Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1442, 127. löggjafarþing 204. mál: atvinnuréttindi útlendinga (heildarlög).
Lög nr. 97 10. maí 2002.

Lög um atvinnuréttindi útlendinga.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Ákvæði laga þessara gilda um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi. Um undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi gilda ákvæði III. kafla.
     Íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögunum.

2. gr.

Tilgangur.
     Lögin gefa heimild til að veita atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.
     Lögunum er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni og kveða á um rétt útlendinga til atvinnu hér á landi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.

3. gr.

Orðskýringar.
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
  1. Atvinnuleyfi: Leyfi sem félagsmálaráðherra veitir útlendingi til að starfa hér á landi eða atvinnurekanda til að ráða útlending í starf.
  2. Tímabundið atvinnuleyfi: Tímabundið leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa.
  3. Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna: Tímabundið leyfi veitt útlendingi vegna sérhæfðra verkefna.
  4. Óbundið atvinnuleyfi: Ótímabundið leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.
  5. Atvinnuleyfi vegna námsdvalar og vistráðningar: Atvinnuleyfi erlendra námsmanna í íslenskum skólum eða vegna samninga um vistráðningu á heimili.
  6. Atvinnurekandi: Einstaklingur eða fyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi er háttað.
  7. Búsetuleyfi: Leyfi sem gefið er út með varanlega dvöl í huga samkvæmt lögum um útlendinga.
  8. Útlendingur: Einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.
  9. Nánustu aðstandendur: Maki, sambúðarmaki, samvistarmaki, niðjar yngri en 18 ára og ættmenni útlendings eða maka að feðgatali.


4. gr.

Framkvæmd laganna.
     Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.
     Vinnumálastofnun fer í umboði ráðherra með framkvæmd laganna.

II. KAFLI
Atvinnuleyfi.

5. gr.

Almennt.
     Atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
     Leyfi samkvæmt lögum þessum er heimilt að binda skilyrðum öðrum en þeim er koma fram í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynleg vegna mikilvægra almannahagsmuna.
     Vinnumálastofnun skal gefa út atvinnuleyfi samkvæmt nánari ákvæðum sem sett skulu í reglugerð.

6. gr.

     Óheimilt er að veita útlendingi atvinnuleyfi sem dvelst hér á landi án dvalarleyfis eða hefur verið gert að fara af landi brott samkvæmt lögum um útlendinga. Sé þessu skilyrði ekki fullnægt og útlendingurinn dvelst í landinu á grundvelli bráðabirgðadvalarleyfis samkvæmt lögum um útlendinga má veita honum tímabundið atvinnuleyfi að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr.
     Óheimilt er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis.
     Útlendingi er óheimilt að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt nema leyfi hafi verið veitt samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

Tímabundið atvinnuleyfi.
     Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
  1. Að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu. Áður en atvinnuleyfi er veitt ber atvinnurekanda að hafa leitað til svæðisvinnumiðlunar eftir vinnuafli, nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati Vinnumálastofnunar.
  2. Að fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands. Umsögn skal liggja fyrir innan 14 daga frá móttöku umsagnaraðila á umsókn um atvinnuleyfi. Þó er heimilt í sérstökum tilvikum að víkja frá þessu skilyrði þegar ekki er til að dreifa stéttarfélagi eða landssambandi í hlutaðeigandi starfsgrein.
  3. Að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
  4. Að atvinnurekandi sjúkratryggi erlendan starfsmann þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga.
  5. Að atvinnurekandi ábyrgist greiðslu á heimflutningi starfsmanns að starfstíma loknum ef starfsmaður verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa og ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á. Í ráðningarsamningi komi fram til hvaða lands heimflutningur nær.
  6. Að lagt hafi verið fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.

     Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna nánustu aðstandenda útlendings sem fengið hefur búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi. Skilyrði er að áður hafi verið veitt dvalarleyfi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Við veitingu leyfis samkvæmt þessari málsgrein er heimilt að víkja frá skilyrðum a- og e-liðar 1. mgr.
     Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna útlendings, sem sótt hefur um hæli, þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina, svo og vegna útlendings, sem fengið hefur endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi, þar til brottvísun kemur til framkvæmda, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess. Skilyrði er að áður hafi útlendingi verið veitt bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Við veitingu leyfis samkvæmt þessari málsgrein er heimilt að víkja frá skilyrðum a-, b- og e-liðar 1. mgr.
     Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um tímabundin atvinnuleyfi.

8. gr.

     Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, einnig ef skilyrði skv. 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. eru fyrir hendi.
     Atvinnuleyfi sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að framlengja það um allt að tvö ár í senn, enda séu uppfyllt skilyrði sem fram koma í a–c- liðum 1. mgr. 7. gr.
     Hafi ríki gert samning við Ísland um atvinnuréttindi er heimilt að veita útlendingi frá því ríki atvinnuleyfi til lengri tíma en greinir í 2. mgr. Hið sama gildir ef ríki er aðili að alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem Ísland hefur fullgilt.

9. gr.

Íslenskukennsla og samfélagsfræðsla.
     Atvinnurekandi og stéttarfélag skulu veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.

10. gr.

Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna.
     Heimilt er við sérstakar aðstæður að veita útlendingi, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum fyrirtækis sem ekki hefur starfsstöð hér á landi, tímabundið atvinnuleyfi, að uppfylltum skilyrðum c–f-liðar 1. mgr. 7. gr.
     Þjónustusamningur við fyrirtæki hér á landi skal liggja fyrir. Í samningnum skal m.a. koma fram að skilyrði viðskiptanna sé að starfsmaður hins erlenda fyrirtækis annist þjónustuna.
     Leyfi samkvæmt þessari grein skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama þjónustusamnings.
     Atvinnuleyfi veitt samkvæmt þessari grein skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur til landsins.

11. gr.

Óbundið atvinnuleyfi.
     Heimilt er að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
  1. að hann hafi átt lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár,
  2. að hann hafi öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga,
  3. að áður hafi verið veitt leyfi skv. 7. gr.

     Víkja má frá skilyrðum 1. mgr. ef íslenskur ríkisborgari fær lögskilnað eða slítur sambúð eða samvist við erlendan maka sinn. Þarf hjúskapur, staðfest samvist eða skráð sambúð að hafa varað í a.m.k. tvö ár og erlendi makinn þarf að hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. sama tíma. Enn fremur er heimilt að víkja frá skilyrðum 1. mgr. vegna erlends maka ef um andlát íslensks maka er að ræða eða í hlut á maki útlendings sem hefur óbundið atvinnuleyfi eða börn hans 18 ára og eldri.
     Víkja má frá skilyrði c-liðar 1. mgr. ef um er að ræða útlending sem verið hefur í námi hér á landi að lágmarki í þrjú ár og lokið því.
     Heimilt er að veita útlendingi, sem hefur fengið landvist hér á landi sem flóttamaður, óbundið atvinnuleyfi.
     Leyfi samkvæmt þessari grein gildir meðan útlendingur hefur lögheimili hérlendis.

12. gr.

Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.
     Heimilt er að veita útlendingi, sem stundar fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla, leyfi til að stunda vinnu sem hluta af námi, með námi eða í námsleyfum, enda sé námsframvinda eðlileg.
     Skilyrði fyrir veitingu leyfis samkvæmt þessari grein er framvísun innritunarvottorðs hlutaðeigandi skóla. Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að framlengja atvinnuleyfi vegna námsdvalar gegn innritunarvottorði og vottorði um námsframvindu.
     Skilyrði þess að atvinnuleyfi sé veitt á grundvelli þessarar greinar er að útlendingur hafi lagt fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um atvinnuleyfi vegna námsdvalar, þ.m.t. hámarksvinnustundafjölda.

13. gr.

Atvinnuleyfi vegna vistráðningar.
     Heimilt er að veita leyfi til að ráða útlending á aldrinum 18–26 ára í vist á íslenskt heimili.
     Skilyrði fyrir veitingu leyfis er að fyrir liggi skriflegur samningur milli aðila þar sem fram kemur m.a. gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími, réttur til að stunda nám og ákvæði um sjúkra- og slysatryggingar. Fæði og húsnæði skal vera ókeypis.
     Skilyrði þess að atvinnuleyfi sé veitt á grundvelli þessarar greinar er að útlendingur hafi lagt fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
     Óheimilt er að veita leyfi til ráðningar sama einstaklings skv. 1. mgr. til lengri tíma en eins árs.
     Vinnumálastofnun skal gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu. Á eyðublaðið skal prenta upplýsingar um ábyrgð þess sem ræður til sín útlending í vist, m.a. í sambandi við sjúkra- og slysatryggingar og önnur hlunnindi.
     Vinnumálastofnun skal ákveða upphæð vasapeninga sem greiða skal útlendingi sem ráðinn hefur verið í vist skv. 1. mgr.
     Vinnumálastofnun er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki alla milligöngu og eftirlit með ráðningum skv. 1. mgr.
     Nánar skal kveða á um skilyrði þessa ákvæðis í reglugerð.

