Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1332  —  285. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Unni Sverrisdóttur frá samgönguráðuneyti, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Guðjón Ármann Einarsson frá Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Siglingastofnun Íslands, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssambandi smábátaeigenda, Landhelgisgæslu Íslands, Hafnasambandi sveitarfélaga og meiri og minni hluta sjávarútvegsnefndar.
    Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið er tilgangur þess að auka möguleika íslenskra útgerða á að nýta skip sín til verkefna erlendis. Með þurrleiguskráningu er skip skráð á skipaskrá erlends ríkis en þó með þeim hætti að það er áfram skráð á íslenska skipaskrá.
    Í frumvarpinu eru tíunduð nokkuð ítarleg skilyrði fyrir því að þurrleiguskráning sé heimil en meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að setja beri ströng skilyrði fyrir slíkri skráningu skipa þannig að hagsmunir Íslands séu ávallt í öndvegi.
    Það er ljóst að veiðar íslenskra skipa sem stunda veiðar undir erlendum fána geta skapað veiðireynslu fyrir hina erlendu þjóð þegar veitt er á alþjóðlegum hafsvæðum sem ósamið er um. Slíkar veiðar geta verið andstæðar íslenskum hagsmunum. Í umsögn sjávarútvegsnefndar er þeirri spurningu velt upp hvað valdi því að íslenskar útgerðir kjósi að veiða á alþjóðlegum hafsvæðum undir fánum erlendra ríkja í stað þess að sigla undir fána Íslands. Leiðir meiri hluti sjávarútvegsnefndar líkur að því að ástæður þessa megi finna í minni kostnaði útgerðarinnar og þá einkum í minni launakostnaði.
    Þá gerir meiri hluti sjávarútvegsnefndar fiskverndunarsjónarmið að umtalsefni og tekur meiri hlutinn undir það sem þar segir.
    Meiri hlutinn telur þó full rök fyrir því að gera íslenskum útgerðum kleift að stunda veiðar á sem auðveldastan og hagkvæmasta hátt innan lögsögu annarra ríkja og á alþjóðlegum hafsvæðum þar sem Íslendingar eiga ekki hagsmuna að gæta.
    Í samræmi við framangreint leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem miða að því að tryggja heildarhagsmuni Íslendinga.
    Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins eru talin upp nokkur skilyrði sem skulu vera uppfyllt, samkvæmt staðfestingu sjávarútvegsráðuneytisins þar um, áður en Siglingastofnun veitir leyfi til þurrleiguskráningar skv. 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins. Meiri hlutanum þykir nauðsynlegt að skerpa á þessum skilyrðum að tvennu leyti. Annars vegar er lagt til að þurrleiguskráning verði óheimil eigi skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga ónýttar veiðiheimildir á grundvelli íslenskra laga eða reglugerða, milliríkjasamninga eða alþjóðasamninga á þeim hafsvæðum sem skipi, sem óskað er þurrleiguskráningar á, er ætlað að stunda veiðar. Hins vegar er lagt til að þurrleiguskráning verði óheimil ef þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að virkt eftirlit verði viðhaft bæði af Siglingastofnun og sjávarútvegsráðuneytinu þannig að ávallt sé tryggt að skip sem fengið hefur heimild til þurrleiguskráningar virði þau skilyrði sem mælt er fyrir um og að heimild til þurrleiguskráningar verði umsvifalaust felld niður komi annað í ljós.
    Þá leggur meiri hlutinn til að gerð verði sú breyting að í stað orðalagsins þjóðfáni Íslands komi orðalagið þjóðfáni Íslendinga. Þetta er í samræmi við lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:

     1.      Eftirfarandi breytingar verði á 2. efnismgr. 1. gr.:
                  a.      A-liður orðist svo: skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga eigi ekki ónýttar veiðiheimildir á grundvelli íslenskra laga eða reglugerða, milliríkjasamninga eða alþjóðasamninga á þeim hafsvæðum sem skipi er ætlað að stunda veiðar.
                  b.      E-liður orðist svo: þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „þjóðfána Íslands“ í 1. mgr. kemur: þjóðfána Íslendinga.
                  b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                     Skip, sem er skráð á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá, telst þó ekki vera íslenskt skip og hefur ekki rétt til að sigla undir þjóðfána Íslendinga meðan á þurrleiguskráningunni stendur.

Alþingi, 22. apríl 2002.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.