Ferill 33. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1215  —  33. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um óhefðbundnar lækningar.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástríði Svövu Magnúsdóttur, formann Félags íslenskra græðara, Dagnýju Einarsdóttur, formann Organon, fagfélags íslenskra smáskammtalækna, Ríkharð Jósafatsson frá Acupunktúrfélagi Íslands, Kolbrúnu Björnsdóttur grasalækni, Hauk Valdimarsson aðstoðarlandlækni, Sigurbjörn Sveinsson, formann Læknafélags Íslands, og Guðríði Þorsteinsdóttur og Svein Magnússon frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá landlækni, Elsu Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi, Ólafi H. Oddssyni, héraðslækni Norðurlands eystra og vestra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Hollustuvernd ríkisins, MS-félaginu, Félagi íslenskra framhaldsskóla, Tryggingastofnun ríkisins, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, tóbaksvarnanefnd, Landssambandi eldri borgara, Önnu Rósu Róbertsdóttur og Kolbrúnu Björnsdóttur grasalæknum, Lyfjafræðingafélagi Íslands, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Félagi íslenskra nuddara, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Félagi höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Félagi íslenskra græðara, Kírópraktorafélagi Íslands, héraðslækni Reykjavíkur, Læknafélagi Íslands, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Lyfjastofnun, Sálarrannsóknarfélagi Íslands, Lífsskólanum sf., Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Organon, fagfélagi íslenskra smáskammtalækna, fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga, menntamálaráðuneytinu, Öryrkjabandalagi Íslands og ríkisskattstjóra.
    Nefndin telur brýnt að ráðist verði í þá vinnu sem tillaga þessi gerir ráð fyrir. Ljóst er að svokallaðar óhefðbundnar lækningar eru stundaðar hér á landi í talsverðum mæli með þegjandi samþykki yfirvalda. Það skortir tilfinnanlega regluramma um þessa starfsemi svo að unnt sé að hafa eftirlit með henni og vernda hagsmuni notenda þessarar þjónustu sem og starfsöryggi og heiður þeirra sem sannanlega hafa aflað sér þekkingar til að veita hana. Segja má að þessi starfsemi hafi hingað til farið fram í einhvers konar lagalegu tómarúmi með afskiptaleysi yfirvalda og er mikilvægt að ráða bót á því vegna eðlis þjónustunnar. Áður en af því getur orðið verður þó að vinna ákveðna grunnvinnu. Tillaga þessi gengur út á að ráðist verði í þessa vinnu og þannig stigið fyrsta skrefið að því markmiði að mynda lagaramma utan um þessa starfsemi.
    Hugtakið óhefðbundnar lækningar er að mörgu leyti óljóst. Undir það falla mörg ólík meðferðarform og aðferðir. Í tillögugreininni eru nefndar nokkar aðferðir sem undir flokkinn falla en nefndin leggur áherslu á að sá listi er engan veginn tæmandi. Meðal aðferða sem eru nefndar eru hnykklækningar. Hnykkjar, eða kírópraktorar, njóta nokkurrar sérstöðu að því leyti að frá því 1990 hefur verið í gildi reglugerð um starfsemi þeirra og því telst aðferðin ekki óhefðbundin í þeim skilningi sem nefndin leggur í orðið. Nefndin leggur því til að hnykklækningar verði felldar út úr tillögugreininni. Engu að síður gerir nefndin ráð fyrir að þessi grein lækninga verði skoðuð með tilliti til skyldra meðferðarúrræða og þeirra menntunarkrafna sem gerðar eru. Nefndin vill koma þeirri afstöðu sinni á framfæri að ekki eigi að leggja áherslu á löggildingu starfsréttinda í þessum greinum heldur geti viðurkenning náms og réttinda verið nægjanleg í flestum tilvikum. Í slíkum viðurkenningum felst mikilvæg neytendavernd.
    Nefndin mælist til þess að sú nefnd sem skipuð verður, verði tillagan samþykkt, skoði hvort ekki megi finna heppilegra samheiti yfir þessar aðferðir en óhefðbundnar lækningar. Heitið er misvísandi bæði vegna þess að þessar aðferðir eru oft síður en svo óhefðbundnar en þó einkum vegna þess að orðið lækningar vísar um of til lækninga sem læknar með læknaleyfi hafa lögum samkvæmt einir heimild til að stunda.
    Nefndin telur að sá tímarammi sem nefndinni samkvæmt tillögunni er ætlaður sé of knappur enda fyrir mestu að vel sé að verki staðið. Nefndin leggur til að tímaramminn verði rýmkaður.
    Að öðru leyti tekur nefndin undir efni tillögunnar og þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með henni og leggur til að hún verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      Orðin „hnykklækningar (chiropractic)“ í 1. mgr. falli brott.
     2.      6. mgr. orðist svo:
             Nefndin skal skila skýrslu til Alþingis um framvindu mála 1. apríl 2003 og endanlegum niðurstöðum 1. október 2003.

    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. apríl 2002.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Ásta Möller.


Einar Oddur Kristjánsson.



Katrín Fjeldsted.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Þuríður Backman.



Margrét Frímannsdóttir.