Ferill 594. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1148  —  594. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti og Þóreyju Þorsteinsdóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Umsagnir bárust frá Verslunarráði Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, Landssamtökum lífeyrissjóða og Bandalagi háskólamanna.
    Aðalmarkmið frumvarpsins er að lögfesta ákvæði um þau viðmið sem stjórn sjóðsins hefur haft varðandi ákvörðun um laun til greiðslu lífeyris þegar sömu laun eru ekki samanburðarhæf við greiðslu iðgjalda til sjóðsins og varðandi það hvenær barna- og makalífeyrisréttur sjóðfélaga verður virkur, en dregið hefur verið í efa að fullnægjandi lagastoð hafi verið fyrir þeirri framkvæmd sem hefur tíðkast.
    Nefndin bendir á að í athugasemdum við frumvarpið segir í umfjöllun um 1. gr. að algengt sé að kennarar taki sér launalaust leyfi sem vari í tólf mánuði og telur eðlilegra að orða setninguna á þann veg að algengt sé að kennarar láti tímabundið af störfum í tólf mánuði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Hjálmar Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.