Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1056  —  253. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fasteignakaup.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Thorarensen frá dómsmálaráðuneyti, Viðar Má Matthíasson, prófessor við Háskóla Íslands, Sigurð Líndal, Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins, Guðrúnu Árnadóttur og Björn Þorra Viktorsson frá Félagi fasteignasala, Magnús Sædal byggingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, Berg Hauksson og Garðar Friðjónsson frá Þyrpingu, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Frey Jóhannesson og Ingvar Sveinbjarnarson frá Matsmannafélagi Íslands, Sigurð Helga Guðjónsson frá Húseigendafélaginu, Erlend Gíslason frá Lögmannafélagi Íslands, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökunum, Guðmund B. Helgason og Guðmund Sigþórsson frá landbúnaðarráðuneyti, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Ársæl Hafsteinsson frá Búnaðarbanka Íslands hf. Þá var haldinn símafundur með Gunnari Sverrissyni skoðunarmanni í Noregi.
    Umsagnir um málið bárust frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Félagi fasteignasala, Arkitektafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Fasteignamati ríkisins, Samtökum iðnaðarins, Matsmannafélagi Íslands, Húseigendafélaginu og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Á Íslandi gilda ekki sérstök lög um fasteignakaup. Reglum um lausafjárkaup og almennum reglum kröfuréttar hefur verið beitt með ýmsum hætti eftir því sem við hefur átt en sú réttaróvissa hefur sætt gagnrýni á síðustu árum og hafa kostnaðarsöm málaferli verið algeng. Við samningu frumvarpsins var tekið mið af lögum um lausafjárkaup enda ótvíræður kostur að samræmi sé milli reglna um lausafjárkaup og fasteignakaup. Þau lög voru að norskri fyrirmynd og var því talið rétt að hafa norsk lög á þessu sviði jafnframt til hliðsjónar.
    Efni reglna frumvarpsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi lúta ákvæði þess að réttarsambandi kaupanda og seljanda. Um er að ræða kröfuréttarlegar reglur sem einkum mæla fyrir um skyldur kaupanda og seljanda og hverju það varði ef þær eru ekki efndar. Í öðru lagi eru reglur um ástandsskýrslur sem er algert nýmæli í íslenskri löggjöf.
    Frumvarpið skiptist í níu kafla. Í I. kafla er að finna almenn ákvæði sem eru öll nýmæli, svo sem skilyrði neytendakaupa, krafa um skriflegt form, fyrirvara í fasteignakaupum og réttaráhrif hans, tilkynningarskyldu og fresti vegna forkaupsréttar. Með II. kafla sem fjallar um afhendingu o.fl. er að mestu verið að lögfesta reglur sem gilt hafa í fasteignaviðskiptum. Sama gildir um III. kafla um eiginleika fasteigna, galla, fylgifé o.fl. að frátöldum nokkrum ákvæðum, svo sem skilgreiningu á gallahugtakinu, skilyrðinu um að galli þurfi að rýra verðmæti fasteignar svo nokkru varði, ítarlegri reglum um fylgifé og skilgreiningu á þýðingu almennra fyrirvara í fasteignakaupum. Þá eru reglur í IV. kafla um vanefndaúrræði kaupanda, V. kafla um vanefndaúrræði seljanda, VI. kafla um sameiginleg ákvæði um fyrirsjáanlegar vanefndir og VII. kafla um sameiginleg ákvæði um skaðabætur og vexti nýmæli þótt efni þeirra sé í flestum tilvikum sniðið að reglum laga um lausafjárkaup. VIII. kafli um ástandsskýrslur er eins og fyrr greinir algert nýmæli. Í IX. kafla er að finna gildistökuákvæði og breytingar á öðrum lögum.
    Nefndin vill vekja athygli á prentvillu í athugasemdum með 2. mgr. 49. gr. en greinin fjallar að sjálfsögðu um úrræði seljanda en ekki kaupanda.
    Nefndin lítur svo á að afar brýnt sé að lögfesta reglur um fasteignakaup til að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur á þessu sviði og telur að málaferlum muni fækka í kjölfarið. Nefndin mælir því með að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi telur nefndin heppilegra að fjallað verði um greiðslumark bújarðar sem fylgifé fasteignar samfara endurskoðun á jarðalögum sem nú á sér stað í landbúnaðarráðuneytinu og leggur því til að 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins falli brott. Þá ræddi nefndin ítarlega reglur VIII. kafla frumvarpsins um ástandsskýrslur. Nefndinni bárust ábendingar um þær sem hún telur þurfa frekari skoðunar við og m.a. þurfi að kanna nánar reynslu af slíkum skýrslum annars staðar á Norðurlöndunum. Nefndin leggur því til að VIII. kafli frumvarpsins falli brott. Hins vegar telur nefndin reglurnar afar áhugaverðar og er sammála um að þær eigi að koma til umfjöllunar hjá nefndinni strax á næsta þingi. Þá er lagt til að lögin taki eingöngu til þeirra samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra. Loks leggur nefndin til smávægilegar orðalagsbreytingar og nokkrar breytingar vegna brottfalls VIII. kafla.
    Jónína Bjartmarz og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 25. mars 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Katrín Fjeldsted.



Stefanía Óskarsdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.