Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1063  —  454. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um rafeyrisfyrirtæki.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur, Benedikt Árnason og Hrafnkel Óskarsson frá viðskiptaráðuneyti, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Hallgrím Ásgeirsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Stefán Jón Friðriksson frá Icepro. Umsagnir bárust um málið frá Verslunarráði Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Persónuvernd, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum atvinnulífsins, Fjármálaeftirlitinu, Icepro og Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða í íslenskan rétt tilskipanir 2000/46/EB um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim og 2000/28/EB um breytingu á tilskipun 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana, báðar frá 18. september 2000. Bankalaganefnd sem nú er að störfum hyggst leggja til að ákvæði um rafeyrisfyrirtæki verði hluti af frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki sem fyrirhugað er að leggja fram á næsta löggjafarþingi, en þar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða tilskipanirnar tvær fyrir 27. apríl nk. er nauðsynlegt að afgreiða frumvarpið fyrir þann tíma þó svo að lög um rafeyrisfyrirtæki komi líklega ekki til með að vera lengi í gildi í því formi sem hér er lagt til.
    Með ákvæðum frumvarpsins er kveðið á um stofnun, starfsemi, rekstur o.fl. í tengslum við rafeyrisfyrirtæki, en það eru lögpersónur sem hafa heimild til að gefa út greiðslumiðil í formi rafeyris. Samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. frumvarpsins er með rafeyri átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda, sem eru geymd á rafrænum miðli og gefin út í skiptum fyrir fjárhæð, sem er ekki lægri en hin útgefnu peningalegu verðmæti, og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.
    Nefndin telur að notkun rafeyris eigi eftir að aukast verulega og loks koma í stað smámyntar sem greiðslumiðill við greiðslu lágra upphæða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Össur Skarphéðinsson, Gunnar Birgisson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ragnheiður Hákonardóttir.



Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.