Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1258  —  652. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Eiríksson og Ingva Hrafn Óskarsson frá dómsmálaráðuneyti, Ágúst Þór Jónsson verkfræðing, Óla H. Þórðarson frá Umferðarráði, Ingimund Einarsson frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Rögnvald Jónsson frá Vegagerðinni, Birgi Hákonarson, Vigfús Erlendsson og Skúla Bjarnason frá Skráningarstofunni hf., Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þóri Oddsson frá ríkislögreglustjóra, Ágúst Mogensen frá rannsóknarnefnd umferðarslysa og Guðbrand Bogason frá Ökukennarafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á ákvæðum umferðarlaga sem fjalla um stjórnsýslu bifreiðamála. Með þeim skal komið á heildstæðu skipulagi á stjórnsýslu umferðarmála með því að sameina verkefni Skráningarstofunnar hf. og Umferðarráðs og ýmis verkefni dómsmálaráðuneytisins og fela þau einni stofnun sem fái heitið Umferðarstofnun. Til að tryggja markvissari framkvæmd umferðaröryggismála er talið nauðsynlegt að sameina á einum stað málefni ökutækja, umferðarfræðslu og umferðaröryggis og önnur verkefni sem tengjast ökutækjum og umferð. Í öðru lagi lúta breytingarnar að ákvæðum laganna um skilyrði fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis og að komið verði á svokölluðu akstursmati með það að markmiði að auka kröfur til ungra ökumanna.
    Nefndin ræddi sérstaklega skilyrði frumvarpsins um að umsækjandi fullnaðarskírteinis hafi ekki fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota í eitt ár samfellt. Nefndin tekur fram að hér er átt við að umsækjandi má ekki hafa fengið punkta fyrir umferðarlagabrot á undangengnum 12 mánuðum fyrir umsókn um fullnaðarskírteini. Þá fjallaði nefndin um Umferðarstofnun. Nefndin telur að stofnun hennar feli í sér einfalt og skilvirkt stjórnsýslukerfi umferðarmála sem er nauðsynlegt fyrir markvissa framkvæmd á því sviði, auk þess sem því fylgi hagkvæmt og öruggt rekstrarlegt umhverfi fyrir tölvukerfi sem eru á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi leggur nefndin til að heiti Umferðarstofnunar verði breytt í Umferðarstofu. Þá telur nefndin rétt að svipting ökukennararéttinda verði á vegum ríkislögreglustjóra og hann veiti jafnframt löggildingu til ökukennslu því þannig sé tryggt að allar upplýsingar verði á einni hendi og afgreiðsla samræmd. Nefndin telur jafnframt æskilegt að

ákvörðun um löggildingu eða sviptingu ökukennararéttinda verði kæranleg til æðra stjórnvalds. Loks er lagt til að gildistaka laganna verði 1. október 2002.

Alþingi, 17. apríl 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ólafur Örn Haraldsson.



Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.


Kjartan Ólafsson.



Guðjón A. Kristjánsson.


Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.