Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1206  —  684. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðild að Kýótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Hauksdóttur frá utanríkisráðuneyti og Halldór Þorgeirsson frá umhverfisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að Kýótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 9. maí 1992 sem gerð var 10. desember 1997.
    Markmið Kýótó-bókunarinnar er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og kveður bókunin á um að aðildarríkin skuli draga úr útstreymi tiltekinna gróðurhúsalofttegunda, miðað við útstreymi eins og það var árið 1990, á skilgreindum tímabilum. Fyrsta skuldbindingartímabilið er fimm ár, 2008–2012, og verða þau ríki sem getið er í I. viðauka við rammasamninginn að takmarka sameiginlega og hvert um sig útstreymi þeirra gróðurhúsalofttegunda sem skráðar eru í viðauka A við bókunina þannig að samanlagt árlegt útstreymi þeirra á fyrsta skuldbindingartímabilinu verði að meðaltali 5,2% minna en viðmiðunarárið 1990.
    Umhverfisráðuneytið telur að aðild Íslands að bókuninni kalli ekki á lagabreytingar hér á landi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman rita undir álitið með fyrirvara.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.


Vilhjálmur Egilsson.


Þuríður Backman,


með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.