Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1366  —  711. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Umhverfisstofnun.

Frá 2. minni hluta umhverfisnefndar.



    Annar minni hluti umhverfisnefndar Alþingis gagnrýnir vinnubrögð umhverfisráðuneytisins við undirbúning og framlagningu frumvarps til laga um Umhverfisstofnun. Frumvarpið var afgreitt á stuttum tíma í umhverfisnefnd Alþingis, umfjöllun um það var ófullnægjandi og mörgum spurningum er enn ósvarað um markmið, skipulag, verkefni og almenna starfsemi hinnar nýju stofnunar. Málið er vanbúið og ótímabært. Nær hefði verið að undirbúa skipulagsbreytingar á stofnunum umhverfisráðuneytis betur og gefa útfærslu breytinganna meiri gaum. Þá hefði t.d. gefist kostur á því að huga að verkefnum á sviði umhverfismála sem heyra nú undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.
    Að auki telja undirrituð að við endurskoðun sem þessa hefði verið skynsamlegra að skoða stofnanauppbyggingu umhverfisráðuneytisins í heild. Annar minni hlutinn gerir ekki lítið úr nauðsyn þess að huga að sameiningu ríkisstofnana í því augnamiði að gera rekstur þeirra hagkvæmari, skilvirkari og faglegri. Í því tilfelli sem hér um ræðir er undirbúningur og markmiðssetning sameiningarinnar öll í skötulíki og í þokkabót má skilja á umsögn fjármálaráðuneytis um frumvarpið að eftir sem áður verði þeim stofnunum sem hér um ræðir naumt skammtað fé til rekstrar og því verði eftir sem áður aðeins unnt að sinna brýnustu verkefnum þeirra. Varla geta það talist háleit markmið á sviði umhverfismála.
    Hér skulu tíunduð nánar rök 2. minni hluta umhverfisnefndar fyrir því að leggjast gegn stofnun Umhverfisstofnunar með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpi umhverfisráðherra.
    Það er álit 2. minni hluta að réttast hefði verið að skipa fyrst starfshóp til að undirbúa sameiningu þessara stofnana og að sá starfshópur hefði átt að hafa náið samráð við starfsmenn stofnananna um fyrirkomulag sameiningarinnar og verkaskiptingu. Einboðið er að fulltrúar starfsmanna eigi sæti í starfshópi sem skipaður verður samkvæmt frumvarpinu verði það að lögum.
    Hæfniskröfur til forstjóra eru ekki skýrar utan að viðkomandi á að hafa háskólamenntun. Ekki er því talið nauðsynlegt að forstjórinn hafi sérþekkingu á viðfangsefnum stofnunarinnar en engu að síður hefur hann síðasta orðið um mannaráðningar. Í nýrri Umhverfisstofnun getur einnig hæglega komið til hagsmunaárekstra innan húss, t.d. ef Náttúruvernd ríkisins leggst gegn veitingu starfsleyfis sem Hollustuvernd þarf svo að taka afstöðu til. Hver á þá að vera úrskurðaraðili innan stofnunarinnar? Forstjóri sem e.t.v. hefur ekki sérþekkingu á því máli sem fjallað er um? Þennan hnút þarf að leysa áður en af sameiningu framangreindra stofnana getur orðið.
    Hreindýraráð verður lagt niður en áfram á að hafa einn starfsmann á Austurlandi. Í bréfi hreindýraráðs er ekki gerð athugasemd við að yfirstjórn hreindýramála verði hjá Umhverfisstofnun en skipulagning veiðanna verði áfram í höndum heimamanna. Lögð er áhersla á að áfram verði starfandi ráðgefandi hreindýraráð sem umhverfisráðherra skipi. Hreindýraráð fengi hlutverk ráðgjafarnefndar um vernd, veiði og nýtingu hreindýrastofnsins á Austurlandi.
    Í umsögn Skotveiðifélags Íslands kemur fram að félagið telur embætti veiðistjóra eiga að vera í Reykjavík, enda búi um 80% íslenskra skotveiðimanna á höfuðborgarsvæðinu. Þá er bent á að sum verkefni embættisins mætti bjóða út, t.d. námskeiðahald og útgáfu veiðikorta.
    Áhyggjur af sessi matvælaeftirlits innan hinnar nýju stofnunar koma fram í umsögn Samtaka iðnaðarins. Þar segir m.a. að samtökin telja nær að efla matvælaeftirlit fremur en draga úr því eins og veruleg hætta virðist á ef málefni matvæla verða gerð að lítt skilgreindum hluta mun stærri stofnunar.
