Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1428  —  680. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um breyt. á vegáætlun fyrir árin 2000–2004.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Samkvæmt vegalögum ber á þessu þingi að endurskoða vegáætlun til næstu fjögurra ára, þ.e. fyrir tímabilið 2002–2006. Sú skipan sem komist hefur á að gera vegáætlun til nokkurra ára í senn hefur skapað aukna festu í þessum málaflokki. Hægt hefur verið að bjóða út verk sem eru á vegáætlun næstu ára og vinna í samfellu. Að sjálfsögðu er framkvæmd áætlunarinnar háð fjárveitingum í fjárlögum hvers árs. Það er mikil afturför af hálfu Alþingis að geta ekki haldið í heiðri því ágæta vinnulagi að samþykkja þingsályktunartillögu um vegáætlun til fjögurra ára í senn. Sú áætlun sem nú liggur fyrir Alþingi tekur aðeins til næstu átta mánaða. Rökin sem færð eru fyrir þessu ráðslagi eru að frá og með næsta hausti verði unnin annars vegar fjögurra ára samræmd samgönguáætlun og hins vegar tólf ára samræmd samgönguáætlun sem taki til samgangna á landi, sjó og í lofti.
    Að mati 1. minni hluta er þetta röng nálgun þessa máls. Miklu réttara væri að vinna að nýju fjögurra eða a.m.k. tveggja ára vegáætlun í samræmi við núgildandi lög sem yrði svo breytt í samræmi við nýjar áherslur í samræmdri samgönguáætlun á næsta vetri. Það að vegáætlun er nú afgreidd aðeins fyrir yfirstandandi ár hefur leitt til þess að forsvarsmenn Vegagerðarinnar hafa óskað eftir að með nefndaráliti meiri hlutans fylgi sérstakur listi yfir skuldbindingar sem mæta þarf á árunum 2003 og 2004.

Niðurskurður fjármagns til samgöngumála.
    Samkvæmt tillögum meiri hlutans er gerð tillaga um niðurskurð til vegamála frá gildandi vegáætlun á þessu ári um 2.219 millj. kr. ef teknar eru með fjárveitingar til vegamála sem frestað var á síðasta ári, um 700 millj. kr. Beinn niðurskurður á þessu ári er 1.519 millj. kr.

Byggðamál og vegagerð.
    Í allri byggðaumræðu hefur verið lögð áhersla á bættar samgöngur og betri vegi, bæði innan sveitar og milli héraða. Íbúar sveitanna eru í auknum mæli háðir bættum samgöngum. Æ fleiri stunda daglega vinnu í næsta þéttbýli. Fækkun íbúa og sífellt strjálbýlli byggð auk sameiningar sveitarfélaga hefur leitt til þess að litlum sveitaskólum hefur verið lokað einum af öðrum. Við það lengist akstur skólabarna og kröfur um styttingu leiða og betri vegi verða enn háværari. Gott vegasamband getur ráðið úrslitum um byggð og búsetu á mörgum svæðum. Það skýtur því skökku við í allri byggðaumræðunni að skera niður fjárveitingar til vegamála í hinum dreifðu byggðum landsins. Heilu byggðarlögin, svo sem á Vestfjörðum og Norðausturlandi, bíða enn stórátaks í vegamálum til að treysta innri byggð og samgöngur við aðra landshluta.

Frestun endurbóta á brúm.
    Frestað er framkvæmdum við endurgerð tveggja stórbrúa sem eru mikill flöskuháls í flutninga- og öryggismálum. Hér er um að ræða brýrnar yfir Vatnsdalsá í Austur-Húnavatnssýslu og Skaftá í Vestur-Skaftafellssýslu. Komi ekki aukið fjármagn til þessa málaflokks á næsta ári mun þessi niðurskurður seinka átaki sem boðað var um endurgerð og breikkun einbreiðra brúa.

Jarðgöng frestast enn.
    Samkvæmt vegáætlun var gert ráð fyrir að jarðgangagerð færi á þessu ári á fulla ferð fyrir austan, á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, og einnig gerð jarðganga til Siglufjarðar.
    Dapurlegt er dugleysi stjórnvalda í áframhaldandi jarðgangagerð til samgöngubóta. Þegar gerð svokallaðra Vestfjarðaganga lauk 1996 voru áætlanir um að í beinu framhaldi yrði ráðist í gerð jarðganga á Austurlandi. Átta ár hafa nú liðið í fullkomnu aðgerðarleysi af hálfu stjórnvalda. Í stað þess að einblína á stóriðjuframkvæmdir á Miðausturlandi hefðu stjórnvöld átt að verja auknu fé til samgöngubóta og jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar ættu að fá sérstaka flýtimeðferð. Þau jarðgöng gætu raunar verið tilbúin eða langt komin ef hugur hefði fylgt máli.

Lokaorð.
    Í dreifbýlu landi eins og Íslandi skipta samgöngur miklu máli fyrir hagsæld, búsetu, þróun atvinnulífs og jöfnun lífskjara meðal þjóðarinnar. Niðurskurður fjármagns til samgöngumála og frestun framkvæmda í vegamálum bera með sér rangar áherslur stjórnvalda og valda miklum vonbrigðum hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.
    Fjármagn til vegaframkvæmda á þessu ári var ákveðið með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2002. Var ákveðinn heildarniðurskurður fjármagns til vegamála frá gildandi vegáætlun um 1.519 millj. kr. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmæltu þessum niðurskurði við afgreiðslu fjárlaga.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði kosið öflugri framkvæmdir í vegamálum í stað niðurskurðar, en mun þó ekki leggjast gegn því að þessi vanburða vegáætlun ríkisstjórnarflokkanna fyrir árið 2002 verði afgreidd frá Alþingi eins og málum er komið.

Alþingi, 24. apríl 2002.



Jón Bjarnason.