Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1275  —  638. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Halldórsdóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Gest Guðjónsson frá Olíudreifingu og Ólaf Jónsson frá Skeljungi. Umsagnir bárust frá Olíudreifingu ehf., Skeljungi hf. og Samorku.
    Megintilgangur frumvarpsins er að kveða skýrar á um starfsleyfisskyldu og aðrar þær kvaðir sem þeirri skyldu fylgja í lögunum. Þannig er nú kveðið skýrt á um að allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun sem og stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögunum skuli hafa gilt starfsleyfi. Jafnframt er tekið fram að óheimilt sé að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Þá er lagt til að skilgreining hugtaksins hollustuvernd og heimild til að setja almennar reglur um framkvæmd hollustuverndar verði rýmkaðar nokkuð frá því sem nú er. Ástæða þessa er m.a. sú að á vissum sviðum eru atriði er varða öryggi almennings og slysavarnir svo tengd heilbrigðiseftirliti að rétt þykir að víkka skilgreiningu hugtaksins hollustuvernd þannig að það nái einnig til þessara þátta.
    Nefndin ræddi sérstaklega starfsemi olíubirgðastöðva. Á grundvelli 24. gr. laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, lúta olíubirgðastöðvar eftirliti Hollustuverndar ríkisins, sbr. einnig reglugerð nr. 35/1994, um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi. Skv. 4. gr. frumvarpsins (5. gr. a laganna) er gert ráð fyrir því að allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun verði starfsleyfisskyldur. Verði þessi breyting lögfest verður starfsemi olíubirgðastöðva starfsleyfisskyld og eftirlit sem verið hefur hjá Hollustuvernd ríkisins mun flytjast til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Það eftirlit sem hér um ræðir felst í sérhæfðum skoðunum sem óeðlilegt væri að byggja upp í hverju heilbrigðiseftirlitssvæði fyrir sig. Þar sem það er ekki markmið frumvarpsins að breyta því fyrirkomulagi sem hér um ræðir er nauðsynlegt að bæta olíubirgðastöðvum inn í fylgiskjal I með lögunum sem geymir lista yfir þann atvinnurekstur sem Hollustuvernd ríkisins veitir starfsleyfi fyrir.
    Fram kom í máli gesta að við setningu fyrrnefndrar reglugerðar um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi var sú kvöð lögð á eigendur olíubirgðastöðva að mengunarvörnum skyldi komið í fullkomið horf fyrir 31. desember 2005 og er 75% þeirrar áætlunar nú lokið. Til einföldunar við starfsleyfisgerð þar sem allar olíubirgðastöðvar munu þá uppfylla sömu skilyrði og til að koma í veg fyrir óþarfa óþægindi er nauðsynlegt að ekki verði gerð krafa um að olíubirgðastöðvar hafi starfsleyfi fyrr en að loknu því tímabili. Því er nauðsynlegt að bætt verði inn í lögin ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að aðilar sem féllu ekki áður undir starfsleyfisskyldu skuli afla sér starfsleyfis fyrir 31. desember 2005.


Prentað upp.

    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Í 1. málsl. 1. efnismgr. 4. gr. kemur fram að allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun skuli hafa gilt starfsleyfi. Lagt er til að hér verði bætt við tilvísun til 6. gr. laganna þar sem fram kemur að Hollustuvernd ríkisins gefur út slík leyfi auk heilbrigðisnefnda. Þetta er gert til samræmis við 3. gr. frumvarpsins en þar kemur fram hvaða starfsleyfi eru útgefin af heilbrigðisnefnd.
     2.      Í 7. gr. er vísað í lög um meðhöndlun úrgangs. Frumvarp til þeirra laga hefur ekki enn verið samþykkt og því er nauðsynlegt að fella þessa millivísun brott.
     3.      Nauðsynlegt þykir að bæta við ákvæði til bráðabirgða um öflun starfsleyfis fyrir olíubirgðastöðvar, sbr. umfjöllun hér að framan.
     4.      Lagt er til að í fylgiskjali I með lögunum bætist olíubirgðastöðvar við upptalningu um starfsleyfi sem Hollustuvernd veitir, sbr. umfjöllun hér að framan.
     5.      Lagt er til að í stað orðsins „Dýrasýningar“ í 8. gr., er verði 9. gr., komi orðin „Dýragarðar og umfangsmiklar dýrasýningar“. Ástæða þessa er sú að orðið „dýrasýningar“ þótti of víðtækt og þannig er gert ráð fyrir að einungis þurfi starfsleyfi fyrir umfangsmeiri sýningar. Í reglugerð yrði síðan kveðið nánar á um hvenær dýrasýning telst umfangsmikil. Til viðmiðunar gæti verið hversu margir sækja sýningarnar og hvort þær eru haldnar innan húss í húsnæði sem ætlað er til annarra nota, t.d. í íþróttahúsum. Þá þykir eðlilegt að gera þá kröfu að dýragarðar verði starfsleyfisskyldir.
     6.      Lagt er til að í stað orðsins „Gæsluvellir“ í 8. gr. komi „Gæsluvellir og opin leiksvæði“. Samkvæmt reglugerð um leikvelli og leikvallatæki sem nú er í smíðum er gert ráð fyrir að leiksvæði á opnum svæðum, t.d. á vegum sveitarfélaga, þurfi starfsleyfi. Leiksvæði á lóð fjölbýlishúss teldist þá ekki opið leiksvæði og þarf því ekki starfsleyfi en þarf þó að uppfylla önnur ákvæði reglugerðarinnar, t.d. um öryggi leiktækja.
     7.      Þá er lagt til að við upptalningu í 8. gr. verði bætt meindýravörnum. Hér er um að ræða sambærilega starfsemi og garðaúðun sem felur í sér meðferð hættulegra efna og eiturefna.

Alþingi, 16. apríl 2002.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Katrín Fjeldsted.


Jóhann Ársælsson.


Gunnar Birgisson.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Ásta Möller.


Ísólfur Gylfi Pálmason.