og Gils Jóhannsson frá Landssambandi lögreglumanna, Þorleif Pálsson frá Sýslumannafélagi Íslands og Boga Nilsson ríkissaksóknara.
    Umsagnir um málið bárust frá ríkissaksóknara, Flugmálastjórn og lögreglustjóranum í Reykjavík.
    Með frumvarpinu eru gerðar nauðsynlegar breytingar á refsilögum til að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt þremur alþjóðasamþykktum á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum. Þetta eru alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997, alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999 og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 frá 28. september 2001.
    Hugtaksins hryðjuverk er hvergi getið í íslenskum refsilögum sem sjálfstæðs refsiverðs verknaðar en með frumvarpinu er lagt til að verknaðurinn hryðjuverk verði skilgreindur í almennum hegningarlögum. Þá er lagt til að hryðjuverk verði talin til alvarlegustu afbrota auk þess sem fjárhagslegur stuðningur við hryðjuverkastarfsemi verði gerður sjálfstætt refsivert brot. Jafnframt er lagt til að lögfest verði heimild til að refsa lögaðila fyrir slík brot sem framin eru í starfsemi þeirra. Einnig eru settar skýrari reglur um refsiábyrgð vegna hlutdeildar og loks er lagt til að refsilögsaga íslenska ríkisins verði rýmkuð vegna þessara brota.
    Nefndin ræddi sérstaklega saknæmisskilyrði frumvarpsins og telur rétt að taka fram að 18. gr. almennra hegningarlaga, þar sem tilgreind eru saknæmisskilyrðin fyrir hegningarlögin sjálf, mun einnig gilda um þau ákvæði frumvarpsins sem breyta þeim lögum. Skv. 18. gr. er ásetningur ætíð áskilinn svo að verknaður teljist saknæmur og eingöngu skal refsa fyrir gáleysisbrot ef lögin heimila það sérstaklega. Þar sem frumvarpið tekur ekki á gáleysi verður refsingu ekki beitt vegna hryðjuverka nema ásetningur sé fyrir hendi. Ásetningsskilyrðið á því jafnframt við um b-lið 2. gr. frumvarpsins. Nefndin lítur þannig á að frumvarpinu sé ekki ætlað að ganga lengra en fyrrnefndur alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi eins og ráða má af athugasemdum með greininni. Verknaður sem felst í því að láta fjármagn renna til lögmætrar starfsemi á sviði menningar-, mannréttinda- og mannúðarmála getur því aldrei talist refsiverður þó að samtök sem taki við fjármagninu gerist sek um hryðjuverk, svo verður eingöngu ef það er ásetningur viðkomandi til að fjármagnið renni til slíkra verka.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGUM:

    Við 2. gr.
          a.      Í stað orðanna „183. gr.“ í 5. og 6. tölul. a-liðar (100. gr. a) komi: 165. gr.
          b.      Í stað orðanna „í allt að 10 ár“ í b-lið (100 gr. b) komi: allt að 10 árum.

    Katrín Fjeldsted var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara við skilgreiningu á hryðjuverkum.

Alþingi, 18. mars 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Kjartan Ólafsson.



Ólafur Örn Haraldsson.


Stefanía Óskarsdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.



Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Dóra Líndal,


með fyrirvara.