Ferill 615. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1233  —  615. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu breytinga á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Minni hlutinn efast um ágæti þess að einkavæða alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl (INTELSAT) og setja jafnframt á stofn sérstaka eftirlitsstofnun, ITSO, til að fylgjast með því að hið nýja fyrirtæki haldi skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Ísland hefur átt aðild að samningnum frá árinu 1975 og hafa fjarskipti við útlönd tekið stakkaskiptum á þessum tíma. Þó rök geti verið fyrir því að einkaréttur INTELSAT verði afnuminn er ekki fyrirséð hvernig þróunin verður gagnvart fátækari ríkjum heimsins sem hafa hingað til reitt sig á INTELSAT, einkum eftir að 12 ára tímabilinu er lokið.
    Minni hlutinn gerir jafnframt athugasemdir við að eignarhluti Íslendinga í nýja fyrirtækinu verður eftir í Landssímanum hf. en svo sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin ekki enn horfið frá einkavæðingaráformum sínum, þrátt fyrir ósköpin sem yfir hafa gengið í málefnum fyrirtækisins og að ákveðin biðstaða sé komin í málið.

Alþingi, 17. apríl 2002.



Steingrímur J. Sigfússon.