Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1213  —  596. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Neytendasamtökunum, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Fjármálaeftirlitinu og Verslunarráði Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða í samkeppnislög ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 659/1999 sem kveður á um endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Gert er ráð fyrir að ólögmæt ríkisaðstoð verði endurgreidd til ríkissjóðs með vöxtum. Frumvarpið felur jafnframt í sér að í stað viðskiptaráðherra verði fjármálaráðherra heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð til aðila hér á landi.
    Nefndin bendir á að í 14. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 659/1999 segir að ekki skuli krafist endurgreiðslu ríkisaðstoðar ef það stríði gegn einhverju grundvallaratriði í bandalagslögum. Þar er jafnframt að finna ákvæði sem tekur á endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar. Þar segir að framkvæmdastjórnin skuli ákveða hæfilega vexti við slíkar aðstæður, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA taki ákvörðun um vexti. Í 11. gr. reglugerðarinnar kemur svo fram að unnt sé að heimila að endurgreiðsla ríkisaðstoðar sé tengd greiðslu björgunaraðstoðar („restructuring aid“) til hlutaðeigandi fyrirtækis, en slík aðstoð er eingöngu veitt einu sinni til skamms tíma í senn. Nefndin bendir jafnframt á að hér er um að ræða úrræði sem þarf að beita með varkárni þar sem ætlunin er ekki og á ekki að vera sú að gera fyrirtæki gjaldþrota eða koma þeim í fjárhagslega örðugleika þegar ríkisaðstoð hefur ranglega verið veitt.
    Nefndin leggur til smávægilega breytingu á frumvarpinu þess efnis að í 2. gr. verði notað hugtakið „stjórnvöld“ í stað hugtaksins „hlutaðeigandi stjórnvald“ til þess að enginn vafi leiki á að það sé hlutverk íslenska ríkisins sem slíks en ekki einstakra stofnana þess að afgreiða mál um ólögmæta ríkisaðstoð.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „skal hlutaðeigandi stjórnvald“ í 1. málsl. efnismálsgreinar 2. gr. komi: skulu stjórnvöld.

Alþingi, 11. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.