Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1012  —  378. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að rekstur vatnsveitna sé hluti af þjónustuskyldum sveitarfélaga á sínu sviði eftir því sem aðstæður leyfa. Minni hlutinn er algerlega andvígur því að taka nokkur skref í átt til mögulegrar einkavæðingar slíkrar þjónustustarfsemi. Reynslan af slíkri einkavæðingu veitustarfsemi er slæm erlendis. Starfsemin lýtur eðli málsins samkvæmt lögmálum náttúrulegrar einokunar, enda fá dæmi þess ef nokkur að fleiri en einn aðili starfræki aðveitu- og dreifikerfi á sama svæði. Eðlilegast er að slík starfsemi sé rekin beint af viðkomandi sveitarfélagi, eða þá sem byggðasamlag eða sameignarfélag fleiri sveitarfélaga. Þessi þjónustustarfsemi á ekkert erindi inn í hlutafélög með aðra starfsemi, sem e.t.v. verður í eigu mismunandi aðila. Geta þá augljóslega orðið árekstrar við ákvæði 4. gr. laganna um að sveitarfélag sé eigandi vatnsveitu þess. Sem dæmi má taka að sameinað veitu- og orkufyrirtæki eins sveitarfélags sé keypt af eða sameinað öðru fyrirtæki í blandaðri eigu. Vissulega er mikilvægt að ekki stendur til að breyta áðurnefndu ákvæði 4. gr. laganna en minni hlutinn treystir sér eftir sem áður ekki til að styðja breytinguna skv. 1. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. gr. um að eiganda vatnsveitu sé heimilt að áskilja sér allt að 7% arð er einnig umdeilanlegt. Sé litið á vatnsveitu sem þjónustustarfsemi sveitarfélags er mikið álitamál hvers vegna sveitarfélögin eigi að taka til sín fé gegn greiðslu þjónustugjalda notendanna. Ef menn hins vegar nálgast málið frá þeim sjónarhóli að um fyrirtækjarekstur sé að ræða þá má færa fyrir því rök samræmis vegna að eðlilegt sé að eigandinn áskilji sér arð af því fé sem bundið er í viðkomandi fyrirtæki.
    Minni hlutinn telur að eðlilegast væri að ganga þannig frá málum og það með skýrum hætti í lögum að veitustarfsemi af þessum toga sé verkefni sveitarfélaga og rekstrarformið skuli taka mið af því. Séu vatnsveitur hluti af starfsemi fyrirtækja eða stofnana með aðra starfsemi skuli undanskilja þær ef þau fyrirtæki eru hlutafélagavædd, svo ekki sé nú talað um einkavædd.
    Minni hlutinn mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. mars 2002.



Steingrímur J. Sigfússon.