Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1062  —  363. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur, Benedikt Árnason og Hrafnkel Óskarsson frá viðskiptaráðuneyti, Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands, Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Jón H.B. Snorrason og Helga Magnús Gunnarsson frá ríkislögreglustjóranum, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Helgu Hlín Hákonardóttur frá Íslandsbanka og Ólaf Arinbjörn Sigurðsson frá Verðbréfaþingi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Verslunarráði Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, ríkislögreglustjóranum, Verðbréfaþingi Íslands, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að taka af allan vafa um það að þeim sem búa yfir trúnaðarupplýsingum (innherjum) sé óheimilt að afla verðbréfa eða ráðstafa þeim verðbréfum sem trúnaðarupplýsingarnar tengjast, óháð því hvort um ásetnings- eða gáleysisbrot er að ræða. Í því skyni er lagt til að í stað núgildandi ákvæðis 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, um að innherjum sé óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfa, komi ákvæði þess efnis að innherjum sé óheimilt að afla eða ráðstafa verðbréfum, fyrir eigin reikning eða annarra, búi þeir yfir trúnaðarupplýsingum.
    Frumvarpið er lagt fram í tilefni af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. október 2001, en þar var talið að fyrrgreint ákvæði laga um verðbréfaviðskipti yrði ekki skilið öðruvísi en svo að í því væri áskilinn beinn og eindreginn ásetningur.
    Í meðferð nefndarinnar á frumvarpinu vakti það athygli að ekki er tekið afdráttarlaust fram í frumvarpstextanum að gáleysi nægi til sakfellingar samkvæmt ákvæðinu. Með hliðsjón af því leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu þess efnis að bætt verði við það ákvæði um saknæmisskilyrði sem verði 4. mgr. 69. gr. laganna. Þar verði tekið afdráttarlaust fram að brot gegn lögunum varði refsingu, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Nefndin ræddi einnig töluvert um framvirka samninga og hvort rétt væri að setja sérstakt undantekningarákvæði í lögin vegna þeirra. Niðurstaða nefndarinnar var að ekki væri ástæða til þess. Nefndin tekur þó fram að efnd á framvirkum samningi sem hefur verið gerður með lögmætum hætti getur aldrei talist brot á meðferð trúnaðarupplýsinga, þ.e. framkvæmd framvirks samnings sem er fyrir fram ákveðinn og bindandi og gerður hefur verið áður en viðkomandi fékk í hendur trúnaðarupplýsingar varðar ekki refsingu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Við bætist ný grein sem verði 2. gr., svohljóðandi:
    Við 69. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Brot gegn lögum þessum varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Össur Skarphéðinsson, Gunnar Birgisson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ragnheiður Hákonardóttir.



Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.