Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:52:48 (2820)

2003-01-21 13:52:48# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Fólksfækkun er mest á norðausturhorninu, austan Eyjafjarðar; Norðvesturlandi, norðan Borgarfjarðar og á Austurlandi. Ég tel að það sem við þurfum að hafa mestar áhyggjur af, a.m.k. á þessu ári og jafnvel því næsta, sé vaxandi atvinnuleysi eins og komið hefur fram að undanförnu. Ég tel óráð að draga úr framkvæmdum ríkisins á þessu ári. Ég held að réttara væri að styrkja atvinnustigið á þessu ári og efla framkvæmdir ríkisins.

Hins vegar þarf auðvitað, þegar kemur fram á árið 2005 og 2006, að bregðast við þeim miklu framkvæmdum sem þá mun farið í á landinu. Að mínu viti er mesta vandamálið nú um stundir það atvinnustig sem virðist vera á landinu. Fólksflóttinn af landinu hefur beinst til suðvesturhornsins, þangað hefur fólkið leitað.

Ég hef miklar áhyggjur af mínu kjördæmi, hinu nýja Norðvesturkjördæmi, varðandi það hvað eigi að verða til vaxandi velsældar þar. Þar eru ekki fyrirhugaðar neinar sérstakar framkvæmdir til mótvægis við þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru á Austurlandi og verða þar vonandi öllum til gæfu og gengis.