Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1064  —  489. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur, Benedikt Árnason og Hrafnkel Óskarsson frá viðskiptaráðuneyti, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Hallgrím Ásgeirsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Stefán Jón Friðriksson frá Icepro og Önnu Birnu Halldórsdóttur frá Samkeppnisstofnun. Umsagnir bárust um málið frá Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Persónuvernd, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Icepro og Samkeppnisstofnun.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“). Tilskipunin miðar að því að tryggja að meginreglan um frjálst flæði þjónustu gildi einnig um rafræna þjónustu, þ.e. að unnt verði að veita þjónustuna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu svo framarlega sem hún fullnægir lögum upprunalands. Tilskipunin hefur að geyma ákveðin lágmarksákvæði sem þeir sem hyggjast veita þjónustuna þurfa að fullnægja, en með rafrænni þjónustu er samkvæmt skilgreiningu í frumvarpinu átt við þjónustu sem almennt er veitt gegn greiðslu, úr fjarlægð, með rafrænum hætti að beiðni þjónustuþega.
    Nefndin ræddi töluvert um tölvumarkpóst (óumbeðnar viðskiptaorðsendingar í tölvupósti skv. 5. tölul. 4. gr. frumvarpsins) við meðferð málsins og aflaði sér m.a. upplýsinga um bannskrár Hagstofunnar. Þá voru nefndinni látnar í té þær upplýsingar að ákvæði laga um tölvumarkpóst væru nú í skoðun í viðskiptaráðuneytinu með tilliti til þróunar í Evrópu á þessu sviði.
    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu. Þær eru þessar:
     1.      Í lokamálsgrein 6. gr. frumvarpsins segir að sé verð rafrænnar þjónustu gefið upp skuli sérstaklega tekið fram hvort skattar og afhendingarkostnaður felist í verði. Þar er um að ræða beina innleiðingu á 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Nefndin telur það of mikla byrði fyrir þjónustuveitendur að skoða skattlagningu í öllum löndum sem þeir beina þjónustu sinni til með hliðsjón af því að veita ávallt upplýsingar um þá skatta sem féllu á þjónustuna, en telur neytendavernd nægilega tryggða með því að gefið verði upp hvort skattar felist í verði þegar markaðssetning beinist eingöngu að íslenskum neytendum og leggur til breytingu á ákvæðinu þess efnis.
     2.      Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um skilyrði þess að rafrænn samningur sé aðgengilegur. Í 3. tölul. 9. gr. segir hins vegar að veittar skuli upplýsingar um „hvort“ samningur verði aðgengilegur. Ef sett er skilyrði skv. 8. gr. telur nefndin eðlilegt að jafnframt verði tilgreint „hvernig“ slíkur samningur sé aðgengilegur og gerir breytingartillögu þess efnis.
     3.      Loks leggur nefndin til að ákvæði um að skylt sé að það komi fram með ótvíræðum hætti strax við móttöku að um markpóst sé að ræða bætist við 4. mgr. 28. gr. laga um persónuvernd í stað 2. mgr. sömu greinar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Össur Skarphéðinsson, Gunnar Birgisson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ragnheiður Hákonardóttir.



Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.