Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1260  —  620. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vörur unnar úr eðalmálmum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Færni íslenskra gullsmiða í gerð gripa úr eðalmálmum er ótvíræð og hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Í samanburði við helstu samkeppnislöndin er verð íslenskra skartgripa mjög samkeppnisfært. Í því ljósi má ætla að útrás íslenskra framleiðenda á þessu sviði ætti að takast prýðilega. Forsenda þess er þó að hér á landi gildi skýrar reglur um sönnun á því að gripur sé úr eðalmálmi. Það er undirstaða þess að unnt verði að ráðast í útflutning á íslenskum skartgripum. Slíkar reglur eru meginefni þessa frumvarps. Tilgangur þess er að tryggja greiðan og óheftan aðgang íslenskra skartgripa á erlenda markaði. Þingmenn Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hafa fullan skilning á því. Þeir eru þess vegna samþykkir megintilgangi frumvarpsins en vilja vekja athygli á eftirfarandi:
     1.      Hjá Evrópusambandinu er nú unnið að gerð tilskipunar um þetta efni. Í umsögn Samtaka verslunarinnar segir að með hliðsjón af því sé ástæðulaust að setja sérstök íslensk lög þar sem ljóst sé að þeim verði að breyta innan skamms.
     2.      Tíminn sem umsagnaraðilum var gefinn til að móta viðhorf til frumvarpsins var of skammur að dómi þingmanna Samfylkingarinnar. Samtök verslunar og þjónustu kvörtuðu þannig sérstaklega því að knappur frestur kæmi í veg fyrir að þau gætu kannað afstöðu aðildarfyrirtækja sinna. Sömu athugasemd gerðu Samtök verslunarinnar. Þau kvörtuðu í umsögn sinni yfir að skammur frestur hefði gert þeim ómögulegt að setja fram athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að vinnubrögð af þessu tagi séu hvorki fallin til að tryggja farsæla meðferð málsins né auka virðingu þingsins og nefnda þess.
     3.      Alvarlegustu athugasemdir minni hlutans varða þó mjög rúmar valdheimildir sem lagt er til að stjórnvöldum verði veittar. Samtök iðnaðarins og Félag íslenskra gullsmiða benda á að stjórnvöldum séu veitt víðtæk úrræði til að framfylgja lögunum, svo sem sölubann, háar dagsektir, og galopnar rannsóknarheimildir sem Samtök iðnaðarins ganga svo langt að jafna við húsleitarheimildir.
    Þingmenn Samfylkingarinnar vara af þessu tilefni við óhóflegum valdheimildum til stjórnvalda sem gætu þrengt að eðlilegu viðskiptafrelsi og persónuvernd þeirra sem hér eiga hlut að máli. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að gullsmiðir starfa að jafnaði sem einyrkjar eða í mjög litlum fyrirtækjum sem stundum tengjast einni fjölskyldu. Við samþykkt ákvæða af þessu tagi verður því að gæta ýtrustu varúðar.
    Þingmenn Samfylkingarinnar vilja vekja athygli á ofangreindum grundvallaratriðum. Þeir styðja þó að frumvarpið verði samþykkt í trausti þess að stjórnvöld setji skýrar reglur á grundvelli laganna þar sem meðalhófs verði gætt í hvívetna.

Alþingi, 18. apríl 2002.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.