Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:38:25 (2816)

2003-01-21 13:38:25# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í næstu viku fara fram á Alþingi umræður um heimild til að reisa álver í Reyðarfirði. Sú heimild verður ekki aðskilin heimild til að reisa virkjun við Kárahnjúka. Tvær ástæður eru fyrir því að þessar framkvæmdir verða ekki aðskildar. Í fyrsta lagi má líta á virkjunina sem hluta af álverinu. Það er reist einvörðungu til að knýja þessa einu verksmiðju. Hin ástæðan fyrir því að Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðjan eru óaðskiljanlegar framkvæmdir er sú að ef af þeim yrði mundu þær byggja á fjárfestingum sem saman hefðu í för með sér mjög miklar og að öllum líkindum afdrifaríkar efnahagslegar afleiðingar.

Deilur efnahagssérfræðinga um sjálfa virkjunina hafa verið af tvennum toga. Annars vegar hvort fjárfestingin sé arðvænleg í þeim skilningi að hún skili meiri arði en aðrir fjárfestingarkostir mundu gera. Margir málsmetandi hagfræðingar hafa verið efins um þetta, ekki síst í flokki hæstv. forsrh. Hér vísa ég til gagnrýni á þessa risavöxnu miðstýrðu framkvæmd. Þeir telja hana ekki arðsama í þeim skilningi og það sem verra er, þeir telja að hún verði beinlínis þrándur í götu annars atvinnureksturs, sérstaklega smárra og meðalstórra fyrirtækja sem munu þurfa að taka lán með hærri vöxtum en ella til að vaxa áfram eða hreinlega bara til að brúa bilið milli útgjalda og tekjustreymis. Í þessu sambandi er talað um ruðningsáhrif í atvinnulífinu. Þessum fyrirtækjum yrði hreinlega rutt úr vegi.

Hitt deilumálið á meðal efnahagssérfræðinga er enn alvarlegra og vísa ég til þeirra sérfræðinga sem staðhæfa í ljósi þeirra gagna sem liggja fyrir og þess sem ætla má um framkvæmdina að beinlínis verði bókhaldslegt tap á framkvæmdinni. Íslendingar munu með öðrum orðum tapa á því að reisa orkuverið fyrir Alcoa. Því miður hefur margt komið fram sem bendir til að þessir aðilar hafi rétt fyrir sér. Enginn deilir um að Kárahnjúkavirkjun muni valda miklum óafturkræfum náttúruspjöllum. Það er helst að vinir okkar í Samfylkingunni telji að virkjunin sé ákjósanleg umgjörð fyrir þjóðgarð. En þrátt fyrir þessi náttúruspjöll segir ríkisstjórnin að hinn efnahagslegi ávinningur sé svo mikill að réttlætanlegt sé að fórna náttúrunni. Þetta hefur verið röksemd ríkisstjórnarinnar.

Þeir sem svona tala verða að geta stutt mál sitt mjög gildum rökum. Á það hefur skort. Sjálf hefur ríkisstjórnin margoft sagt að ef ekkert verði að gert samhliða þessari gríðarmiklu innspýtingu á fjármagni í hagkerfið mundi það ofhitna með blússandi verðbólgu og afleiðingum sem til lengri tíma mundu grafa undan efnahag þjóðarinnar. Þessu sé hins vegar hægt að mæta á þrennan hátt. Í fyrsta lagi með því að hækka vexti, gera lánsfjármagn dýrara. Hvers vegna? Til að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki sækist eftir fjármagni til framkvæmda. Með öðrum orðum til að sporna gegn því að þau byggi sig upp og færi út kvíarnar.

En það er meira sem gerist. Hækkun vaxta mundi að sjálfsögðu koma í bakið á þeim fyrirtækjum sem þegar eru skuldsett og verða áfram háð lánafyrirgreiðslu. Hefur ríkisstjórnin á prjónunum mótvægisaðgerðir gagnvart skuldsettum aðilum, einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum. Á hvern hátt er ráðgert að draga úr ruðningsáhrifum þessara stóriðjuframkvæmda?

Í öðru lagi er talað um að hið opinbera dragi úr fjárfestingum sínum. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur í haust alltaf annað veifið verið að spyrjast fyrir um Sundabrautina í Reykjavík, hvað því líði að hún verði lögð. Ég held að honum sé óhætt að gleyma henni næstu árin og hið sama gildir um vegáætlun fyrir landið í heild nema náttúrlega, og við því þurfum við að fá svör og það skýr svör, að niðurskurðarhnífnum verði beitt einvörðungu á skóla, söfn og sjúkrahús. Hér þarf ríkisstjórnin að tala skýrt. Hvar verður skorið niður?

Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin talað um nauðsyn þess að opna vinnumarkaðinn tímabundið fyrir innstreymi erlends vinnuafls. Hvers vegna? Til að koma í veg fyrir að takmarkað framboð á innlendum vinnumarkaði hleypi launakostnaði upp. Fyrir erlendu fyrirtækin þýðir þetta á mannamáli möguleikana á að flytja inn ódýrt vinnuafl til að undirbjóða innlent og nú berast einmitt fréttir af því að ítalska fyrirtækið Impregilo ætli að flytja allt sitt vinnuafl inn. Hafa farið fram viðræður við Samtök íslenskra málmiðnaðarmanna eða önnur hlutaðeigandi samtök sem hafa ályktað og krafist þess að Landsvirkjun og stjórnvöld tryggi fulla atvinnuþátttöku Íslendinga í virkjana- og álversframkvæmdunum ef af þeim verður? Sem við vonum að verði ekki.

Að lokum er það spurningin um gengið. Hvar verða lánin til framkvæmdanna tekin? Einkum hefur verið talað um lán í útlöndum en það mundi hækka krónuna í verði. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvaða afleiðingar ríkisstjórnin telji slíka erlenda lántöku hafa fyrir útflutningsgreinarnar og er þegar farin að hafa. Eða ætlar hann ekki að taka varnaðarorð fulltrúa úr sjávarútvegi alvarlega?