III. KAFLI
Undanþáguákvæði.

14. gr.

     Eftirtaldir eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi:
  1. Útlendingar sem falla undir reglur um Evrópska efnahagssvæðið.
  2. Útlendingar sem falla undir reglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
  3. Útlendingar sem hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt.
  4. Erlendir makar íslenskra ríkisborgara og börn þeirra að 18 ára aldri.
  5. Útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.


15. gr.

     Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi:
  1. Vísindamenn og fyrirlesarar að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi.
  2. Listamenn, að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum. Undanþága samkvæmt þessum lið tekur ekki til dansara sem koma fram á næturklúbbum, sbr. i-lið 9. gr. laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, sbr. lög nr. 66/2000.
  3. Íþróttaþjálfarar.
  4. Fulltrúar í viðskiptaerindum fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis.
  5. Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki, enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
  6. Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla sem eru í þjónustu fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð á Íslandi.
  7. Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja.

     Ráðherra getur sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu samkvæmt þessari grein.

IV. KAFLI
Afturköllun atvinnuleyfis og viðurlög.

16. gr.

Afturköllun.
     Vinnumálastofnun er heimilt að afturkalla atvinnuleyfi ef útlendingur eða atvinnurekandi hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu atvinnuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

17. gr.

Refsiákvæði.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður:
  1. af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eða
  2. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir í máli samkvæmt lögum þessum upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi.

     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:
  1. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur atvinnuleyfi samkvæmt lögunum,
  2. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milligöngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending eða gefur út eða miðlar yfirlýsingum, umsögnum eða skjölum til notkunar í máli samkvæmt lögunum ef hann með því notfærir sér ótilhlýðilega aðstæður útlendingsins,
  3. af ásetningi með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd, eða á annan ótilhlýðilegan hátt, tælir útlending til að koma til landsins í atvinnuskyni,
  4. í hagnaðarskyni aðstoðar útlending við að stunda atvinnu án tilskilinna leyfa.

     Það varðar sektum eða fangelsi allt að fimm árum að reka skipulagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að starfa hér á landi án atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum.
     Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
     Tilraun eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

18. gr.

Heimflutningur.
     Sá sem hefur milligöngu um að útlendingur flytjist til landsins í atvinnuskyni án tilskilinna leyfa, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 17. gr., skal greiða allan kostnað við að flytja útlending úr landi.

V. KAFLI
Samráð Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.

19. gr.

Samráðsnefnd.
     Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun skulu koma á fót sérstakri samráðsnefnd vegna framkvæmdar laga þessara.
     Samráðsnefndin skal skipuð fjórum mönnum og skipar hvor stofnunin tvo menn í nefndina. Skipunartími nefndarinnar er tvö ár. Samráðsnefndin velur formann úr hópi nefndarmanna. Skal formaður annast boðun funda og stjórn þeirra.

20. gr.

     Vinnumálastofnun skal tilkynna allar atvinnuleyfisveitingar og synjanir til Útlendingastofnunar.
     Útlendingastofnun skal í samráði við Vinnumálastofnun gefa út skírteini þar sem m.a. komi fram upplýsingar um dvalarleyfi og réttindi útlendingsins til að stunda vinnu á Íslandi. Þar skulu einnig vera nauðsynlegar persónuupplýsingar. Heimilt er að krefja umsækjanda um atvinnuleyfi um endurgjald fyrir skírteinið. Endurgjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þess.

VI. KAFLI
Málsmeðferð.

21. gr.

Almennar reglur um málsmeðferð.
     Stjórnsýslulögin gilda um meðferð mála nema annað leiði af lögum þessum.

22. gr.

Málshraði.
     Vinnumálastofnun skal taka ákvörðun um hvort orðið er við umsókn um atvinnuleyfi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsókn berst.
     Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýst um ástæðu tafanna og hvenær ákvörðunar er að vænta.

23. gr.

Leiðbeiningarskylda.
     Í máli er varðar synjun eða afturköllun atvinnuleyfis skal stjórnvald leiðbeina útlendingi um kæruheimild skv. 24. gr. laganna.

24. gr.

Kæruheimild.
     Ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfis má kæra til félagsmálaráðuneytis.
     Nú vill umsækjandi nýta sér kæruheimild og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga um stjórnsýslukæru.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði og gildistaka.

25. gr.

Samstarfsnefnd.
     Félagsmálaráðherra skal skipa samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Samstarfsnefndin skal kölluð saman:
  1. vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa,
  2. þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga.


26. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.
     Við gildistöku laganna falla úr gildi lög nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga.

Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2002.