    Starfsmenn eru uggandi um sinn hag. Fram kom á fundi umhverfisnefndar að starfsfólk matvælasviðs Hollustuverndar hafi áhyggjur af því að sviðið verði utan garðs í hinni nýju stofnun. Starfsfólk eiturefna- og mengunarsviðs er hins vegar jákvætt gagnvart breytingunni, ekki síst í ljósi þess að það á að flytjast í nýtt og boðlegt húsnæði. Starfsmenn Náttúruverndar ríkisins fluttust í nýtt húsnæði árið 2000 en eins og gefur að skilja tekur nokkurn tíma að koma sér fyrir á nýjum stað. Til þess að eyða óvissu vegna hins hugsanlega sameiningarferlis verður m.a. að tryggja starfsmönnum sæti í undirbúningshópnum og sjá til þess að þeir hafi aðgang að öllum upplýsingum um ferlið. Réttarstöðu starfsmanna þarf líka að skýra betur, t.d. það ákvæði til bráðabirgða að starfsmenn eigi forgang til starfa á fyrsta starfsári stofnunarinnar.
    Hlutfallsleg stærð þessara stofnana er einnig umhugsunarefni eins og bent hefur verið á, m.a. í umsögn dýraverndarráðs. Þar segir: „Dýraverndarráð bendir á að þær stofnanir og nefndir sem ætlunin er að sameina í Umhverfisstofnun eru misstórar og ráðið telur mikla hættu á að ekki verði jafnræði með þeim. Í þessu sambandi má nefna að dýraverndarráð hefur í dag einn starfsmann í 25% starfshlutfalli, hreindýraráð hefur einn starfsmann, embætti veiðistjóra 5 starfsmenn, Náttúruvernd ríkisins 17 starfsmenn á móti 50 starfsmönnum Hollustuverndar ríkisins. Að mati dýraverndarráðs verður í lagafrumvarpinu að vera tryggt að starfsemi minni eininganna beri ekki skaða af sameiningunni. Einnig verður að koma skýrt fram hvernig slík sameining á að auka hagræðingu en það er að mati ráðsins ekki nægilega vel rökstutt.“ Óhætt er að taka heils hugar undir þessar ábendingar.
    Eftirlit með alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála er í lausu lofti og óljóst hvernig þeim verður framfylgt. Svo virðist sem lítill skilningur sé innan umhverfisráðuneytisins á mikilvægi þeirrar þekkingar sem aflað hefur verið innan Náttúrufræðistofnunar Íslands á framkvæmd og eftirliti með alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála. Ekki er hægt að draga aðra ályktun af þeirri hugmynd að flytja þessi verkefni til Umhverfisstofnunar án þess að kveða nánar á um hvernig skuli að því staðið. Fram kom í máli fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands að þar á bæ þætti eðlilegt að stækka starfshópinn sem undirbúa á starfsemi Umhverfisstofnunar, m.a. með tilliti til alþjóðlegra samninga.
    Einnig verður að teljast fráleitt að kveða á um það í lögum, sbr. 1. gr. frumvarpsins, að stofnunin skuli vera í Reykjavík. Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði og það hlýtur að ráðast af framboði hentugs leiguhúsnæðis á svæðinu hvar hagkvæmt verður að setja hina nýju stofnun niður.
    Að síðustu skal á það bent að það er til lítils að sameina nokkrar fjársveltar stofnanir og gera úr þeim eina stóra fjársvelta Umhverfisstofnun. Sem dæmi má nefna að forstjóri Hollustuverndar telur að 150 millj. kr. vanti árlega til þess að standa undir skuldbindingum stofnunarinnar vegna EES-samningsins. Hvert verður í raun sóknarfæri hinnar nýju Umhverfisstofnunar ef framlög þessarar starfsemi verða áfram skorin niður við trog?
    Þá verður að teljast óraunhæft með öllu að kostnaður við flutning þessara fimm stofnana undir eitt þak verði ekki neinn eins og haldið er fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Verði af þessari sameiningu er ljóst að gera verður ráð fyrir flutningskostnaði í fjárlögum 2003 en fram kom í máli forstjóra Náttúruverndar ríkisins að kostnaðurinn gæti numið allt að 40 millj. kr.
    Annar minni hluti telur fagleg samlegðaráhrif af sameiningu þessara stofnana geta verið jákvæð til lengri tíma litið en undirbúningi sameiningarinnar er ábótavant í öllum aðalatriðum. Því leggst 2. minni hluti gegn því að frumvarp til laga um Umhverfisstofnun verði samþykkt.

Alþingi, 21. apríl 2002.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


frsm.


Jóhann Ársælsson.